Hoppa yfir valmynd

Starfshópur um umgjörð orkumála á Íslandi út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skipaður 14. september 2023.

Starfshópurinn hefur það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra varðandi umgjörð orkumála á Íslandi út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum.

Til að stjórnvöld nái markmiðum sínum í orku- og loftslagsmálum er nauðsynlegt að leita allra leiða. Í langtímaorkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050 segir „Til að Ísland verði áfram samkeppnishæft er mikilvægt að til staðar sé virkur samkeppnishæfur orkumarkaður sem skilar fjölbreyttum og misstórum notendum orku á sanngjörnu verði. Virkur og gegnsær markaður stuðlar að jafnvægi í framboði og eftirspurn og þar með bættu orkuöryggi“.

Mikilvægt er að starfsumhverfi orkufyrirtækjanna styðji við aukna framleiðni, bætta nýtingu, dragi úr sóun og taki tillit til neytendasjónarmiða, hvort heldur sem snýr að raforku eða varma. Þá eru ýmsar áskoranir sem blasa við varðandi dreifingu og flutning orku. Í orkustefnu segir einnig „Því er mikilvægt að nýta alla auðlindastrauma, lágmarka töp og endurnýta orku eftir því sem kostur er. Horfa þarf til allrar virðiskeðju orkunýtingar, frá auðlind og innviðum til notandans. Þegar hugað er að nýjum sem eldri orkukostum verði fundnar lausnir sem fela í sér hámarksnýtingu orkunnar. Bætt orkunýtni og minni sóun dregur úr þörf á nýjum virkjunum.“ Bætt orkunýtni og fjölnýting fellur að forgangsmáli stjórnvalda um uppbyggingu hringrásarkerfis.

Einnig er þörf á að afla aukinnar orku og við það verkefni þarf að velta upp öllum mögulegum raunhæfum leiðum sem geta skilað árangri og eru hagkvæmar. Í stefnunni kemur fram að „Til að skapa verðmæti og tryggja lífsgæði verður samfélagið að geta treyst því að orkuþörf sé mætt á hverjum tíma. Framboð og innviðir orkunnar teljast til þjóðaröryggishagsmuna þar sem öryggi borgaranna og samfélags og atvinnulífs er háð þessum mikilvægu grunnþáttum.“

Tillögur starfshópsins skulu snúa að greiningu og mótun tillagna á eftirfarandi þáttum:

1. Skoða hvort og þá hvernig skerpa þurfi á hlutverki fyrirtækja sem starfa á raforkumarkaði í núverandi umhverfi, sérstaklega m.t.t. samkeppnissjónarmiða og hins fjölþætta hlutverks aðila á markaði varðandi; (1) framleiðslu, (2) dreifingu, (3) flutning og (4) sölu.

2. Skoða einnig hvort þróun regluverks, innviða- og viðskiptaumhverfis sé í takt við breyttar þarfir vegna orkuskipta, fjölbreyttari orkukosta og meiri þátttöku notenda (hleðslustöðvar, hafnir, örvirkjanir, breytileg orkuframleiðsla, snjallmælar).

3. Skoða möguleika á bættri orkunýtingu og minni orkusóun. Jafnframt verði skoðað hvernig hindrunum verði rutt úr vegi varðandi orkuendurvinnslu, og hvernig liðka megi fyrir nýtingu glatvarma og öðrum orkusparandi aðgerðum.

4. Skoða hvernig raforkukerfið er í stakk búið til að taka við framleiðslu frá nýjum orkukostum eins og vindorku með breytilegu framboði. Þeir sem framleiði orku til eigin nota geti sömuleiðis komið henni til annarra neytenda.

5. Skoða rafeldsneytisþátt orkuskiptanna þ.m.t. fyrirliggjandi skjöl: Vetnisvegvísi, niðurstöður starfshóps um flugeldsneyti og starfshóps um aðra orkukosti.

6. Meta áhrif breytilegra orkugjafa á orkuverð og kostnaðarþátt orkuskipta.

7. Vinni drög að orkuskiptaáætlun og taki við það tillit til annarra tengdra áætlana eins og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og innviðaáætlun fyrir orkuskipti.

8. Greini hindranir þess að orkufyrirtæki nýti orkukosti sem eru í nýtingaflokki í rammaáætlun og hvort einhver úrræði skuli vera til staðar til að hvetja til framkvæmda eða liðka fyrir með öðrum hætti.

9. Gæta þarf þess að tillögur starfshóps leiði ekki til röskunar á líffræðilegum fjölbreytileika.

Starfshópurinn skal hafa samráð við hagaðila og stofnanir eftir því sem við á.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skriflegum niðurstöðum og tillögum eigi síðar en 1. maí 2024.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

Guðrún Sævarsdóttir, formaður,
Ari Trausti Guðmundsson, fyrrv. alþingismaður,
Tryggvi Másson, hagfræðingur.

Með hópnum starfa Magnús Dige Baldursson, lögfræðingur og Steinar Örn Jónsson, sérfræðingur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. 



Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum