Verkefni

Verkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið starfar samkvæmt  forsetaúrskurði um skiptingu stjórnmálaefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ráðuneytið fer með málefni er varða náttúruvernd, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, söfnun og skráningu upplýsinga um náttúru landsins, hafsins og hafsbotnsins, veiðistjórnun og alþjóðaverslun með villt dýr og plöntur, erfðabreyttar lífverur, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og veður og náttúruvá.

Sömuleiðis fer ráðuneytið með málefni er varða vatnsvernd og ráðgjöf um nýtingu vatns, mengunarvarnir, loftslagsvernd, hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og efni og efnavörur, þar á meðal eiturefni og hættuleg efni.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fer einnig með skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda, landmælingar og grunnkortagerð og mannvirki.

Þá fer ráðuneytið með framkvæmd alþjóðasamninga um umhverfismál, sjálfbæra þróun, upplýsingarétt um umhverfismál og söfnun upplýsinga um málefni norðurslóða.