Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Gleðilegan dag umhverfisins

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra

Dagur umhverfisins er í dag haldinn hátíðlegur í tíunda sinn. Að þessu sinni er dagurinn tileinkaður vistvænum lífsstíl. Mörgum þykir sem þeir standi frammi fyrir ókleifum hamri þegar þeir velta því fyrir sér hvort og þá hvernig þeir geti orðið umhverfisvænni í sínu daglega amstri. Þá er gott að hafa í huga að enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað. Ef við leggjumst öll á eitt geta litlar breytingar hjá mörgum haft mikil áhrif á lífsgæði okkar allra. Umhverfisvernd er samfélagsverkefni, daglegt verkefni þar sem enginn er undanskilinn og allir þurfa að taka þátt: einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki, félagasamtök og stjórnvöld. Það er í okkar höndum, hvers og eins, að breyta rétt gagnvart umhverfinu – að sjá til þess að líf okkar og neysla stuðli að minni mengun og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Fræðsla vekur áhuga

Það er í verkahring stjórnvalda að vekja fólk til umhugsunar og veita því gagnleg ráð um það hvernig við getum fetað okkur í átt til vistvænni lífsstíls. Í þessu ljósi býður umhverfisráðuneytið, í samstarfi við Úrvinnslusjóð og SORPU, til sýningarinnar Vistvænn lífsstíll í Perlunni á morgun. Þar gefst fólki tækifæri til að kynna sér vistvænar vörur og þjónustu. Það er óskandi að áhugi neytenda á að skipta við vistvæn fyrirtæki aukist og að þeir láti sig auknum mæli umhverfissjónarmið varða í innkaupum og daglegu lífi. Með því að huga að umhverfissjónarmiðum í innkaupum og neyslu hvetja neytendur fyrirtæki til að gefa slíkum sjónarmiðum meiri gaum og til að leggja sín lóð á vogarskálar betra umhverfis. Einnig hefur umhverfisráðuneytið endurútgefið fræðsluritið Skref fyrir skref í samvinnu við Landvernd. Ritinu er ætlað að hvetja fólk til dáða og auðvelda því að tileinka sér breytta og betri lífshætti.

Nú er hafið átak hjá Umhverfisstofnun við að efla starfsemi Svansins hér á landi. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og það á að auðvelda neytendum að velja gæðavörur sem eru vistvænni en sambærilegar vörur á markaði. Markmið átaks Umhverfisstofnunar er að Svanurinn öðlist þær vinsældir sem hann á skilið. Unnið verður að því að auka hlutfall Svansmerktrar vöru og þjónustu á markaði og að efla áhuga almennings og fyrirtækja á Svaninum og öðrum umhverfismerkingum.

Sveitarfélög vinna gott verk

Mörg sveitarfélög hafa lagt sig fram um að auðvelda almenningi að stunda vistvænan lífsstíl. Bæjaryfirvöld í Stykkishólmi hafa til að mynda gert samkomulag við þjónustufyrirtæki um flokkun sorps og moltugerð úr lífrænum úrgangi fyrir öll heimili í bænum. Stykkishólmur er fyrsta sveitarfélagið á landinu sem býður upp á slíka þjónustu. Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar að minnsta kosti um 60%. Úr Reykjavík hafa líka borist jákvæðar fréttir en í fyrra mældist minna magn af óflokkuðu heimilissorpi í tunnum borgarbúa en árið á undan. Fram að því hafði magnið aukist ár frá ári. Þetta bendir til þess að borgarbúar séu duglegri að skila sorpi í endurvinnslustöðvar og í grenndargáma en áður og að vinsældir endurvinnslutunna séu að aukast. Verkefnið Frítt í strætó fyrir námsmenn er annað dæmi um góðan árangur sveitarfélaga. Vegna þess hefur farþegum Strætó fjölgað um u.þ.b. eina milljón. Allt þetta eykur bjartsýni okkar sem störfum á vettvangi umhverfismála um að verulegum árangri megi ná með réttum aðgerðum.

Fordæmi stjórnvalda

Það er ekki einungis skylda stjórnvalda að fræða og hvetja almenning til góðra verka í þágu umhverfsins. Stjórnvöld verða líka að sýna gott fordæmi. Nú er unnið að stefnu um vistvæn innkaup ríkisins. Með slíkri stefnu eru gefin skýr skilaboð um að ríkið vilji vera leiðandi í því að efla vistvæn innkaup á Íslandi, enda kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 90 milljarða króna á ári. Það er því ljóst að áhrifamáttur opinberra innkaupa er mikill. Með því að setja skýrar kröfur um umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum er hvatt til nýsköpunar og virkrar samkeppni um vistvænar vörur og þjónustu á markaði. Um leið er stuðlað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og samfélaginu öllu.

Dagur umhverfisins gefur okkur tækifæri til að staldra við, meta árangurinn af starfi okkar á sviði umhverfismála og brýna okkur áfram til góðra verka. Við höfum stigið mörg skrefin til góðs – en betur má ef duga skal. Til hamingju með dag umhverfisins!



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum