Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra lýsir yfir óánægju með endurnýjun starfsleyfis í Sellafield

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hefur ritað umhverfisráðherra Breta David Milliband bréf þar sem hún lýsir óánægju sinni með að Breska heilbrigðis- og öryggisstofnunin hafi veitt eigendum kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield leyfi til að hefja að nýju starfsemi í svonefndum THORP hluta kjarnorkuendurvinnslstöðvarinnar. Ekki liggur fyrir hjá íslenskum stjórnvöldum á hvaða forsendum leyfið er veitt eða hvaða skilyrði hafa verið sett um mengunarvarnir vegna vinnslunnar. Fulltrúi íslenska sendiráðsins í Lundúnum afhenti breska umhverfisráðuneytinu bréfið í dag.

THORP hluti stöðvarinnar hefur verið lokaður frá því í apríl 2005, en þá láku 83.000 lítrar af geislavirkum vökva úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni. Umhverfisráðherra óskaði á sínum tíma eftir nákvæmum skriflegum upplýsingum frá breskum stjórnvöldum um atvikið og málið var rætt við sendiherra Bretlands á Íslandi auk þess sem samband var haft við breska umhverfisráðherrann og fulltrúa British Nuclear Group, eiganda stöðvarinnar. Þá tók ráðherra málið einnig upp á fundi Norrænna umhverfisráðherra, en Ísland hefur ásamt hinum Norðurlöndunum ítrekað brýnt fyrir breskum stjórnvöldum þá hættu sem lífríki Norður-Atlantshafsins stafar af losun geislavirkra efna frá endurvinnslustöðinni í Sellafield.

Í bréfinu sem afhent var í dag undirstrikar umhverfisráðherra að lekinn í apríl 2005 hafi verið mjög alvarlegur og að hann hafi vakið spurningar um öryggi stöðvarinnar. Þess vegna óskar ráðherra nú eftir skriflegum upplýsingum um hvaða rök lágu að baki því að veita stöðinni starfsleyfi að nýju og ítrekar óskir sínar um nákvæmar skriflegar upplýsingar frá breskum stjórnvöldum um hvað olli lekanum á sínum tíma, en upplýsingar um það hafa ekki enn borist umhverfisráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum