Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra á fundi Barentsráðsins


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra tekur á morgun, þriðjudag 21. ágúst, þátt í fundi umhverfisráðherra Barentsráðsins í Kirkenes í norður Noregi. Hluti fundarins fer fram í Murmansk í Rússlandi þar sem fundað verður þann 22. ágúst með auðlindanefnd svæðisins. Þar munu ráðherrarnir einnig heimsækja nýja úrvinnslustöð fyrir fljótandi kjarnorkuúrgang úr Rússneska Norðurflotanum. Noregur og Bandaríkin hafa staðið straum af kostnaði við byggingu stöðvarinnar sem mun margfalda það magn af kjarnorkuúrgangi sem hægt verður að meðhöndla árlega. Eftir tilkomu stöðvarinnar er þess vænst að Rússland muni staðfesta alþjóðasamning sem bannar losun kjarnorkuúrgangs í hafið.

Ráðherrarnir heimsækja einnig stórt nikkelver á Kolaskaga. Mikil mengun berst frá verinu en endurbætur sem draga munu úr henni eru hafnar. Norræni fjárfestingabankinn hefur lagt fram fjármagn til verksins.

Á fundi umhverfisráðherra Barentsráðsins verður fjallað um ástand umhverfismála á Kolaskaga m.a hættu af kjarnorkumengun. Ákvörðun rússneskra stjórnvalda sem tekin var í júlí s.l. um að heimila innflutning á kjarnorkuúrgangi annara landa vekur miklar áhyggjur í ljósi þess vanda sem Rússland stendur þegar frammi fyrir vegna uppsöfnunar kjarnorkuúrgangs þar í landi. Áhyggjurnar beinast m. a. að því hvaða sjóflutningsleiðir verða fyrir valinu verði kjarnorkuúrgangur fluttur til Rússlands.

Í dag, mánudaginn 20. ágúst, situr umhverfisráðherra fund norrænna umhverfisráðherra í Ivalo í norður Finnlandi. Þar verður meðal annars fjallað um samspil umhverfis- og heilsuverndar, niðurstöðu Bonn fundarins um útfærslu Kyoto bókunarinnar, samstarfið við Rússland á sviði umhverfismála og nýlega aðild Íslands að Alþjóða hvalveiðiráðinu.

Frekari upplýsingar veita Halldór Þorgeirsson í síma 896 2130 eða Einar Sveinbjörnsson í síma 560 9600 eða 896 4189.

Fréttatilkynning nr. 12/2001
Umhverfisráðuneytið




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum