Hoppa yfir valmynd
30. janúar 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra fagnar því að olíuborpallinum Brent Spar verður ekki sökkt

Umhverfisráðherra fagnar þeirri ákvörðun að hinum umdeilda olíuborpalli Brent Spar verði ekki sökkt í Atlantshafið eins og ráðgert hafði verið og telur að hún boði breytt viðhorf til þessara mála.

Bresk stjórnvöld heimiluðu á vordögum 1995 olíufélaginu Shell að sökkva borpallinum sem þá hafði verið ákveðið að úrelda. Umhverfisráðherra mótmælti þeirri ákvörðun við þáverandi umhverfisráðherra Bretlands og taldi að slík aðgerð skapaði fordæmi sem gæti haft mjög skaðleg áhrif á umhverfi hafsins. Um 400 olíuborpallar eru í notkun á Norð-Austur Atlantshafi og er mikilvægt að tryggja að þeim verði fargað á ábyrgan hátt.

Alþingi samþykkti í júní 1995 þingsályktun þar sem þessari ákvörðun breskra stjórnvalda var harðlega mótmælt en jafnframt bárust mótmæli frá fjölmörgum Evrópuríkjum og umhverfisverndarsamtökum. Í gær upplýsti svo olíufélagið Shell að olíuborpallurinn yrði notaður við byggingu hafnar í Stavanger.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra mun nk. sunnudag eiga fund með aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, John Prescott, sem jafnframt er umhverfisráðherra Breta. Þar verður þetta mál m.a. til umfjöllunar. Jafnframt verður þar fjallað um losun geislavirkra efna við endurvinnslustöðina í Sellafield í Bretlandi, en mengun frá henni vegna losunar efnisins teknesíum hefur borist til Noregs og mun hugsanlega berast að ströndum Íslands innan fárra ára. Þó þessi mengun sé undir hættumörkum er mikilvægt að koma í veg fyrir frekari losun geislavirkra efna í Bretlandi til að tryggja að lífríkið í hafinu skaðist ekki. Kyotosamkomulagið og staða Íslands í því sambandi verður einnig til umfjöllunar á fundi ráðherranna.

Fundur Guðmundar Bjarnasonar og John Prescott er haldinn í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu í Stokkhólmi þar sem fjallað verður um málefni hafsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að árið 1998 verði tileinkað hafinu. Á ráðstefnunni mun Guðmundur gera grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að draga úr mengun hafsins og mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að stuðla að því.

Á fundinum mun hann einnig vinna að því að afla frekari stuðnings við gerð hnattræns samnings um takmörkun eða stöðvun á losun þrávirkra lífrænna efna. Þessi hættulegu efni svo sem DDT og PCB setjast að í lífríkinu á köldum svæðum.

        Fréttatilkynning nr. 6/1998
        Umhverfisráðuneytið

      Hafa samband

      Ábending / fyrirspurn
      Ruslvörn
      Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum