Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stofnun Kvískerjasjóðs



Siv Friðleifsdóttir og KvískerjabræðurÍ gær undirritaði umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir og Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri, skipulagsskrá Kvískerjasjóðs. Athöfnin fór fram að viðstöddum bræðrunum að Kvískerjum þeim Hálfdáni, Helga og Sigurði Björnssonum og sveitungum þeirra á Hótel Skaftafelli í Freysnesi.

Sjóðurinn er stofnaður til heiðurs Kvískerjabræðrum fyrir framlag þeirra til öflunar þekkingar og rannsókna á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að og styrkja rannsóknir á menningarminjum í Austur-Skaftafellssýslu. Markmiðum sjóðsins skal ná með veitingu rannsóknastyrkja til stofnana og einstaklinga til rannsókna á náttúru og menningarminjum í Austur-Skaftafellssýslu. Stjórn sjóðsins skipa Sigurlaug Gissurardóttir, formaður, Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra og Albert Eymundsson bæjarstjóri Hornafjarðar.

Forsaga þessa máls er að undanfarin ár hefur verið unnið að undirbúningi og mótun hugmynda um rannsóknasetur að Kvískerjum í Öræfum í nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá árinu 1997 í þeim tilgangi að heiðra þá Kvískerjabræður og minnast hins merkilega fræðastarfs þeirra á liðnum árum. Ráðuneytið fór yfir tillögur nefndarinnar og endurskoðaði þær hugmyndir sem þar komu fram. Eftir heimsókn umhverfisráðherra og utanríkisráðherra að Kvískerjum í september sl. og viðræður við bræðurna, var það sameiginleg niðurstaða þeirra sem að málinu komu að það væri vænlegri kostur til þess að efla þekkingu og rannsóknir á náttúru og menningarminjum í sýslunni að leggja það fjármagn sem ætlað var til að byggja rannsóknaaðstöðu, sem stofnfé í sérstakan rannsóknasjóð sem nefndur yrði Kvískerjasjóður.

Það var síðan samþykkt í ríkisstjórn í nóvember sl. að Kvískerjasjóður verði stofnaður til heiðurs Kvískerjabræðrum fyrir framlag þeirra til þekkingar og rannsókna á náttúru og menningu Austur-Skaftafellssýslu. Stofnfé sjóðsins verður 25 milljónir króna sem greiðist af umhverfisráðuneytinu við stofnun sjóðsins svo og frekari fjárveitingar sem kunna að verða ákveðnar á fjárlögum til Kvískerjasjóðs. Sjóðnum verður einnig heimilt að taka við gjöfum og fjárframlögum frá öðrum sem vilja veita markmiðum hans brautargegni. Áætlað er að sjóðurinn veiti fyrst styrki á árinu 2004.


Fréttatilkynning nr. 3/2003
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum