Hoppa yfir valmynd
20. desember 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu.

Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir mun í dag kl. 14:00 í Höfða staðfesta svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 og aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.

Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa saman að svæðisskipulagi og ber að fagna því samstarfi sem tekist hefur um þennan mikilvæga málaflokk sem fær stöðugt meira gildi fyrir umhverfismál.

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur er nokkur óvissa um landnotkun í Vatnsmýri á svonefndu svæði IV á tímabili skipulagsins frá 2016 til 2024, þar sem Reykjavíkurborg og samgönguyfirvöld eru ekki einhuga um landnotkun á því svæði sem um ræðir og er m.a. á svæði Reykjavíkurflugvallar. Af þeim sökum hefur umhverfisráðherra í dag skipað þriggja manna nefnd til að fara yfir fyrirhugaða landnotkun á framangreindu svæði samkvæmt svæðisskipulaginu og gera tillögu um hana. Nefnd þessi er skipuð á grundvelli 6. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997 en þar segir:

      "Á svæðum ... þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis, getur umhverfisráðherra ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi..."

Í nefndinni eiga sæti Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu sem er formaður nefndarinnar, Helga Jónsdóttir, borgarritari tilnefnd af Reykjavíkurborg og Leifur Magnússon, verkfræðingur tilnefndur af samgönguráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum fyrir 1. desember 2003.

                      Fréttatilkynning nr. 28/2002
                      Umhverfisráðuneytið

                    Hafa samband

                    Ábending / fyrirspurn
                    Ruslvörn
                    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum