Hoppa yfir valmynd
14. janúar 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Handbók um umhverfisstjórnun: Hreinni framleiðslutækni

Út er komin Handbók um umhverfisstjórnun: Hreinni framleiðslutækni . . . grænn gróði. Handbókin lýsir því hvernig fyrirtæki geta með einföldum og skipulögðum hætti haldið mengun og úrgangi í lágmarki og um leið náð fram umtalsverðum sparnaði í rekstri. Iðntæknistofnun, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Framtíðarsýn hf. gefa bókina út, en umhverfisráðuneytið og Iðnlánasjóður styrktu gerð hennar.

Í handbókinni er lýst einfaldri aðferð til að kortleggja uppsprettur mengunar og sóunar í viðkomandi fyrirtæki, setja fram umhverfisstefnu og markmið og vinna skipulega að umbótum á þessu sviði. Gefin eru fjölmörg dæmi um árangursrík umbótaverkefni sem leitt hafa til sparnaðar í rekstri á sama tíma og frammistaða fyrirtækjanna í umhverfismálum hefur verið bætt.

Handbókin byggir á reynslu Iðntæknistofnunar af samstarfi við fimm íslensk iðnfyrirtæki á árunum 1992-1993 og reynslu Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins af samskonar samstarfi 1994-1996 við átta fyrirtæki í fisk- og matvælavinnslu. Sem dæmi um árangur af hreinni framleiðslutækni er tekið yfirlit af sparnaði sem fiskvinnslufyrirtæki náði með þeirri aðferð sem lýst er í handbókinni. Stofnkostnaður fyrirtækisins við umbótaverkefni nam tæpum tveimur milljónum króna, en sparnaður á einu ári var á milli 16 og 17 milljónir króna, m.a. vegna aukinnar vinnslunýtingar fiskafurða, álagsstýringar á rafmagni og minni notkunar hreinsiefna og vatns.

Handbókin er ætluð stjórnendum fyrirtækja og öðrum starfsmönnum, sem bera ábyrgð á bættum rekstri og lágmörkun sóunar og mengunar. Efni hennar var unnið undir verkefnisstjórn Helgu J. Bjarnadóttur á Iðntæknistofnun. Í viðaukum er m.a. að finna upplýsingar um mögulegar leiðir til að farga iðnaðarúrgangi og leiðbeiningar um flokkun spilliefna. Handbókin er í möppuformi og nýtist bæði sem leiðbeiningarit og hugmyndabanki til að stuðla að skipulögðum vinnubrögðum á sviði umhverfismála. Framtíðarsýn hf. annast dreifingu og sölu bókarinnar.

Fréttatilkynning nr. 3/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum