Hoppa yfir valmynd
4. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norræn ráðstefna í Skaftafelli um náttúrvernd, þjóðgarða, útilíf og heilsu dagana 5. - 7. maí

Um 100 manna hópur áhugafólks og sérfræðinga sem vinna að náttúruvernd og útvist koma saman í Hótel Skaftafell á ráðstefnu sem Norræna ráðherranefndin og umhverfisráðuneytið standa fyrir 5. - 7. maí n.k. Markmið ráðstefnunnar er að miðla þekkingu um reynslu af rekstri náttúruverndarsvæða og hvernig þau geta þjónað útvist og stuðlað að betri heilsu og haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verður Vigdís Finnbogadóttir sem fjalla mun um gildi þess að standa vörð um náttúruarfleifð Norðurlandanna.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra mun setja ráðstefnuna og greina frá áformum íslenskra stjórnavalda um stofnun stærsta þjóðgarðs Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð. Þá munu þeir Peder Agger, prófessor í háskólanum í Hróarskeldu og Árni Finnsson formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands flytja fyrirlestra um framvindu og stöðu náttúruverndar. Roger Crofts frá Alþjóða náttúruverndarsamtökunum fjallar um hvernig aðlaga má alþjóðlegar viðmiðunarreglur um náttúrvernd að staðbundnum aðstæðum. Sænskur prófessor í íþróttum, Peter Schantz, fjallar um rannsóknir á áhrifum útlífs á heilsufar og vellíðan og norski hagfræðingurinn Kristin Magnussen flytur fyrirlestur um hvernig meta má þessi gæði til fjár.

Umræðuhópar munu starfa á ráðstefnunni um fjölmarga þætti sem tengjast náttúruvernd, útvist og heilsu en auk þess verða haldnir fyrirlestrar þar sem greint verður frá reynslu einstakra ríkja. Fjallað verður um áform Dana um að koma á fót þjóðgörðum þar í landi, en Danir hafa fram að þessu ekki átt neina þjóðgarða. Þá mun Jack D. Ives, sem stundað hefur rannsóknir á Vatnajökli í liðlega hálfa öld flytja erindi um áhrif jökulsins á náttúru og mannlíf á svæðinu.

Þátttakendur og fyrirlesarar á ráðstefnunni koma frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Lettlandi og Litháen auk Kanada og Skotlandi. Ráðstefnustjórar verða þau Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins og Katrín Eymundsdóttir oddviti í Kelduneshreppi.

Hér má nálgast dagskrá  (pdf)og  frekari upplýsingar er að finna á vef ráðstefnunnar

Fréttatilkynning nr. 12/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum