Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisviðurkenningar umhverfisráðuneytisins veittar á Degi umhverfisins 25. apríl 2005

Frá afhendingu Kuðungsins í Norræna húsinu
Frá afhendingu Kuðungsins 2004.

Umhverfisráðuneytið veitir árlegar viðurkenningar til fyrirtækja sem staðið hafa vel að umhverfismálum í rekstri sínum. Ráðuneytið veitti umhverfisviðurkenningu fyrst árið 1995 og er hún því tíu ára í ár. Umhverfisviðurkenning ráðuneytisins er kölluð Kuðungurinn og hana hlýtur eitt fyrirtæki, sem þykir hafa skarað fram úr. Að þessu sinni var þremur öðrum fyrirtækjum, sem einnig þóttu komu vel til greina, veitt sérstök umhverfisviðurkenning.

Ráðherra skipaði í febrúar síðast liðinn nefnd til að aðstoða við valið og í henni sátu Margrét Sanders formaður, tilnefnd af umhverfisráðuneytinu, Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, og Sigurður Hafliðason, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands.

Samkvæmt tillögu nefndarinnar kom umhverfisviðurkenning umhverfisráðuneytisins að þessu sinni, Kuðungurinn 2004, í hlut Orkuveitu Reykjavíkur. Að tillögu nefndarinnar hlutu fyrirtækin Hjá GuðjónÓ, Málning og Prentsmiðjan Oddi einnig umhverfisviðurkenningar frá ráðuneytinu.

Hannað hefur verið sérstakt merki fyrir það fyrirtæki sem hlýtur Kuðunginn og hefur fyrirtækið rétt til að nota merkið í eitt ár. Kristín Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, hannaði merkið. Kristín velur einnig nýjan leirlistamann árlega til þess að sérhanna leirkuðung sem sá sem hlýtur Kuðunginn fær til eignar. Kristín Sigfríð Garðarsdóttir hannaði verðlaunagripinn í ár.

Með viðurkenningum sínum vill ráðuneytið vekja athygli á þeim fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði umhverfismála og hvetja þau og önnur til þess að halda áfram að samþætta hugmyndir um sjálfbæra þróun og umhverfismál inn í rekstur sinn, ímynd og menningu.

Fyrirtæki sem áður hafa hlotið umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn, eru Hópbílar hf. (2003), Árvakur hf. (2002), Íslenska álfélagið hf (2000), Borgarplast hf. (1999), Fiskverksmiðja Haraldar Böðvarssonar á Akranesi (1998), Olíufélagið hf. (1997), Fiskverkun KEA í Hrísey (1996), Prentsmiðja Morgunblaðsins (1995), Gámaþjónustan hf. (1994), Umbúðamiðstöðin hf. (1994) og Kjötverksmiðjan Goði hf. (1994).

Um fyrirtækin fjögur sem hlutu umhverfisviðurkenningar:

Hjá GuðjónÓ ehf.

Ólafur Stolzenwald Hjá GuðjónÓ og Sigríður Anna ÞórðardóttirGuðjónÓ - vistvæn prentsmiðja hefur lagt ríka áherslu á umhverfismál í prentiðnaði undanfarinn áratug. Fyrirtækið hefur nú fimm ára reynslu af að nota umhverfiskerfið Svaninn með góðum árangri. Prentsmiðjan prentar stóran hluta af framleiðslu sinni á umhverfisvænan pappír og hefur stórbætt aðstöðu starfsmanna sinna, einnig minnkað verulega álag á umhverfið með nákvæmri sorpflokkun. Slagorð fyrirtækisins er „göngum hreint til verks".

Málning hf.Jón Bjarnason í Málningu og Sigríður Anna Þórðardóttir

Allt frá stofnun Málningar hf. árið 1953 hefur fyrirtækið lagt áherslu á vatnsþynnta málningu. Það var því í anda Málningar, að ganga skrefið til fulls og setja á markað vörur, sem innihalda engin skaðleg efnasambönd eins og leysiefni, ammoníak eða formaldehyð. Þessar vörur auðkennir Málning með 0% merki. Fyrirtækið leggur metnað sinn í að umhverfismálum sé gert jafn hátt undir höfði og öðrum rekstrarþáttum. Má í því sambandi nefna, að Málning stundar eftir fremsta megni vistvæna vöruþróun (ECO design), fékk fyrst íslenskra málningarframleiðenda starfsleyfi þegar flutt var í nýbyggingu á Dalvegi 18 í Kópavogi og skilar grænu bókhaldi.

Orkuveita Reykjavíkur sf.Hómsteinn Sigurðsson aðstoðarforstjóri OR, Loftur R. Gissurarson gæðastjóri OR og Sigríður Anna Þórðardóttir

Orkuveitan er veitufyrirtæki sem framleiðir,dreifir og selur, í heildsölu og smásölu, rafmagn, kalt vatn til neyslu og brunavarna, heitt vatn til húshitunar og snjóbræðslu og sjó til nota í laugum, dýrakerjum o.fl. Fyrirtækið hannar og selur götulýsingu og selur varaafl til fyrirtækja. Einnig rekur fyrirtækið ljósleiðarakerfi til gagnadreifingar. Orkuveita Reykjavíkur er með vottað gæðakerfi skv. ISO 9001 staðlinum, einnig hefur fyrirtækið lokið við að innleiða umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001 í alla starfsemi og starfsstöðvar og verður það kerfi tekið út í haust. Eitt höfuðmarkmið Orkuveitunnar er að vinna orku á vistvænan og hagkvæman hátt og vera í fararbroddi í umhverfismálum.

Prentsmiðjan Oddi hf.Þorgeir Baldursson forstjóri Prentsmiðjunnar Odda og Sigríður Anna Þórðardóttir

Prentsmiðjan Oddi flokkar nánast allan pappír og flytur úr landi til endurvinnslu. Fyrirtækið gerir þá kröfu til birgja að þeir standi framarlega í umhverfismálum. Filmuframköllun hefur nær alveg lagst af og með því notkun framköllunarefna. Notaðir eru umhverfisvænir prentlitir. Allur úrgangur er flokkaður og í dag falla einungis 3-5% úrgangs utan flokkunar. Nú stendur yfir innleiðing á 1. þrepi í átt að ISO 14001 vottun.

Fréttatilkynning nr. 11/2005
Umhverfisráðuneytið



Ólafur Stolzenwald Hjá GuðjónÓ og Sigríður Anna Þórðardóttir
Ólafur Stolzenwald Hjá GuðjónÓ og Sigríður Anna Þórðardóttir
Jón Bjarnason í Málningu og Sigríður Anna Þórðardóttir
Jón Bjarnason í Málningu og Sigríður Anna Þórðardóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum