Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra fer fyrir íslenskri viðskiptasendinefnd í tengslum við opinbera heimsókn til Slóvakíu

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra er í fararbroddi íslenskrar viðskiptasendinefndar sem stödd er í SlóvakíuSigríður Anna, Mr. László Miklós umhverfisráðherra Slóvakíu og Sveinn Björnsson sendiherra. Skipulagning og allur undirbúningur ferðarinnar var í höndum Útflutningsráðs. Alls 11 íslensk fyrirtæki í ýmsum geirum, þar á meðal fyrirtæki á sviði umhverfismála, svo sem jarðhita og endurvinnslu tóku þátt í ferðinni. Ferð viðskiptasendinefndarinnar er farin í tengslum við opinbera heimsókn umhverfisráðherra, sem átti í dag fund með umhverfisráðherra Slóvakíu. Tilgangur ferðarinnar var að afla nýrra viðskiptatækifæra með því að kynna og markaðssetja íslenska tækni og þjónustu og að auki viðhalda eldri viðskiptasamböndum.

Á vel sóttri ráðstefnu viðskiptasendinefndarinnar í morgun flutti umhverfisráðherra ávarp um viðskipti Íslands og Slóvakíu. Hún sagði þar meðal annars að ekki ætti að líta svo á að umhverfismál stæðu hagvexti fyrir þrifum: "Umhverfisvandamál krefjast lausna og lausnir krefjast frjórrar hugsunar og tækni. Viðskipti eru drifkraftur framfara og uppgötvana og hafa ríku hlutverki að gegna við verndun umhverfisins. Ánægjulegt er að sjá að nokkur íslensk fyrirtæki í þessarri heimsókn starfa á sviði umhverfisvænnar tækni, jarðvarma og endurvinnslu."

Umhverfisráðherra Slóvakíu ávarpaði líka ráðstefnuna og sagði Íslendinga leiðandi í nýtingu jarðvarma. Sú þekking gæti nýst Slóvakíu. Ráðherrann sýndi endurvinnslu einnig áhuga, en fyrirtæki á báðum þessum sviðum eiga fulltrúa í viðskiptasendinefndinni. Ráðherrann, sem kom í opinbera heimsókn til Íslands sl. haust og kynntist þá slíkri starfsemi, átti sérstakan fund með fulltrúum fyrirtækja í endurvinnslu og jarðhitatækni að lokinni ráðstefnu viðskiptasendinefndarinnar í Bratislava.Sigríður Anna ásamt Jón Ásbergssyni framkv.stjóra Útflutningsráðs á blaðamannafundi.

Í framhaldi af ráðstefnunni var haldinn blaðamannafundur, þar sem umhverfisráðherra sat fyrir svörum ásamt Jóni Ásbergssyni, framkvæmdastjóra Útflutningsráðs Íslands og Sveini Björnssyni, sendiherra Íslands í Slóvakíu. Blaðamannafundurinn var vel sóttur og spunnust á honum fjörugar umræður um umhverfismál, endurvinnslu og viðskipti Íslendinga við Slóvakíu, einkum á sviði jarðhita.

Opinber heimsókn

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra átti eftir hádegi í dag fund með Laszló Miklós, umhverfisráðherra Slóvakíu, og er fundurinn hluti af opinberri heimsókn umhverfisráðherra til Slóvakíu. Ráðherrarnir ræddu meðal annars um endurnýjanlega orku og loftslagsbreytingar, náttúruvernd og vistvæna ferðaþjónustu og aðgerðir til að draga úr losun hættulegra efna í umhverfið.

Umhverfisráðherra mun í ferð sinni í Slóvakíu m.a. kynna sér tvö verkefni á sviði jarðhitanýtingar sem íslensk fyrirtæki koma að, í borgunum Galanta og Kosice.

Fréttatilkynning nr. 9/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum