Hoppa yfir valmynd
12. mars 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningur um umhverfisáætlanir sveitarfélaga - Staðardagskrá 21

Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið hafa gert með sér samstarfssamning um verkefni sem miðar að gerð umhverfisáætlana í sveitarfélögum, eða svokallaða Staðardagskrá 21. Í Staðardagskrá 21 á að koma fram lýsing á stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu, markmiðssetning þess í umhverfismálum og áætlun og ákvarðanir um framkvæmdir á því sviði. Ráðuneytið og sambandið hafa gefið út handbók fyrir sveitarfélög um "Áætlun í umhverfismálum sveitarfélaga", sem verður fjölfölduð og send til allra sveitarstjórna, sem og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Segja má að verkefnið hafi beina skírskotun til samþykkta Ráðstefnu S.þ. um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992. Þar samþykktu þjóðir heims viðamikla framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21. aldar (Agenda 21), um hvernig eigi að koma á markmiðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. hvernig við getum tryggt áframhaldandi hagvöxt og velferð án þess að valda spjöllum á grunngæðum náttúrunnar og skerða þar með möguleika komandi kynslóða. Síðan hafa einstök ríki, þ.á m. Ísland, sett sér markmið um hvernig hægt sé að hrinda markmiðum sjálfbærrar þróunar í framkvæmd. Umhverfisráðherra kynnti í fyrra framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, sem ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti í febrúar 1997. Næsta skref er síðan að koma á áætlunum fyrir einstök byggðarlög. Erlendis hafa slíkar áætlanir gengið undir nafninu Local Agenda 21 og er Staðardagskrá 21 íslenskun á því hugtaki. Á aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, sem haldið var í New York í júní 1997, var samþykkt að hvetja sveitarfélög til að hraða gerð slíkra áætlana.

Umhverfismál hafa á undanförnum árum fengið aukið vægi í starfsemi sveitarfélaga. Benda má á aðgerðir í sorphirðumálum og fráveitumálum um allt land, en á báðum sviðum hafa umhverfisráðuneytið og Samb. ísl. sveitarfélaga haft náið samstarf um undirbúningsaðgerðir og stuðning við framkvæmdir. Markviss umhverfisvernd á vegum sveitarfélaga hefur fjölþætt gildi fyrir sveitarfélögin. Til lengri tíma litið skapar hún forsendur fyrir betra lífi, bæði fyrir einstaklinga og atvinnurekstur.

Nú þegar hafa nokkur sveitarfélög hafið vinnu á þessu sviði. Á ráðstefnu um umhverfisáætlanir sveitarfélaga, sem haldin var á Egilsstöðum sl. sumar, kom fram sterkur vilji hjá sveitarfélögum til þess að ráðast í verkefni af þessu tagi og samþykkt var áskorun til umhverfisráðuneytisins og sambandsins að hrinda því af stað.

Meginatriði samningsins eru þau að Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið skipa sameiginlega 4 manna verkefnisstjórn um gerð Staðardagskrár 21. Ráðinn verður verkefnisstjóri til að leiðbeina sveitarstjórnum við að gera umhverfisáætlun. Auglýst verður eftir sveitarfélögum, sem áhuga hafa á að taka þátt í verkefninu og verkefnisstjórn velur síðan nokkur sveitarfélög úr hópi umsækjenda. Áætlað er að verkefnisstjórn verði skipuð í apríl nk. og að verkefnið taki u.þ.b. 18 mánuði.

Fréttatilkynning nr. 14/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum