Hoppa yfir valmynd
21. júní 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breyting á byggingarreglugerð vegna endurskoðunar þolhönnunarstaðla



Undanfarið eitt og hálft ár hefur nefnd verið starfandi á vegum umhverfisráðuneytisins við endurskoðun íslenskra sérákvæða við nýju dönsku þolhönnunarstaðlana ásamt gerð þjóðarskjala við evrópsku forstaðlana. Með hliðsjón af breyttum stöðlum um þolhönnun sem taka gildi 1. júlí n.k. var nauðsynlegt að breyta ákvæðum byggingareglugerðar til samræmis.

Gömlu staðlarnir um þolhönnun hafa verið í gildi hérlendis frá 1989 eru byggðir á um tuttugu ára gömlum dönskum stöðlum með álagsgildum úr enn eldri stöðlum. Undantekning frá þessu er jarðskjálftastaðallinn sem að grunni til er bandarískur staðall frá sjöunda áratug síðustu aldar en álagsgildi hans voru endurskoðuð 1989. Dönsku staðlarnir sem hér er vísað til hafa verið endurskoðaðir og nýjar útgáfur tóku gildi í Danmörku 1999. Handbækur, hönnunarleiðbeiningar og hönnunarforrit taka ekki mið af stöðlum sem hafa verið felldir úr gildi og við þessar aðstæður er hætta á misræmi milli gagna sem hönnuðir notfæra sér auk þess sem nýjustu upplýsingar og tækni nýtist síður en ella auk þess er tryggingarvernd og réttarstaða hönnuða sem hanna skv. eldri stöðlum í uppnámi við þessar aðstæður.

Við endurskoðun staðlanna komu m.a. að Félag ráðgjafarverkfræðinga, Byggingastaðlaráð, sérfræðingar Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Veðurstofa Íslands og voru lagðar til grundvallar niðurstöður rannsóknarverkefnis um álagsgildi fyrir vind, snjó og jarðskjálfta. Staðlafrumvörp voru samin, auglýst og kynnt opinberlega, athugasemdum svarað og óháð álit sérfræðinga fengið á innihaldi þeirra. Meðal helstu séríslenskra ákvæða varðandi álagsgildi má nefna:


Snjóálag
Landinu verður skipt í fimm snjóálagssvæði í stað fjögurra áður. Á svæði 1 sem tekur m.a. til Reykjavíkur verður álagið 1,0 kN/m2. Á svæði 2 verður álagið 1,1 - 1,8 kN/m2, þó verður skylt að nota a.m.k. 1,45 kN/m2 nema viðkomandi byggingarfulltrúi heimili annað. Á svæði 3 verða samsvarandi gildi 1,9 - 2,9 kN/m2 og lágmark 2,4 kN/m2. Á svæði 4 skal reikna með að lágmarki 3,0 kN/m2. Álagsgildi á svæði H skal meta sérstaklega. Ef undan er skilin nyrsti hluti landsins er um óverulega hækkun á snjóálagi að ræða.


Vindálag
Gert er ráð fyrir að landið sé eitt vindálagssvæði en þó þarf að meta vindálag sérstaklega inni á hálendi og annarsstaðar þar sem búast má við hærra álagi. Grunngildi vindhraða verður 35,5 m/sek og miðast við yfirborðsflokk II og hrýfislengd 0,05. Hrýfislengd á Íslandi er almennt talin liggja á bilinu 0,01 – 0,03m og heimilt er skv sérákvæðunum að nota hrýfislengd 0,03 m. Önnur gildi má nota enda sé það rökstutt sérstaklega og fyrir liggi samþykki viðkomandi byggingarfulltrúa. Gera má ráð fyrir að þessar breytingar leiði til um 5 – 11% hækkunar á vindálagi frá því sem nú er.


Jarðskjálftaálag
Landinu er skipt í sex álagssvæði m.t.t. jarðskjálftaálags, þ.e. svæði 0 með hönnunarhröðuninni 0, svæði I með 0,10 g, svæði II með 0,15 g, svæði III með 0,20 g, svæði IV með 0,30 g og svæði V með 0,40 g. Endurskoðun jarðskjálftahröðunarkorts stendur nú yfir og búist er við að þeirri vinnu ljúki fyrir n.k. haust og samanburður við álagsgildi skv. eldri staðli því ekki gerlegur. Ekki er búist við kostnaðaráhrifum vegna þessara breytinga þar sem heimilt verður að nota núverandi jarðskjálftastaðal ÍST 13 á aðlögunartímabili til ársloka 2003.

Fréttatilkynning nr. 12/2002
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum