Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra undirbýr stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að tillögu Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra að unnið verði að undirbúningi að því að fella landssvæði norðan Vatnajökuls inn í framtíðar Vatnajökulsþjóðgarð í samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila. Er ráðherra falið að vinna að framgangi málsins á grundvelli fyrirliggjandi tillagna.

Svæðið norðan Vatnajökuls sem um ræðir er um 10% af stærð landsins og fjölbreytilegt að náttúru. Vegna áhrifa jökulsins og samspil elds og ísa á þessu svæði er svæðið einstakt í veröldinni og hefur meiri sérstöðu en nokkuð annað hliðstætt svæði. Svæðið nær í vestri að Tungnársvæðinu og tekur yfir Vonarskarð, Tungnafellsjökul, meginhluta Ódáðahrauns, Öskju og Dyngjufjalla, Herðubreið, Jökulsá á Fjöllum ásamt helstu þverám eins og Kreppu, Kverká, Svartá og vatnasviði öllu eins og við verður komið, Vesturöræfi, Snæfell og Eyjabakkasvæðið að austan. Svæðið fellur í dag undir stjórnsýslu sjö sveitarfélaga þ.e. Ásahrepps, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps.

Í nefndinni sem vann að tillögum um verndarsvæði eða þjóðgarð norðan Vatnajökuls voru alþingismennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir tilnefnd af Sjálfstæðisflokki, Magnús Stefánsson tilnefndur af Framsóknarflokki, Steingrímur J. Sigfússon tilnefndur af Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Össur Skarphéðinsson tilnefndur af Samfylkingunni ásamt Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu sem var formaður nefndarinnar. Nefndin er einhuga um tillögurnar. Tillögur nefndarinnar voru unnar í nánu samráði við heimamenn og hlutaðeigandi aðila.

Nefndin lagði til að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði gerð með sérstökum lögum og aðild heimamanna að stjórn og rekstri þjóðgarðsins tryggð og með öðrum hætti en verið hefur í þeim þremur þjóðgörðum sem stofnaðir hafa verið og eru undir stjórn umhverfisráðherra. Lagt er til að svæðinu norðan Vatnajökuls ásamt tilheyrandi hluta jökulsins verði skipt í þrjú rekstrarsvæði þjóðgarðsvarða undir sameiginlegri yfirstjórn en þar með talinn er núverandi þjóðgarður í Jökulsárgljúfrum. Nefndin taldi að með sömu nálgun á syðri hluta jökulsins væri rétt að gera ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarði, sem næði til jökulsins og annarra helstu áhrifasvæða hans, væri skipt upp í sex rekstrarsvæði þjóðgarðsvarða og þar með væri talinn núverandi þjóðgarður í Skaftafelli. Slíkur þjóðgarður yrði að mati nefndarinnar einstakur í heiminum hvað varðar stærð og fjölbreytileika og myndi að mati kunnugra verða aufúsugestur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna um markverða staði í heiminum og tvímælalaust með þeim markverðustu á sviði jarðfræði og landmótunar.

Fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar lagði mat á tillögur nefndarinnar og telur að verði farið að tillögum nefndarinnar um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og í þá uppbyggingu sem lagt er til megi gera ráð fyrir að lágmarki 1,5 - 2,0% aukningu ferðamanna hingað til lands en það gæti svarað til hækkunar gjaldeyristekna um 1,2 - 1,5 milljarða króna á ári. Þar af má ætla að um 700 milljónir komi inn á svæðið í auknum tekjum árlega. Ennfremur spáir fyrirtækið að ferðamönnum muni fjölga um 5% til viðbótar verði stofnaður Vatnajökulsþjóðgarður sem nái til alls jökulsins og svæða norðan og sunnan hans. Þetta gæti þýtt um 32 þúsund fleiri ferðamenn og viðbótargjaldeyristekjur upp á um 4 milljarða króna.

Umhverfisráðherra mun nú í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar láta vinna áfram að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli tillagna nefndarinnar í samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila og vinna heildstæðar tillögur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem taki til jökulhettunnar og aðliggjandi jaðarsvæða, bæði norðan og sunnan Vatnajökuls. Jafnframt munu viðræður ráðuneytisins við landeigendur, viðkomandi sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila halda áfram um þetta mikilvæga verkefni, hvort sem litið er til náttúruverndar eða eflingu byggðar á svæðinu umhverfis hinn væntanlega þjóðgarð.

Fréttatilkynning nr. 3/2005
Umhverfisráðuneytið



Tillögur nefndar um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls

Stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum