Hoppa yfir valmynd
15. september 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Öruggar götur fyrir börn

Bíllaus dagur 22. september og samgönguvikan 16 - 22. september

Vikuna 16. til 22. september n.k. tileinkar Evrópusambandið umferðinni eins og undafarin ár og er af því tilefni efnt til sérstakrar samgönguviku (European Mobility Week) sem lýkur með bíllausa deginum miðvikudaginn 22. september. Megintilgangur verkefnisins er að vekja almenning til umhugsunar um umferðarmenningu og hversu margar leiðir eru færar þeim sem vilja efla umferðarmenningu og draga jafnframt úr mengun.

Þema vikunnar í ár er "Öruggar götur fyrir börn". Markmiðið er að draga úr hættum sem börnum stafar af umferð, m.a. með því að tryggja öruggar leiðir að skólum og leiksvæðum.

Í samgönguvikunni skipuleggja borgir og bæir í yfir 20 Evrópulöndum fjölbreytta dagskrá. Samkvæmt vef verkefnisins búa yfir 90 milljónir manna á þeim svæðum sem taka einhvern þátt í verkefninu að þessu sinni.

Miðvikudaginn 22. september nk. verður svo hvatt til bíllauss dags í Evrópu ("In town, without my car" eða í bæinn án bílsins) sjötta árið í röð í yfir 1000 borgum og bæjum í Evrópu. Umhverfisráðuneytið vill hvetja alla til að íhuga ferðamáta sinn til og frá vinnu af þessu tilefni og ef mögulegt er að skilja bílinn eftir heima á bíllausa deginum 22. september og ganga, hjóla eða taka strætó. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg verður frítt í strætó þennan dag á höfðuborgarsvæðinu og því er enn fremur hvatning til að breyta til þennan dag.

Nú þegar hafa eftirtalin sveitarfélög á Íslandi tilkynnt um þátttöku sína í þessum viðburðum árið 2004 og er dagskrá samgönguvikunnar og bíllausa dagsins að finna á heimasíðum þeirra:

Reykjavíkurborg,
Kópavogsbær,
Hafnarfjörður,

Mosfellsbær,
Ísafjörður
og
Álftanes.

Fréttatilkynning nr. 36/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum