Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur umhverfisins 25. apríl

Í ár er Dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur víða um land í sjötta sinn og Umhverfisfræðsluráð sem starfar á vegum umhverfisráðuneytisins stendur fyrir sýningunni Dagar umhverfisins í Smáralind um helgina þar sem fyrirtæki, stofnanir og samtök kynna sína nálgun að umhverfismálum.

Laugardaginn 24. apríl kl. 11:30 opnar umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir Arnarvefinn sem er fræðsluvefur um haförninn um leið og sýningin Dagar umhverfisins verður formlega opnuð. Klukkan 15:00 báða dagana verður Rauði krossinn með tískusýningu á notuðum fötum í Vetrargarðinum og þær upplýsingar fengust hjá Rauða krossinum að meðal sýnenda á laugardeginum verði Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona, Sigmundur Ernir Rúnarsson þáttastjórnandi, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir formaður Landverndar, Sigríður Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins og umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir. Rauði krossinn verður einnig með móttöku á notuðum fötum í sumargarðinum.

Klukkan 13:30 sunnudaginn 25. apríl á Degi umhverfisins afhendir umhverfisráðherra árlega fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins Kuðunginn í Smáralind og eftir afhendinguna verður opnaður nýr vefur með upplýsingum um fyrirtæki og umhverfismál.

Ráðuneytinu hefur verið tilkynnt um dagskrá í tilefni af af Degi umhverfisins á Akureyri, í Mýrdalshreppi, í Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum