Hoppa yfir valmynd
22. júní 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sjálfbæra nýting og verndun auðlinda

Ráðstefna í Færeyjum um sjálfbæra nýtingu og verndun auðlinda Norður-Atlantshafsins.


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra sitja nú ráðstefnu í Þórshöfn í Færeyjum á vegum landsstjórnar Færeyja og Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra nýtingu og verndun auðlinda Norður-Atlantshafsins.

Megintilgangur ráðstefnunnar er að stefna saman fulltrúum þeirra þjóða við Norður-Atlantshafið sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á auðlindum hafsins. Í þeim tilgangi var sérstaklega óskað eftir þátttöku strandsvæða Kanada og Skotlands, s.s. Nýfundnalands, Labrador og Hjaltlands.

Meðal þeirra þátta sem ræddir eru sérstaklega er áherslan á aukna þekkingu vistkerfis og samhengis í lífríki hafsins í allri ákvarðanatöku varðandi nýtingu sjávarfangs og vernd hafsins gegn mengun.

Í dag verður gengið frá yfirlýsingu ráðstefnunnar, þar sem m.a. er stefnt að áframhaldandi samstarfi þessara ríkja og svæða við Norður-Atlantshaf sem byggja efnahagslega afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu hafsins og auðlindum þess. Ríkin eiga því sterkra sameiginlegra hagsmuna að gæta að tryggja að lífríkið sé sem öflugast og að nýting þess byggist ávallt á sem bestri vísindalegri þekkingu. Þessar forsendur eru grundvöllur sjálfbærrar þróunar.

Auk Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra flytja Davíð Egilson forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins og Ragnar Árnason prófessor við Háskóla Íslands erindi á ráðstefnunni.

Fréttatilkynning nr. 8/2001
frá umhverfisráðuneytinu
og sjávarútvegsráðuneytinu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum