Hoppa yfir valmynd
20. október 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aukin áhersla á endurvinnslu

.

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra hefur gefið út þrjár reglugerðir á sviði úrgangsmála sem taka þegar gildi. Um er að ræða

reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003,

reglugerð um urðun úrgangs, nr. 738/2003 og

reglugerð um brennslu úrgagns, nr. 739/2003.

Reglugerðirnar eru settar á grundvelli nýrra laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Markmið laganna um meðhöndlun úrgangs er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og að dregið verði með skipulegum hætti úr myndun úrgangs eftir því sem unnt er og þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu. Þetta er fyrsta almenna löggjöfin um úrgangsmál hér á landi. Lögin taka m.a. mið af þeim skuldbindingum sem fylgja þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu og má þar nefna grunntilskipun um úrgang frá 1975, tilskipun um urðun úrgangs og tilskipun um sorpbrennslu.

Á undanförnum árum hefur margt áunnist í úrgangsmálum hér á landi. Áhersla hefur verið lögð á að auka endurnýtingu úrgangs með því að bæta nýtingu úrgangsefna og að beita hagrænum hvötum til að minnka það magn sem nú fer til förgunar. Magn úrgangs hefur þó farið vaxandi á undanförnum árum og áratugum og er því mikilvægt að setja reglur sem leiða til ábyrgrar meðhöndlunar á úrgangi.

Í reglugerð um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs annars vegar unna af Umhverfisstofnun og áætlanir sveitarfélagana hins vegar sem hafa skulu það að markmiði að draga úr myndun úrgangs, auka endurnotkun og endurnýtingu. Sérstaklega skal gera grein fyrir leiðum til að draga úr magni þess lífræna heimilisúrgangs sem berst til urðunarstaða. Einnig skal gera grein fyrir leiðum til að minnka annan lífrænan úrgang. Fjalla skal um leiðir til að koma í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs og hvernig umbúðir eru endurnotaðar. Ennfremur ber að gera grein fyrir endurnotkun og endurnýtingu úr sér genginna ökutækja sem og söfnun og meðhöndlun á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Gert er ráð fyrir að fyrsta landsáætlun komi út eigi síðar en 1. apríl 2004. Í reglugerðinni eru meginreglur um meðhöndlun úrgangs sem gilda jafnt fyrir einstaklinga, lögaðila og aðila sem meðhöndla úrgang í atvinnuskyni. Kveðið er á um að tæknilegar lausnir í úrgangsmálum skuli taka mið af þeirri forgangsröðun að í fyrsta lagi verði dregið úr myndun úrgangs, í öðru lagi komi endurnotkun, í þriðja lagi endurnýting og loks í fjórða lagi endanleg förgun úrgangs. Loks ber að vekja athygli á því nýmæli í reglugerðinni að sérstaklega er kveðið á um meðhöndlun á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum.

Reglugerð um urðun úrgangs gildir um urðun úrgangs og skilyrði fyrir móttöku hans til urðunar. Ákvæði um starfsleyfi, móttöku úrgangs til urðunar, vöktun og lokun urðunarstaðar eru mun ítarlegri en verið hefur. Jafnframt er í reglugerðinni kveðið á um að rekstraraðili urðunarstaðar skuli leggja fram fullnægjandi fjárhagslega tryggingu eða ábyrgð fyrir því að staðið verði við þær skyldur sem fylgja starfsleyfinu, þar á meðal um lokunar- og eftirlitsaðgerðir í kjölfar lokunar urðunarstaðar og skal hún gilda í 30 ár eftir að urðunarstað er lokað. Starfandi urðunarstaðir skulu uppfylla kröfur reglugerðarinnar eigi síðar en 16. júlí 2009 en loka ella.

Reglugerð um brennslu úrgangs gildir um brennslu- og sambrennslustöðvar. Ákvæði reglugerðarinnar hafa einungis í för með sér breytingu vegna nýrra sorpbrennslustöðva. Í reglugerðinni er kveðið á um að tryggja skuli að varmaorkan, sem myndast við brennsluferlið, sé endurheimt eftir því sem við verður komið, t.d. til varma- og raforkuvinnslu, gufuframleiðslu eða fjarhitunar.

Sveitarfélögunum er heimilt að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs samkvæmt reglugerðunum en skylt er að innheimta þann kostnað sem urðun úrgangs hefur í för með sér.

Nánari upplýsingar veita Sigurbjörg Sæmundsdóttir og Sigrún Ágústsdóttir í síma 545 8600.

Fréttatilkynning nr. 35/2003
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum