Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðalfundur UNEP í Nairobi í Kenýa 4.-10. febrúar sl.

Aðalfundur Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), sem haldinn var 4.-10. febrúar sl. í Nairobi í Kenýa, samþykkti sl. föstudag tillögu Íslands um að hafinn verði undirbúningur að alþjóðlegri úttekt á ástandi sjávar og afleiðingum þeirrar hnignunar vistkerfa hafsins sem nú á sér stað. Skort hefur heildaryfirsýn yfir mengun sjávar og önnur áhrif mannsins á lífríki hafsins og efnahagsleg og félagsleg afleiðingar þeirra áhrifa. Úttektinni er ætlað að bæta þar úr en hún tekur ekki til áhrifa veiða á nytjastofna.

Hér er um tímamótaákvörðun að ræða sem mun leiða til þess að verndun hafsins fái aukið pólitískt vægi á alþjóðavettvangi.

Á fundinum ræddu umhverfisráðherrar aðildarríkjanna m.a. tengsl fátæktar og umhverfismála. Í umræðum um orkumál lagði Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, áherslu á mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og þekkingar á nýtingu þeirra. Í því sambandi greindi hún frá árangri af starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem staðsettur er á Íslandi, og benti á mikla möguleika til nýtingar jarðhita í þróunarríkjunum.

Umhverfisráðherra tók einnig þátt í umræðu um stjórnun umhverfismála á alþjóðavettvangi og hvatti til einföldunar í stofnanakerfi Sameinuðu þjóðanna og varaði við of mikilli dreifingu verkefna á margar stofnanir.

Í lok fundarins voru jarðhitavirkjanir í Kenýa skoðaðar og fjallað um framtíðarmöguleika á nýtingu endurnýjanlegrar orku í Afríku. Við það tækifæri hélt Ingvar B. Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskólans erindi um reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita. Í máli hans kom fram að fjórðungur nemenda skólans koma frá Afríku og hafa þeir þegar haft mikil áhrif á jarðhitanýtingu í álfunni.

Umhverfisráðherra heimsótti að loknum fundinum náttúruverndarsvæðið í Masai Mara í Kenýa og kynnti sér framkvæmd náttúruverndar á svæðinu. Fundinn sóttu auk ráðherra Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri.

Frekari upplýsingar gefur Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri, í síma 896 4190.

Fréttatilkynning nr. 1/2001
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum