Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra lýsir yfir áhyggjum vegna Sellafield

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur sent John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra og umhverfisráðherra Bretlands, bréf, þar sem lýst er yfir áhyggjum vegn nýlegs atviks í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield, þar sem geislavirk efni sluppu út og starfsfólk var sent í læknisskoðun til þess að athuga hvort það hefði orðið fyrir skaða af völdum þeirra.

Í bréfi sínu minnir umhverfisráðherra á fyrri yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, þar sem lýst er þungum áhyggjum vegna öryggis kjarnorkuendurvinnslustöðva í Bretlandi og mengunar frá þeim og segir að atvikið í Sellafield veki enn einu sinni upp spurningar um öryggi þar. Á hinn bóginn sé ástæða til að fagna breyttri afstöðu Breta á nýlegum fundi umhverfisráðherra aðildarríkja OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins. Þar samþykktu Bretar og Frakkar að þeir myndu hætta losun geislavirkra efna í hafið fyrir árið 2020, en þessar þjóðir eru þær einu sem stunda slíka losun og endurvinnslu á geislavirkum úrgangi. Umhverfisráðherra segir í niðurlagi bréfsins að þessi yfirlýsing eigi að varða veginn fram á við og eigi að tryggja að losun geislavirkra efna út í umhverfið fari minnkandi.

Fréttatilkynning nr. 33/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum