Hoppa yfir valmynd
3. mars 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Níels Einarsson skipaður forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur skipað Níels Einarsson forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Stjórn stofnunarinnar mælti einróma með Níelsi í stöðuna, en sex umsækjendur voru um hana.

Níels Einarsson er fæddur árið 1962 og lauk fil. lic. prófi í mannfræði frá Uppsalaháskóla árið 1993. Hann hefur stundað rannsóknir í fræðigrein sinni bæði sjálfstætt og í samstarfi við heimskautastofnanir í Evrópu og Norður-Ameríku, þ.á m. Heimskautastofnun Dartmouth-háskóla, Scott Polar Research Institute í Cambridge, mannfræðideild Háskólans í Oxford og heimskautastofnanir á Norðurlöndum. Auk þess hefur Níels tekið virkan þátt í að byggja upp norðurslóðarannsóknir við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar starfar skv. lögum nr. 81/1997. Hún er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra og samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi. Henni er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði. Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri.

        Fréttatilkynning nr. 13/1998
        Umhverfisráðuneytið

      Hafa samband

      Ábending / fyrirspurn
      Ruslvörn
      Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum