Hoppa yfir valmynd
30. júní 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur umhverfisráðherra með Ritt Bjerregaard

Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, átti í gær, 29. júní, fund með Ritt Bjerregaard framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði umhverfismála.

Umhverfisráðherra gerði grein fyrir stöðu umhverfismála á Íslandi. Mikilvægt væri að tryggja áfram að hafið umhverfis landið héldi hreinleika sínum. Í þessu sambandi nefndi ráðherra sérstaklega stöðu umhverfismála í norðvestur-hluta Rússlands og mengun frá Sellafield í Bretlandi. Vegna mikilvægis sjávarútvegs fyrir Ísland væri nauðsynlegt að standa öflugan vörð í umhverfismálum gagnvart hafinu. Umhverfisráðherra kynnti síðan áherslur Íslands varðandi mengun hafsins, einkum vegna þrávirkra lífrænna efna og vék að sérstöðu Íslands varðandi Kyoto-bókunina. Ísland hefði fyrir árið 1990 gripið til stórtækra ráðstafana til þess að draga úr losun koltvíoxíðs með því að hita upp hús með heitu vatni í stað mengandi orkugjafa. Ræddi ráðherra um að mikilvægt væri að notaðir væru hreinir og endurnýjanlegir orkugjafar í atvinnulífinu, s.s. eins og raforka frá vatnsaflvirkjunum, í stað skaðlegri orkugjafa ef þess væri kostur. Kynnt voru sjónarmið Íslands í sambandi við hvalveiðar.

Umhverfisráðherra fjallaði um fyrirhugaða ráðstefnu um umhverfismál á Norðurslóðum, sem Ísland stendur fyrir í krafti formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Siv Friðleifsdóttir þakkaði fyrir stuðning framkvæmdastjórnarinnar við undirbúning ráðstefnunnar, sem haldin verður í Brussel í byrjun október á þessu ári. Fram kom að framkvæmdastjórnin hygðist kynna drög að áætlun sinni um umhverfisþátt hinnar Norðlægu víddar Evrópusambandsins á ráðstefnunni, en Norðlæga víddin er eitt af áhersluatriðum Finna, sem taka við formennsku í Evrópusambandinu 1. júlí. Á ráðstefnunni gefst þátttökuríkjum kostur á að tjá sig um einstök áhersluatriði áður en áætlunin verður endanlega samþykkt.

Að lokum nefndi umhverfisráðherra mikilvægi þess að umhverfisráðherrar EES/EFTA ríkjanna eigi reglulega fundi með umhverfisráðherrum Evrópusambandsins í tengslum við ráðsfundi þeirra.


Fréttatilkynning nr. 13/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum