Hoppa yfir valmynd
8. júní 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Niðurstöður vöktunarmælinga á mengun á Íslandi og í hafinu

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra kynnti í dag niðurstöður viðamikilla vöktunarmælinga á mengandi efnum á Íslandi og í hafinu kringum landið, sem unnið hefur verið að á undanförnum árum. Niðurstöðurnar eru kynntar í viðamikilli stöðuskýrslu, sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins, svokölluð AMSUM nefnd, hefur skilað af sér varðandi tilvist nokkurra mengandi efna hér við land.

Þau mengandi efni sem fjallað er um skiptast í fjóra flokka: Þungmálma, þrávirk lífræn efni, geislavirk efni og næringarefni. Í starfi AMSUM-nefndarinnar var lögð áhersla á sjóinn og lífríki hans, en í skýrslunni er einnig að finna upplýsingar um tilvist mengandi efni í andrúmslofti, straumvötnum, stöðuvötnum, landspendýrum, fuglum og manninum.

Almennt sýna niðurstöðurnar að umhverfið við og á Íslandi er tiltölulega hreint miðað önnur nálæg lönd og svæði. Styrkur þungmálma í andrúmslofti er mjög sambærilegur við það sem gerist á norðlægum slóðum, en styrkur nokkurra þungmálma er tiltölulega hár í sjávarseti og sjávarlífverum, sem virðist þó mega rekja til náttúrulegra aðstæðna. Styrkur þrávirkra lífrænna efna í andrúmslofti og úrkomu hér er ívið lægri en á öðrum sambærilegum norðlægum stöðum og styrkur þeirra í lífríki sjávar hér við land er með því lægsta sem mælist. Niðurstöður sýna ennfremur að magn PCB og DDE (afleiða af DDT) hefur minnkað í fiski á Íslandsmiðum á tímabilinu 1990-1996. Á hinn bóginn er magn þrávirkra efna í fuglum (æðarfugl og fálki) hærra hér en í sambærilegum tegundum á norðlægum slóðum. Talið er að hér sé um innflutning að ræða t.d. með farfuglum. Einnig hefur mælst hlutfallslega hár styrkur af kvikasilfri í fjöðrum sjófugla frá Látrabjargi. Geislavirkni í íslensku umhverfi er mjög lág, hvort sem um er að ræða lífríki eða aðra hluta umhverfisins (set, sjó, úrkomu). Greinileg eru þó áhrif frá Sellafield í sjónum hér við land og í þangi.

Fréttatilkynning nr. 9/1999

Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum