Hoppa yfir valmynd
22. desember 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra staðfestir úrskurð Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað laxeldi í Berufirði beri ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Samgönguvika 2004
vika_2004

Umhverfisráðherra hefur í dag staðfest með úrskurði sínum ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. október 2000 um að ekki beri að fara fram mat á umhverfisáhrifum á fyrirhuguðu eldi á laxi í sjókvíum í Berufirði en ákvörðun Skipulagsstofnunar var kærð til umhverfisráðherra. Úrskurður ráðuneytisins er byggður á viðmiðunum sem koma fram í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og þeim umsögnum og athugasemdum sem umhverfisráðuneytið óskaði eftir. Samkvæmt 2. viðauka laganna um mat á umhverfisáhrifum, skal tilkynna einstakar framkvæmdir til Skipulagsstofnunar. Ákvörðun um mat byggist síðan á því hvort líklegt sé að framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og er það metið í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar framkvæmdar. Skipulagsstofnun úrskurðaði 29. nóvember sl. að meta skyldi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum í Reyðarfirði, en fyrirhugað laxeldi í Mjóafirði var í úrskurði Skipulagsstofnunar 9. ágúst ekki talið matsskylt. Þann úrskurð staðfesti umhverfisráðuneytið 20. október sl. eftir kærumálsmeðferð.

Megin kæruefni varðandi sjókvíaeldi í Berufirði snýst um áhrif sem það kunni að hafa á villta laxastofna. Í umsögn Veiðimálastjóra kemur fram að því er varðar villta laxastofna sé Berufjörður á lítt viðkvæmum stað varðandi starfsemi á sviði fiskeldis. Berufjarðarsvæðið er því talið vera eitt hið álitlegasta til fiskeldis með tilliti til umhverfisáhrifa á veiðiár. Í umsögn veiðimálastjóra kemur einnig fram að litlar líkur séu taldar á því að strokulaxar úr eldi gangi í nokkrum mæli í ár utan næsta nágrennis Berufjarðar. Mikil þekking er á hegðun eldislaxa sem sleppa úr kvíum í Noregi. Þar hefur komið í ljós að strokulax leiti aðallega á eldiskvíasvæðið þegar kynþroska er náð.

Það er því mat ráðuneytisins að fyrirhugað laxeldi í sjókvíum í Berufirði beri ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram í kærum og við meðferð málsins frá því að Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð sinn 6. október s.l. sem benda til þess að um umtalsverð umhverfisáhrif kunni að vera af fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Berufirði.

Rétt er að taka fram að Hollustuvernd ríkisins gefur út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi sbr. 8.1 reglugerðar nr. 785/1999 og samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laga nr. 76/1970 er það í höndum Veiðimálastjóra að gefa út rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi að fenginni umsögn veiðimálanefndar.



Fréttatilkynning nr. 27/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum