Hoppa yfir valmynd
9. júní 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningar við bandarísku kortastofnunina

Grunnkortagerð af Íslandi í mælikvarða 1:50.000 hefur staðið yfir síðan árið 1959 á vegum Landmælinga Íslands (LMÍ) í samvinnu við bandarísku kortastofnunina, NIMA (National Imagery and Mapping Agency).

Undanfarna mánuði hefur varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins unnið að því í samvinnu við umhverfisráðuneytið og LMÍ að koma á viðræðum um framhald samstarfs við NIMA um kortagerð en það hefur legið niðri um árabil.

Dagana 4.-7. júní var haldinn fundur fulltrúa íslenskra stjórnvalda með fulltrúum NIMA í Washington. Fundinn sóttu fyrir Íslands hönd Helga Hauksdóttir frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Friðrik Jónsson frá sendiráðinu í Washington, Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneytinu og Kristján Guðjónsson og Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands. Fundurinn var haldinn í framhaldi af viðræðum sem fóru fram 9.-11. mars sl. á Akranesi og í sendiráði Íslands í Washington 19. nóvember 1998.

Á síðasta fundi var lokið við gerð rammasamnings um kortagerð á milli NIMA og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins með beinni tilvísun í varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Rammasamningurinn kemur í stað samnings frá 1976 en þó í breyttu formi vegna breyttrar tækni og vinnuaðferða við kortagerð. Samkvæmt nýja samningnum bera LMÍ ábyrgð á framkvæmdinni en í eldri samningi var gert ráð fyrir að NIMA annaðist kortagerðina án þess að settur væri tímarammi eða tryggðar fjárveitingar til verksins af hálfu Bandaríkjastjórnar.
Auk ofanritaðs kveður nýi samningurinn meðal annars á um:

• LMÍ og NIMA munu skiptast á gögnum og sérfræðiþekkingu við uppbyggingu stafræns kortagrunns af Íslandi;
• Samkomulag um fjárframlag NIMA til verkefnisins;
• Aðstoð NIMA við þjálfun starfsmanna LMÍ heima og í Bandaríkjunum;
• Aðgang og heimild LMÍ til notkunar að prentuðum kortum af Íslandi sem varðveitt eru hjá NIMA;
• Aðgang LMÍ að upplýsingum NIMA um staðla og gæðakröfur vegna kortagerðar og uppbyggingar stafrænna kortagrunna.

Það er mat íslenskra stjórnvalda að eitt af mikilvægustu verkefnum Landmælinga Íslands sé að koma á fót stafrænum kortagrunni á næstu árum af öllu Íslandi, en slíkt mun gjörbreyta aðstæðum við skipulagsvinnu, verklegar framkvæmdir og notkun landfræðilegra upplýsingakerfa. Þeir samningar sem náðst hafa við NIMA munu stuðla að því að þessu markmiði verði náð enda hefur bandaríska stofnunin yfir að ráða gögnum, tækni og reynslu sem nýtist við verkefnið.

Fréttatilkynning nr. 10/1999

Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum