Hoppa yfir valmynd
20. október 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður um að fyrirhugað laxeldi í Mjóafirði skuli ekki fara í mat á umhverfisáhrifum.


Umhverfisráðherra hefur í dag staðfest með úrskurði sínum ákvörðun skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2000 um að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum á fyrirhuguðu þauleldi á laxi í sjókvíum í Mjóafirði en ákvörðunin var kærð til umhverfisráðherra. Úrskurður ráðuneytisins er byggður á viðmiðunum sem koma fram í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og þeim umsögnum og athugasemdum sem umhverfisráðuneytið óskaði eftir.

Í niðurstöðu úrskurðarins kemur m.a. fram að líta verði á umfang fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Mjóafirði í ljósi staðsetningar þess en staðsetningin vegur þungt þegar umhverfisáhrif eru metin af framkvæmd. Hollustuvernd ríkisins telur að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum með tilliti til staðsetningar. Þá segir í niðurstöðunni að framkvæmdin muni ekki hafa áhrif á strandsvæði enda er endurnýjun vatns í Mjóafirði mikil vegna strauma.

Megin kæruefni varðandi sjókvíaeldi í Mjóafirði snýst um áhrif sem það muni hafa á villta laxastofna hvað varðar hugsanlega erfðablöndun. Ekki er dregið í efa að eitthvað strok sé frá kvíaeldi en ágreiningur er um áhrif þess á villta laxastofna. Rannsóknir sem staðið hafa yfir í nágrannalöndum okkar um langt skeið hafa ekki sýnt fram á að eldislax hafi skaðleg áhrif á náttúrulega villta stofna af sama stofni. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að þau ákvæði laga og reglugerða sem varða þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi sjókvíaeldis eigi að tryggja að fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði verði háð þeim skilyrðum og eftirliti sem muni koma í veg fyrir eða takmarka hættu á hugsanlegri erfðablöndun og smitsjúkdómum vegna kvíaeldisins. Hér er m.a. um að ræða lög um lax og silungsveiði, nr. 76/1970, lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fiskisjúkdómum og reglugerð nr. 785/2000 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þá bendir ráðuneytið á að á vegum landbúnaðarráðuneytisins er starfandi nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir þætti sem snerta sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru.

Hollustuvernd ríkisins gefur út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi sbr. 8.1 reglugerðar nr. 785/1999 og samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laga nr. 76/1970 er það í höndum Veiðimálastjóra að gefa út endanlegt leyfi fyrir sjókvíaeldi að fenginni umsögn veiðimálanefndar.

Nánari upplýsingar gefur Einar Sveinbjörnsson í síma 896 4189.

Fréttatilkynning nr. 20/2000
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum