Hoppa yfir valmynd
11. júní 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Díoxín í matvælum

Innflutningur og önnur dreifing tiltekinna matvæla frá Belgíu hefur nú verið takmarkaður með ákvörðunum Evrópusambandsríkja og annarra ríkja. Ástæðan er fóðrun dýra með díoxínmenguðu fóðri á fyrri hluta þessa árs. Evrópusambandið hefur sett skilyrði um útflutning matvæla frá Belgíu, en íslenskum stjórnvöldum þykir jafnframt rétt eins og fleiri löndum að setja reglur um innflutning þessara matvæla til Íslands og eftirlit með honum.

Umhverfisráðuneytið hefur að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið gefið út hjálagða auglýsingu um takmörkun á innflutningi tiltekinna matvæla frá Belgíu. Markmiðið er að tryggja að díoxínmenguð matvæli verði ekki hér á markaði. Hollustuvernd ríkisins og Embætti yfirdýralæknis munu hafa eftirlit með framkvæmd auglýsingarinnar. Þessar stofnanir hafa að undanförnu skoðað innflutning matvæla frá Belgíu. Búið er að farga einni sendingu af hitameðhöndluðu svínakjöti sem gat verið af belgískum uppruna. Var það gert að beiðni innflytjandans áður en varan var tollafgreidd. Þá er unnið að innköllun á nokkrum tegundum af eftirréttarkökum sem að mestu var dreift til veitingastaða og mötuneyta í stofnunum og fyrirtækjum. Ástæða innköllunarinnar er sú að framleiðandi hefur ekki getað lagt fram staðfestingu belgískra yfirvalda um öryggi vörunnar eða hráefna sem hún inniheldur. Innköllun þessi er gerð í samvinnu við innflytjandann, undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Þá liggur fyrir að ekki hefur verið flutt inn fóður frá Belgíu.

Ekki hefur verið staðfest að vörur hér á markaði hafi verið mengaðar, heldur hefur skort gögn sem staðfesta öryggi þeirra til neyslu. Mengun matvæla með díoxíni er með öllu óásættanleg því hún getur valdið síðkomnum eituráhrifum sé mengaðra matvæla neytt yfir langan tíma. Þar sem um skamman tíma er að ræða er ekki ástæða til að óttast heilsutjón vegna belgískra matvæla sem hér hafa verið til sölu.
Fréttatilkynning nr. 11/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum