Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherrafundur í Perth um bindingu kolefnis.


Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir mun 18.-19. apríl n.k. taka þátt í ráðherrafundi um Kyoto bókunina og bindingu kolefnis með ræktun sem haldinn verður í Perth í Ástralíu.

Á fundinum verður fjallað um þær ákvarðanir sem 6. aðildarríkjaþing loftlagssamningsins í Haag þarf að taka um útfærslu ákvæða Kyoto bókunarinnar um kolefnisbindingu með gróðri. Nokkrir mikilvægir þættir málsins eru enn þá ófrágengnir m.a. hvort aðrar gróðurbindiaðferðir en skógrækt fáist viðurkenndar. Ísland hefur á fundum aðildarríkja samningsins lagt ríka áherslu á að landgræðsla verði viðurkennd til jafns við skógrækt og bent á gildi þess m.a. fyrir aðgerðir í tengslum við framkvæmd samningsins um varnir gegn eyðimerkurmyndun í þróunarríkjunum. Umhverfisráðherra mun halda framsöguræðu þess hluta ráðherrafundarins sem fjallar um hvaða bindiaðgerðir ætti að viðurkenna til viðbótar við skógrækt.

Þess má geta að ríkisstjórnin ákvað s.l. þriðjudag að veita 2,5 milljónum króna til þess að styrkja þátttöku fulltrúa þróunarríkja í vinnufundi á vegum loftslagssamningsins sem haldinn verður í Póllandi þar sem ákvarðanir aðildarríkjaþings loftslagssamningsins um kolefnisbindingu undirbúnar.

Ísland fer nú ásamt Úganda með formennsku í vinnuhópi um gróðurbindingu innan loftslagssamningsins þar sem samningaviðræður um málið mun fara fram á aukafundum aðildarríkjanna í sumar, en 6. aðalfundur aðildarríkjanna verður í Haag 13.-24. nóvember n.k.

Fréttatilkynning nr. 10/2000
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum