Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Framtíð endurvinnslu úrgangs á Íslandi


Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, hefur skipað nefnd um endurnýtingu úrgangs, sem á að koma með tillögur um aðgerðir sem stuðlað geti að aukinni flokkun og endurnýtingu úrgangsefna. Nefndin skal gera tillögur að markmiðum og skoða hvaða leiðir, s.s. hagrænir hvatar, henta best til að ná settum markmiðum. Þá á nefndin að koma með tillögur um breytingar á löggjöf sem tekur til úrgangsmyndunar, endurnýtingar og förgunar.

Nefndin er sett á fót með vísun í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem segir: "Hrint verði af stað umhverfisátaki, þar sem einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög verði hvött til að endurnýta efni og flokka úrgang". Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum á þremur árum, en að hún skili ráðherra áfangaskýrslum, þeirri fyrstu fyrir lok sumars 2000. Formaður nefndarinnar er Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og formaður spillefnanefndar, en varaformaður er Eyþór Þórhallsson, verkfræðingur. Aðrir nefndarmenn eru: Halla Guðmundsdóttir, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Inga Jóna Þórðardóttir, borgarfulltrúi, einnig tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingi Arason, Gámaþjónustunni, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Ragna Halldórsdóttir, deildarstjóri hjá Sorpu, tilnefnd af FENÚR og Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar er Guðlaugur Sverrisson.

Nefndin kemur saman í fyrsta sinn föstudaginn 11. febrúar kl. 12 í umhverfisráðuneytinu (í húsnæði ráðuneytisins við Lækjargötu, Íslandsbankahúsi, á 4. hæð). Fjölmiðlum er hér með boðið að senda ljósmyndara og aðra fulltrúa sína við upphaf fundar (kl.12-12.30). Boðið er upp á að taka viðtöl við Guðmund G. Þórarinsson við upphaf fundar. Frekari upplýsingar veitir Guðlaugur Sverrisson, starfsmaður nefndarinnar í síma 5609289.

Fréttatilkynning nr. 5/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum