Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stafræn kort og landupplýsingar gerð gjaldfrjáls

Hrútafjörður.
Hrútafjörður.

Stafræn kort og landupplýsingar í vörslu Landmælinga Íslands hafa verið gerð gjaldfrjáls, samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Gögnin eru notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins s.s. við eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir en einnig gagnast þau almenningi og fyrirtækjum með margvíslegum hætti.

Markmiðið með því að gera stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls er að almenningi á Íslandi sé tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um  umhverfi og náttúru landsins. Einnig er markmiðið að hvetja til aukinnar notkunnar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og ímenntakerfinu.

Aðgengi að gögnum og upplýsingum hefur aukist verulega með tilkomu internetsins. Dæmi um það er notkun Google netfyrirtækisins á kortum og landupplýsingum en fyrir fyrir nokkrum árum kynnti það þjónustuvefina Google Earth og Google Maps. Báðar þessar vefsíður  byggja að mestu á gjaldfrjálsum gögnum, sem skýrir hversu ónákvæm kort fyrirtækið notar af Íslandi.

Stafræn landakort og aðrar opinberar landupplýsingar s.s. loftmyndir hafa í auknum mæli verið gerð aðgengileg án gjaldtöku í nágrannalöndunum. Í nýlegri erlendri rannsókn kemur fram að í þeim löndum þar sem opinber kortagögn og landupplýsingar eru án gjaldtöku er vöxtur fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn 15% meiri en í þeim löndum þar sem gögnin eru seld.

Þá hafa dönsk stjórnvöld bent á að ávinningurinn af því að gera opinber stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls sé margfaldur fyrir samfélagið en það birtist m.a. í betri og meiri notkun á gögnum og nýsköpun í atvinnulífinu.

Landmælingar Íslands hafa þegar gert  kortagögnin aðgengileg til niðurhals á vef sínum, www.lmi.is án gjaldtöku.

Bifröst.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum