Hoppa yfir valmynd
4. október 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Átta sérfræðingar útskrifast úr Landgræðsluskóla SÞ

Útskrift Landgræðsluskólans.
Útskrift Landgræðsluskólans.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti á dögunum átta sérfræðingum útskriftarskírteini við útskrift þeirra úr Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Landgræðsluskólinn er starfræktur á Íslandi af Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við íslensk stjórnvöld sem hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Alls dvelja sérfræðingarnir í sex mánuði hér á landi í starfsþjálfun á sviði landgræðslu. 

Útskriftin var sú fimmta síðan Landgræðsluskólinn tók til starfa árið 2007. Í ár útskrifuðust þrjár konur og fimm karlar frá fimm þjóðlöndum: Gana, Mongólíu, Níger, Úganda og Eþíópíu. Var nemendum í ár boðið upp á tvær sérhæfðar línur: Mat á ástandi lands og vistheimt og Sjálfbær landnýting.

Eins og áður unnu nemarnir að fjölbreyttum sérverkefnum undir handleiðslu leiðbeinanda seinni þrjá mánuðina af dvöl sinni á Íslandi.

Í ávarpi sínu við útskriftina sagði umhverfisráðherra landeyðingu meðal helstu áskorana sem mannkynið tækist nú á við í viðleitni sinni til að stuðla að sjálfbærri þróun. Vonaðist hún til að menntun sérfræðinganna hér á landi yrði til þess að þeir hefðu betri tækifæri til að stuðla að jákvæðum breytingum heimavið.

Ræða ráðherra

Nánar um Landgræðsluskóla Háskóla SÞ

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum