Hoppa yfir valmynd
23. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Friðlýsing Dimmuborga og Hverfjalls

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
 

Þann 22. júní sl. staðfesti Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra friðlýsingu tveggja svæða í Skútustaðahreppi, það eru Dimmuborgir og Hverfjall (Hverfell). Fyrst við hátíðlega athöfn á Hallarflötinni í Dimmuborgum þar sem Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri staðfesti yfirlýsingu um friðun Dimmuborga og síðar við rætur Hverfjalls (Hverfells) þar sem Jóhann F. Kristjánsson, formaður landeigendafélags Voga staðfesti yfirlýsingu um friðlýsingu Hverfjalls (Hverfells).

Svæðin eru bæði friðlýst sem náttúruvætti þar sem um sérsstæðar jarðmyndanir er að ræða. Í friðlýsingarreglunum er einnig áhersla á aðgengi að svæðunum enda bæði svæðin vinsæl til útivistar og fræðslu. Í Mývatnssveit er afar fjölbreytt og fagurt náttúrufar og er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Svæðið, Mývatn og lífríki, sérstaklega fuglalíf og fjölbreyttar og fagrar jarðmyndanir hafa heillað innlenda og erlenda vísindamenn og náttúruunnendur.

Umhverfisstofnun og ráðuneytið mun í samstarfi við landeigendur og sveitarstjórn Skútustaðahrepps vinna að friðlýsingu annarra merkra svæða í samræmi við skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2004 og óskir heimamanna.

Þess má geta að ríkisstjórnin samþykkti að tillögu umhverfisráðherra þann 10. júní sl. 5 milljóna króna fjárveitingu til nauðsynlegra framkvæmda og rekstrar í tengslum við friðlýsingu Dimmuborga og Hverfjalls (Hverfells) í Mývatnssveit.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum