Hoppa yfir valmynd
18. júní 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Unnið að viðbragðsáætlun vegna landtöku hvítabjarna

Carsten Gröndal, yfirdýralæknir dýragarðsins í Kaupmannahöfn, og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra.
Á fundi í umhverfisráðuneytinu

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra átti fund með Carsten Gröndal, yfirdýralækni dýragarðsins í Kaupmannahöfn, í umhverfisráðuneytinu í dag. Á fundinum var rætt um aðgerðir Umhverfisstofnunar við að bjarga hvítabirninum sem fannst í Skagafirði í fyrradag og umhverfisráðherra þakkaði Carsten Gröndal fyrir veitta aðstoð.

Umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna að tillögum um viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra landtöku hvítabjarna hér á landi. Starfshópurinn mun við vinnu sína taka mið af þeirri reynslu sem fengist hefur af landtöku tveggja hvítabjarna við Skagafjörð síðustu tvær vikur og viðbrögðum við komu þeirra. Ennfremur mun hópurinn leita sem víðast eftir reynslu og þekkingu annarra á þessu sviði og hefur Carsten Gröndal samþykkt að vera starfshópnum til ráðgjafar.

Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri sviðs náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun er formaður hópsins. Aðrir sem skipa hópinn eru dr. Guðmundur A. Guðmundsson, dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir fyrir Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi og Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í eftirlitsflug um Hornstrandir í dag til að kanna hvort hvítabirnir finnist á svæðinu. Eftirlitið fer fram í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun og Jón Björnsson, starfsmaður stofnunarinnar, var með í för við eftirlitsflugið í dag. Landhelgisgæslan mun leita víðar á næstu dögum, auk þess sem hefðbundnu ískönnunarflugi á Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar verður haldið áfram.

Umhverfisstofnun vinnur nú að því fyrir umhverfisráðuneytið að taka saman kostnað sem til féll vegna tilraunar við að bjarga hvítabirninum í Skagafirði í gær. Vonast er til að þeirri vinnu ljúki í næstu viku.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum