Hoppa yfir valmynd
2. maí 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningur um umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum

Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir mun í dag undirrita á Ísafirði samning um umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum. Með samningnum felur Umhverfisstofnun Ísafjarðarbæ að annast umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum. Af hálfu Ísafjarðarbæjar munu Guðni G. Jóhannesson formaður bæjarráðs og Halldór Halldórsson bæjarstjóri undirrita samninginn og fyrir hönd Umhverfisstofnunar Árni Bragason staðgengill forstjóra.

Með samningnum tekur Ísafjarðarbær að sér á að sjá um að umgengni og ástand friðlandsins sé með besta móti og að farið sé að reglum friðlandsins. Einnig mun Ísafjarðarbær sjá um að upplýsa ferðamenn um umgengisreglur og að viðhalda gönguleiðum og upplýsingarskiltum í friðlandinu. Starfsmenn í friðlandinu mun verða starfsmenn Ísafjarðarbæjar og mun Ísafjarðarbær stefna að því að starfsmenn friðlandsins séu með landvarðarréttindi. Samningurinn gildir í tíu ár.

Í tengslum við undirritun samningsins mun umhverfisráðherra ennfremur gera grein fyrir stöðu mála varðandi uppbyggingu snjóflóðarannsóknastöðar á Ísafirði, en Alþingi ákvað í fjárlögum 2003 að leggja fjármagn að upphæð kr. 4 milljónir til verkefnisins.

Undirritun samningsins fer fram í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði, kl. 9:00 f.h. föstudaginn 2. maí.

Fréttatilkynning nr. 15/2003
Umhverfisráðuneytið



 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum