Hoppa yfir valmynd
4. júní 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar Evrópuríkja funduðu í Essen í Þýskalandi

Umhverfisráðherrar Evrópuríkja komnir saman í Essen í Þýskalandi.
Í Essen í Þýskalandi

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sat fund umhverfisráðherra Evrópska efnahagssvæðisins sem haldinn var í Essen í Þýskalandi 1. – 3. júní sl. Megintilgangur fundarins var að ræða helstu viðfangsefni og möguleika á sviði umhverfismála innan Evrópusambandsins og hvernig best megi bregðast við þeim vanda sem nú steðjar að vistkerfum jarðar, sérstaklega vegna loftslagsbreytinga og vaxandi ógnar við líffræðilega fjölbreytni.

Loftslagsbreytingar og aðgerðir til að vinna gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar voru ofarlega á baugi í umræðum á fundinum svo og hvernig mætti best tryggja samhliða slíkum aðgerðum efnahagslega og félagslega velferð. Ráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að greiða fyrir þróun nýrrar tækni sem leiddi til betri orkunýtingar, minni sóunar hráefna og minni losunar gróðurhúsalofttegunda.  Í raun þyrfti á næstu 10 -15 árum að verða tæknibylting í iðnaði í heiminum sem tæki mið af vistkerfum jarðarinnar og sjálfbærri þróun.  Tengsl umhverfismála og áframhaldand efnahagsvaxtar og félagslegrar velferðar yrðu ekki aðskilin og markvissari umhverfisvernd væri forsenda fyrir framtíðarvelferð.  Umhverfismál yrðu því að verða stærri hluti af stefnumótun stjórnvalda ekki síst í efnahagsmálum og innan einstakra geira.  Mikilvægt væri að styðja rannsóknir og þróun á nýrri tækni og að skapa markaðsskilyrði fyrir fyrirtæki og einstaklinga svo ná megi fram nauðsynlegum breytingum á sem stystum tíma.  Í þessu sambandi þyrftu stjórnvöld að beita hagrænum stjórntækjum svo sem sköttum og gjöldum í ríkari mæli en áður og opinberir aðilar ganga á undan með góðu fordæmi í umhverfisvænum innkaupum.

Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir lagði áherslu, í sínum máli á fundinum, á að Evrópusambandið hefði forystu um að koma þessum breytingum fram, ljóst væri að í heiminum vantaði forystu í umhverfisvernd og að þróun mála á undanförnum árum sýndi ótvírætt nauðsyn skjótra viðbragða.  Umhverfisráðherra benti jafnframt á mikilvægi þess að upplýsa almenning og fá almenning til að taka fullan þátt í nauðsynlegum breytingum.  Þá nefndi ráðherra góða reynslu Íslendinga af nýtingu jarðvarma og benti á þá möguleika sem nýting jarðhita víða í heiminum gætu gefið til þess m.a. að aðstoða við lausn þeirra vandamála sem við blasa.

Mjög góð samstaða ríkti á fundinum meðal ráðherra Evrópusambandsins og má gera ráð fyrir því að niðurstöður fundarins muni verða leiðandi vegvísir fyrir frekari stefnumótun ESB á næstu misserum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum