Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áslaug Arna ávarpaði Iðnþing

Snjöll framtíð í orkumálum, nauðsyn þess að umbylta úreltum kerfum og nýting gervigreindar til að bæta þjónustu hins opinbera. Þetta er meðal þess sem kom fram í ávarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í gær. Samtökin fagna 30 ára afmæli í ár og var yfirskrift þingsins að þessu sinni Hugmyndalandið. Hugvitsgreinar og iðnaður voru þar í fyrirrúmi og ræddu þátttakendur hvernig best sé að skapa verðmæti úr takmörkuðum auðlindum og auka lífsgæði á Íslandi.

Í ávarpi sínu ræddi Áslaug Arna mikilvægi þess að samfélagið sofni ekki á verðinum og að árangur í hugvits- og tæknigreinum eigi sér ekki stað sjálfkrafa. Gríðarmiklar breytingar væru að eiga sér stað, ekki síst á sviði gervigreindar og þekkingarsköpunar, og Íslendingar þyrftu að fylgja þeirri þróun til að heltast ekki úr lestinni. Af þeim sökum vinni háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið nú m.a. að aðgerðaráætlun um gervigreind.

„Við þurfum að vera þátttakendur í þessari þróun og beisla tækifæri tækninnar til þess að gæta að samkeppnishæfni okkar, svo að íslenskt hugvit verði áfram eftirsótt í hinum stóra heimi,“ sagði Áslaug Arna.

Í ræðu sinni fjallaði ráðherra einnig um mikilvægi þess að nýta tækifæri tækninnar, ekki aðeins til að sækja fram heldur jafnframt til að bæta þjónustu hins opinbera. ,,Finna leiðir til sjálfvirkni og tryggja það að við getum gert meira fyrir minna,“ sagði Áslaug.

Í því samhengi minntist ráðherra á þörfina á snjallri framtíð í orkumálum. Með því að nýta nýsköpun, vísindi og háskólasamfélagið og bæta aðgengi að gögnum, einfalda regluverk og innleiða markaðslausnir sé hægt að nýta núverandi orkukerfi miklu betur. Með því minnki ekki aðeins sóun í kerfinu heldur geti það jafnframt sparað samfélaginu umtalsverðar fjárhæðir. „Töfralausnin er ekki að loka álveri. Lausnin er að virkja betur vindinn, fallvötnin og hugvitið.”

Í lokaorðum sínum undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að stjórnmálin kæfðu ekki hugmyndir og nauðsyn þess að frumkvæði einstaklinga fái að njóta sín. Til þess að ná árangri til framtíðar þyrfti að hugsa stórt, þora að umbylta úreltum kerfum og sjá til þess að við glutrum ekki niður tækifærunum.

„Við ætlum að tryggja það saman að saga hugvits á Íslandi verði ekki saga hugmyndanna sem aldrei urðu að veruleika. Heldur saga samfélags þar sem góðar hugmyndir lifa af,“ sagði Áslaug Arna á Iðnþingi.

Upptöku af Iðnþingi 2024 og ræðu Áslaugar Örnu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, má sjá á vef Samtaka iðnaðarins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum