Hoppa yfir valmynd
7. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

17 verkefni fengu styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála – áhersla lögð á lýðræðislega þátttöku og baráttu gegn fordómum og mismunun

Styrkþegar ásamt ráðherra og formanni Innflytjendaráðs. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í dag hver hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árið 2023. Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir samtals 50 milljónir króna.

Í auglýsingu vegna styrkumsókna voru félags- og hagsmunasamtök innflytjenda sérstaklega hvött til þess að sækja um.

Óskað var eftir umsóknum um verkefni sem ná til:
Aukinnar lýðræðislegrar þátttöku innflytjenda.
Aðgerða gegn fordómum, haturstjáningu og ofbeldi.
Aðgerða gegn margþættri mismunun.

Í fyrsta sinn gátu einstaklingar sótt um styrki til verkefna en ekki einungis til rannsókna. Þá var unnt að sækja um jafnt á íslensku sem ensku. 

Sjá lista hér neðst í fréttinni yfir verkefni og rannsóknir sem hlutu styrki.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„ Ég óska öllum styrkþegum til hamingju og hlakka til að fylgjast með framhaldinu. Málefni innflytjenda eru afar þýðingarmikil og hafa kannski aldrei verið mikilvægari en nú. Við höfum stóraukið framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála og það gleður mig mjög að sjá þá miklu grósku sem er hér á landi í margvíslegum verkefnum og rannsóknum sem tengjast málaflokknum.“

Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs:

„Sótt var um styrki fyrir mörg áhugaverð verkefni en því miður gátum við ekki styrkt þau öll. Verkefnin sem fengu styrk fylgdu framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda og er það von okkar að þau hafi jákvæð áhrif á innflytjendur á Íslandi.”

Hópmynd við úthlutunina í dag.

Verkefnin „Fjölmenningarskóli Vesturlands“ og „Landnemaskólinn: Hæ, Ísland! Hæ, íslenska!“ hlutu hæstu verkefnastyrkina í ár og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hæsta rannsóknarstyrkinn fyrir rannsóknina „Financial inclusion of immigrants in Iceland?“ Fulltrúar þeirra eru hér saman á mynd.

 

 

Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Eftirtalin verkefni og rannsóknir hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni:

Nafn verkefnis

Umsækjandi

Upphæð

Borgaraleg þátttaka og ræktun félagsauðs meðal foreldra í leik- og grunnskólum

 

 

Verkefnið miðar að því að auka þátttöku innflytjenda í foreldrafélögum leik- og grunnskóla og þannig stuðla að mikilvægri uppbyggingu félagsauðs í skólasamfélaginu. Þróaður verður stafrænn leiðarvísir fyrir skóla og foreldra til að auka virka þátttöku innflytjenda í foreldrastarfi sem eins og staðan er í dag er vart mælanleg. NORTH Consulting ehf.  2.900.000
Courageous steps: Migrant Women Combatting Gender Based Violence 

 

 

Verkefninu er ætlað að taka á kynbundnu- og kynferðislegu ofbeldi með vinnustofum í feminískri sjálfsuppbyggingu og sjálfsvörn. Kynnt verða þau meðferðarúrræði sem til staðar eru fyrir þolendur ofbeldis og upplýsingaefni á ólíkum tungumálum dreift.
Slagtog, félagasamtök um feminíska sjálfsvörn  4.400.000

Félagsleg þátttaka og færni í íslensku meðal nemenda í íslenskuverum Reykjavíkurborgar

 

 

Verkefnið felur í sér rannsókn á því hvernig íslenskuver á vegum Reykjavíkurborgar undirbúa nemendur undir þátttöku í skóla- og frístundastarfi og hvort starfsemi þeirra stuðli að lýðræðislegri þátttöku í skóla- og frístundasamfélaginu. Íslenskuverin eru tímabundin stoðþjónusta fyrir nemendur í 5-10. bekk sem flytja til landsins og er ætlað að aðstoða þau við að ná tökum á tungumálinu án þess að aðskilja þessa nemendur eins og hefðbundnar móttökudeildir.  Renata Emilsson Peskova  550.000

Financial inclusion of immigrants in Iceland?

 

Um er að ræða rannsókn sem miðar að því að greina aðgengi innflytjenda á Íslandi að þjónustu fjármálastofnana og mögulegar hindranir innflytjenda í því samhengi og áhrif á félagslega stöðu þeirra. Félagsvísindasvið
Háskóla Íslands
  5.300.000

Fjölmenningarskóli Vesturlands

 

Verkefninu er ætlað að styrkja tengslanet og íslenskufærni innflytjenda með fræðslu um menningarfærni til jafnt innlendra sem innflytjenda auk sveigjanlegs íslenskunáms fyrir innflytjendur. Verkefninu er ætlað að auðvelda aðgengi að ýmis konar upplýsingum og ráðgjöf og m.a. stuðla að mati á menntun innflytjenda, að þeir komist í störf við hæfi og taki þátt í borgaralegu samfélagi og mótun samfélagsins á öllum sviðum. Símenntun á Vesturlandi  7.000.000

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - mál allra

 

 

Verkefnið felst í að veita börnum og fjölskyldum með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn aðgengi að upplýsingum og hugmyndafræði heimsmarkmiðanna á tungumálum sem börnin kunna og virkja þannig notkun móðurmáls til að tjá sig í minni hópum á tungumáli sem þau eru örugg í áður en farið er í sameiginlegt samtal á íslensku um leiðir til að gera heiminn betri með heimsmarkmiðin að leiðarljósi.
Móðurmál - samtök um tvítyngi  1.200.000

Immigrant residential segregation in the capital city region

 

 

Rannsóknarverkefni þar sem verið að skoða búsetu innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu og fylgni hennar við félagslega stöðu hópsins. Hún tekur til grunnþátta er varða einangrun innflytjenda og möguleika þeirra til þátttöku í samfélaginu.  
Félagsvísindasvið
Háskóli Íslands
 2.500.000
Jaðarsetning ungra innflytjenda á Íslandi
 
Hér er um rannsóknarverkefni að ræða. Verkefnið miðar að því að skoða fordóma, haturstjáningu og ofbeldi sem ungir innflytjendur á Íslandi kunna að verða fyrir, með sérstakri áherslu á áhrifin á jaðarsetningu þeirra og lýðræðislega þátttöku. Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á neikvæð áhrif slíkrar mismununar, en þörf er á ítarlegri þekkingu á aðstæðum ungra innflytjenda á Íslandi, þar á meðal í skólaumhverfinu.
Margrét Valdimarsdóttir  1.000.000
Landnemaskólinn: Hæ, Ísland! Hæ, íslenska!
 
Námskeið fyrir ungmenni á aldrinum 10-13 ára og 14-17 ára með stutta búsetu á Íslandi þar sem fléttuð er saman samfélagsfræðsla, kynning á menningu í nærumhverfi barnanna og möguleika þeirra til þátttöku í samfélaginu. Fyrsta námskeiðið verður á úkraínsku og rússnesku og þar verður jafnframt sálfélagslegur stuðningur fléttaður inn.
Norræna akademían ehf.  7.000.000
Lýðræðisþátttaka innflytjenda
 
Markmið verkefnisins er að auka lýðræðislega þátttöku innflytjenda í gegnum samstarf við 14 mismunandi hópa fólks með erlendan bakgrunn sem eiga aðild að sendiherraverkefni Reykjavíkurborgar í Breiðholti. Enskumælandi kjarnateymi innan sendiherrasamfélaganna munu fá fræðslu um stjórnmálakerfið og leiðir til borgaralegrar og lýðræðislegrar þátttöku. Þau munu jafnframt fá þjálfun til að miðla áfram til annarra.
Magnea Marínósdóttir  6.000.000
Orðræða kærleiks / Love speech - Nýstárleg íslensk orðabók
 
Hér er um að ræða nýstárlega íslenska orðabók sem verður búin til í samvinnu milli innflytjenda og þeirra sem eru með íslensku að móðurmáli. Markmið verkefnisins er að finna ný íslensk orð sem munu veita mótsvar við hatursorðræðu og styðja við kærleiksrík samskipti.

 Borgarbókasafnið  1.800.000
Skynjað og spjallað - Íslenska kennd í gegnum skynjunarleik: Námskeið fyrir foreldra og börn úr hópi flóttafólks og umsækjenda um vernd
 
Verkefnið kemur til móts við hóp fólks sem stöðu sinnar vegna hefur ekki greiðan aðgang að íslenskunámi eða á ekki gott með að nýta sér formlegt umhverfi skólastofunnar. Það stuðlar að inngildingu þátttakenda og auðveldar þeim að vera virk í sínu bæjarfélagi. Hugmyndin um nám með skynjun er vel útfærð og samstarfsaðilar eru lykilaðilar í starfsemi fyrir flóttafólk í Hafnarfirði. 

GETA - hjálparsamtök  1.150.000
Sögur á einföldu máli: Spornað gegn málfarslegri stéttaskiptingu
 
Samanburðarrannsókn á sögum á einföldu máli á Norðurlöndum og útgáfa smásagna á einföldu máli á íslensku sem eru ætlaðar fólki sem leggur stund á íslensku sem annað mál. Afurð verkefnisins verða tvær fræðigreinar sem munu birtast í ritrýndum tímaritum á ensku og 10 smásögur á íslensku sem verða gefnar út í bók. Sögurnar verða um fólksflutninga, aðlögun fólks og enduraðlögun fólks að heimalandi sínu.

Karítas Hrundar Pálsdóttir  1.000.000
Úti-Hamarinn 2024
 
Ævintýra- og reynslunám ungmennahússins Hamarsins í Hafnarfirði sem gefur ungu fólki m.a. tækifæri á að kynnast Íslandi, upplifa náttúru landsins, í gönguferðum, útilegum, jöklagöngu, sjósundi og fleira. Námskeiðið skapar vettvang fyrir unga innflytjendur og unga innlenda til að kynnast.
Margrét Gauja Magnúsdóttir  1.400.000
Við öll! Menntaskólinn á Ísafirði sem fjölmenningarlegt samfélag
 
Vinnustofur fyrir nemendur og skólasamfélagið í heild með það að markmiði að dýpka skilning og auka meðvitund skólasamfélagsins á því hvað felst í því að vera hluti af inngildandi og fjölmenningarlegu samfélagi.

Menntaskólinn á Ísafirði  2.200.000
Vinnustofa gegn fordómum
 
Verkefninu er ætlað að finna nýjar aðferðir til að minnka fordóma og hatursorðræðu í samfélagi fjölbreytileikans. Lögð er sérstök áhersla á grunnskólaumhverfið og ætlar skólinn að leggja áherslu á að vinna með nemendum og kennurum með það að markmiði að veita þeim verkfæri og aðferðir til að þekkja og takast á við fordóma. Tilgangurinn er að skapa opnara og inngildandi samfélag í Reykjanesbæ auk þess að skapa verkfæri sem nýst gæti öðrum skólum innan sveitarfélagsins til að innleiða heildræna nálgun gegn fordómum.

 Stapaskóli  3.000.000
Víðsýnt
 
Verkefnið snýr að gerð heimildarmyndar sem fjallar um fordóma og hatursorðræðu gegn flóttafólki og spjallrými til umræðu eftir sýningu myndarinnar. Markmiðið er að auka meðvitund ungmenna um slæm áhrif fordóma og hatursorðræðu í samfélaginu. Með gerð myndarinnar býðst ungmennum á flótta tækifæri til að deila reynslu sinni og takast á við fordóma á Íslandi. Gert er ráð fyrir að myndin verði sýnd í ungmennahúsum um allt land.

 Framfarahugur  1.600.000
  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum