Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þjóðarópera í sjónmáli

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp í Samráðsgátt stjórnvalda varðandi stofnun Þjóðaróperu á Íslandi.

Ráðherra kynnti frumvarpið fyrir ríkisstjórn fyrir helgi. Með því er áformað að styrkja grundvöll íslenskrar óperulistar sem er ein af grunnstoðum menningar á Íslandi. Þjóðarópera á að skapa starfsvettvang fyrir fjölda söngvara, hljóðfæraleikara, hönnuða og leikstjóra, auka fjölbreytni í menningarstarfsemi með áherslu á nýsköpun og stuðla að varðveislu og miðlun íslensks menningararfs.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir öflugu fræðslustarfi, samstarfi við tónlistarfélög, leikfélög og kóra á landsbyggðinni, auk samstarfs við grasrót, en einnig skal stefnt að því að íslensk verk verði árlega á dagskrá. Lögð verður áhersla á öflugt starf og fjölbreytt verkefni, hefðbundin sem óhefðbundin, sem sýnd verða á ólíkum stöðum.

Lagt er til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins, en með nánu samstarfi við stærstu sviðslistastofnun landsins náist aukinn kraftur og sóknarfæri, samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum. Þannig er áætlað að mikill meirihluti kostnaðar við Þjóðaróperu fari í mannauð með áherslu á listina sjálfa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aðalaðsetur Þjóðaróperu verði í Hörpu, sem mun aðlaga rými sín fyrir öflugt óperustarf í húsinu, en sýningar verði í Hörpu, Þjóðleikhúsi, Hofi á Akureyri og víðar.

Risastórt skref fyrir óperulist

„Áratuga vinna söngvara og annarra sviðslistamanna er nú loks að bera árangur með þessu frumvarpi um Þjóðaróperu, en einnig það mikla og góða starf sem Íslenska óperan hefur unnið í gegnum árin í þágu listgreinarinnar. Hér er stigið risastórt skref fyrir óperulist í landinu en Íslendingar eiga fjölda frábærra söngvara sem fá nú verðskuldað tækifæri til samfellu í starfi og aukin tækifæri til að sinna list sinni og þróa þetta mikilvæga sviðslistaform hér á landi“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og bætir við: „Með þessu frumvarpi er stigið fyrsta skrefið í átt að aukinni samlegð sviðslista á Íslandi á 21. öld með jafnræði Þjóðleikhúss, Þjóðaróperu og Íslenska dansflokksins, auk samstarfssamnings við Sinfóníuhljómsveit Íslands.“

Þjóðaróperan mun hefja starfsemi sína í áföngum og verður byggð upp í markvissum skrefum frá ársbyrjun 2025. Í gildandi fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir viðbótum í málaflokkinn, en við undirbúning fjármálaáætlunar 2025-2029 verður óskað eftir að varanlegt fjármagn til óperustarfsemi aukist um 600 m.kr. í áföngum og verði samtals 800 m.kr. árlega frá og með árinu 2028.

„Ný Þjóðarópera mun njóta góðs af sambýli við Þjóðleikhúsið sem býr yfir sterkum innviðum, einstakri sérþekkingu og nánu og traustu sambandi við þjóðina. Þessir dýrmætu innviðir þessarar kjölfestusviðslistastofnunar þjóðarinnar verða efldir enn frekar til frekari sóknar með sambýli og samþættingu Þjóðleikhúss og Þjóðaróperu,“ segir ráðherra.

Lokaáfangi áralangrar vinnu

„Með þessu frumvarpi er markaður lokaáfangi áralangrar vinnu margra aðila sem byggir á samráði og samstarfi við þann stóra hóp er málið varðar“ segir Finnur Bjarnason, verkefnastjóri nefndar um stofnun Þjóðaróperu, en nefndina skipa Þórunn Gréta Sigurðardóttir tónskáld og Þóra Einarsdóttir söngkona, báðar skipaðar af BÍL, og Þórunn Sigurðardóttir leikstjóri, formaður nefndarinnar, sem er skipuð af ráðherra.

Lagt er til að óperustjóri verði skipaður af ráðherra til fimm ára í senn, heyri undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti en hafi þó sjálfstæði í stjórnun Þjóðaróperu og beri listræna ábyrgð á henni. Í þjóðleikhúsráði verður fjölgað um tvo fulltrúa sem hafa staðgóða þekkingu af vettvangi óperulista og ráðinu falið eftirlit með Þjóðaróperu á sama hátt og það hefur eftirlit með Þjóðleikhúsi. Starf óperustjóra verður auglýst í vor verði frumvarpið að lögum.

„Við í Þjóðleikhúsinu hlökkum til að taka þátt í þessu verkefni sem verður stórt framfaraskref fyrir óperulistina og sviðslistir á Íslandi,“ segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum