Dagur
Dagskrá 2015

Dagskrá 2015

Höfuðborgarsvæðið

 • 11:00 Reykjavík Vísindavefur HÍ stendur fyrir heimsókn í Melaskóla þar sem allir krakkar í 7. árgangi fá tækifæri til að spyrja jöklafræðinginn Helga Björnsson spjörunum úr um allt sem þeim dettur í hug um jökla, ís og loftslagsmál! Tilefnið er útgáfa bókar um jökla og loftslagsmál sem er sérstaklega ætluð börnum. Nánari upplýsingar. 
 • 12:00 Reykjavík Reykjavík-iðandi af lífi, sem er fræðsluátak á vegum Reykjavíkurborgar um lífríki Reykjavíkur mun standa fyrir fuglaskoðun í Grafarvogi. Hist verður við Grafarvogskirkju. Nánari upplýsingar. 
 • 12:00 Reykjavík Náttúruminjasafn Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag og bókaútgáfan Crymogea efna til kynningar á endurútgáfu Flóru Íslands - vatnslitamynd Eggerts Péturssonar af 63 tegundum íslenskra háplantna, en hún hefur verið ófáanleg um tíma. Eggert Pétursson er með þekktari myndlistarmönnum og hefur hann byggt myndræn efnistök sín á grasafræði. Kynningin fer fram í Lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu. Nánari upplýsingar.
 • 14:00 Reykjavík Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra á Veðurstofu Íslands við Bústaðarveg. Afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti.
 • 15:00 Garðabær Náttúrufræðistofnun Íslands býður gestum heim á starfsstöð sína í Urriðaholti í Garðabæ þar sem sérfræðingar munu segja frá sumarrannsóknum sínum í máli og myndum. Nánari upplýsingar.
 • 17:00 Seltjarnarnes Fuglavernd býður til fuglaskoðunar við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi undir leiðsögn Elmu Rúnar Benediktsdóttur. Skoðaðar verða endur, gæsir og máfar og líklega einhverjir vaðfuglar. Gaman er að taka með sér fuglabók og sjónauka en að auki verður stór fuglasjónauki með í för. Mæting er við bílastæðið við Bakkatjörn. Nánari upplýsingar. 
 • 17:00 - 19:00 Kópavogur Síðsumarsganga umhverfis- og samgöngunefndar og Sögufélags Kópavogs. Gangan hefst við tjörnina í Kópavogslæk, neðan Fífuhvamms, og verður gengið austur Kópavogsdalinn undir leiðsögn staðkunnugra. Svæðið á mikla sögu og áhugaverða náttúru. Endað verður við Dalveg við nýjasta fróðleiksskiltið sem greinir frá stofnun Framfarafélas Kópavogs árið 1945. Þar verður boðið upp á grillpylsur og ferð til baka að upphafsreit fyrir þá sem það vilja.
 • 17:30 Mosfellsbær Börn náttúrunnar. Mosfellsbær og Umhverfisstofnun bjóða til fundar um heilsusamlegan og grænan lífsstíl í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Fundurinn stendur til kl. 19:00. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar. 
 • 21:00 Reykjavík Fögnuður vegna frumsýningar á Náttúrverndarlagi með Reykjavíkurdætrum og Ómari Ragnarssyni. Verkefnið var styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Aðstandendur verða á Kex hostel frá 20.30 og myndbandið verður sýnt kl 21. Nánari upplýsingar 

Reykjanes

 • 10:00 Grindavík Heilsuleikskólinn Krókur fær afhentan Grænfána. Farið verður í skrúðgöngu í Kyrrðardal sem er stutt frá leikskólanum og þar verður Grænfánahátíð haldin í samstarfi við Landvernd. 

Suðurland

 • Vatnajökulsþjóðgarður Landvörður í heimsókn. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru býður starfsfólk vestursvæðis þjóðgarðsins nemendum á miðstigi grunnskóla að fá landvörð í heimsókn í eina kennslustund. Um er að ræða skólana sem eru á svæðinu frá Gígjukvísl á Skeiðarársandi í austri að Þjórsá í vestri.

 • 06 - 12 Höfn í Hornafirði Fuglaathugunarstöð Suðausturlands verður með opið í Einarslundi 16. september þar sem fuglar verða merktir.  Öllum er velkomið að líta við. Nánari upplýsingar.

 • 15:00-18:00 Gunnarsholt á Rangárvöllum. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru verður Sagnagarður, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslu ríkisins opinn. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Nánar um Sagnagarð.
 • 20:00 Höfn í Hornafirði Náttúrustofa Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarður bjóða til tveggja fræðsluerinda um Holuhraun en rúmt ár er síðan þar hófst eldgos. Fyrirlestrarnir verða í Gömlubúð á Höfn. Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands fjallar um áhrif landslags og veðurs á gasútbreiðslu úr Holuhrauni og Helga Árnadóttir sérfræðingur hjá Vatnajökulsþjóðgarði verður með erindi undir yfirskriftinni "Eldgos í þjóðgarði –landvarsla á umbrotatímum og í nýju landi". Allir velkomnir. Nánari upplýsingar

Austurland 

 • Náttúrustofa Austurlands efnir til ljós- og/eða hreyfimyndasamkeppni á Degi íslenskrar náttúru. Myndirnar þarf að taka á tímabilinu 14. - 16. september og merkja myllumerkjunum #dinna15 og #nattaust á Facebook eða Instagram eða senda á na@na.is. Nánari upplýsingar.
 • 10 - 16  Skriðuklaustur Vatnajökulsþjóðgarður býður upp á ratleik í Snæfellsstofu. Ratleikurinn gengur út á að klára Sudoku þraut með því að svara spurningum um náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs. Ratleikurinn verður í gangi á opnunartíma, 10-16, og geta allir, ungir sem aldnir, mætt og fengið lausnarblað. Nánari upplýsingar.

Norðurland eystra

 • 13:00 Jökulsárgljúfur Vatnajökulsþjóðgarður býður upp á haustlitaferð um Hafragilsundirlendi. Hist verður við Gljúfrastofu í Ásbyrgi kl. 13:00, sameinast um bíla og ekið að Hafragili. Þaðan er genginn hringur um Hafragilsundirlendi en gangan tekur um 3 - 4 klukkustundir. Útbúnaður: Góðir skór, nesti, eitthvað að drekka og hlífðarfatnaður eftir því sem við á. Umsjón með göngunni hefur Ari Másson landvörður. Nánari upplýsingar.
 • 16:00 Ódáðahraun Vatnajökulsþjóðgarður býður upp á göngu um nýjasta svæði landsins; nýja Holuhraun. Gengið verður inn í hraunið og með jaðri þess um hringleið sem lögð var í upphafi sumars. Landvörður skýrir myndun hraunsins, sérstöðu þess og breytingar á umhverfinu í kring í kjölfar goss. Af gönguleiðinni má í góðu veðri sjá fjórar virkar megineldstöðvar; Bárðarbungu, Öskju, Snæfell og Kverkfjöll. Gangan hefst á bílastæði fyrir miðjum norðurjaðri hraunsins og tekur um klukkustund. Nánari upplýsingar fást í síma 842-4357. Nánari upplýsingar.
 • 18:00 Akureyri Akureyrarbær býður til göngu- og fræðsluferðar um óshólma Eyjafjarðarár. Ólafur Kjartansson fræðir fólk um svæðið.
Fimmtudagurinn 17. september. 
 • 17:00: Akureyri Akureyrarbær býður til göngu- og fræðsluferðar um fólkvanginn í Krossanesborgum. Jón Ingi Cæsarsson fræðir fólk um svæðið.

Norðurland vestra

 • 18:00 Skagaströnd Dagur Höfðans. Efnt er til gönguferðar um Spákonufellshöfða og eru íbúar og aðrir hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um þessa náttúrperlu. Nánari upplýsingar

Vesturland

 • 17:00 Akranes Akraneskaupstaður og Landmælingar Íslands bjóða til fræðslu- og örnefnagöngu. Gengið verður frá aðalinngangi Íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum meðfram Langasandi, út á Sólmundarhöfða og þaðan að Garðalundi, undir leiðsögn Guðna Hannessonar og Rannveigar L. Benediktsdóttur starfsmanna Landmælinga Íslands. Þau munu fræða gesti um örnefni á þessum slóðum. Nánari upplýsingar.
 • 17:45 Akranes Gengið verður um Garðalund undir leiðsögn Jóns Guðmundssonar garðyrkjufræðings og Sindra Birgissonar skipulagsfræðings. Nánari upplýsingar.