Um ráðuneytið

Alþjóðlegt samstarf

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekur virkan þátt í margvíslegu erlendu og alþjóðlegu samstarfi, enda eru mörg umhverfismál þess eðlis að þau varða fleiri en eitt ríki eða eru hnattræn í eðli sínu. Hér á eftir verður gert stuttlega grein fyrir nokkrum helstu þáttunum í alþjóðastarfi ráðuneytisins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, norræns samstarfs,, Norðurskautsráðsins og varðandi aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er að finna sérstaka umfjöllun um alþjóðlegt samstarf varðandi verndun hafsins, sem Ísland hefur lagt mikla áherslu á í alþjóðlegu samstarfi. Lista yfir alþjóðlega samninga á könnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er að finna á sérstakri síðu, ásamt tengingum við skrifstofur þeirra, en lista yfir alla alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að, auk texta þeirra, er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Sameinuðu þjóðirnar - umhverfismál og sjálfbær þróun
Stokkhólms-ráðstefnan um vernd umhverfis mannsins árið 1972 markaði tímamót í umhverfismálum. Hún var fyrsta stóra alþjóðaráðstefnan um umhverfismál og hún leiddi til stofnunar Umhverfisstofnunar S.þ. (UN Environment Programme, UNEP) sem hefur verið leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavettvangi allar götur síðan.

Önnur tímamót í umhverfismálum urðu árið 1992, þegar Heimsráðstefna S.þ. um umhverfi og þróun var haldin í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Á ráðstefnuna mættu um 100 þjóðarleiðtogar og höfðu aldrei fyrr í sögunni mætt jafn margir leiðtogar á einn fund, sem segir sitt um hve mjög áhersla á umhverfismál hefur aukist á síðastliðnum áratugum. Á ráðstefnunni var samþykkt Ríó-yfirlýsingin, sem hefur að geyma grundvallarreglur í umhverfismálum og viðamikil framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21 (Agenda 21). Hugtakið "sjálfbær þróun" var sett í öndvegi í samþykktum Ríó-ráðstefnunnar, en í því felst að efnahagsleg og félagsleg velferð mannsins er byggð á vernd umhverfisins og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Í kjölfar Ríó-ráðstefnunnar var sett á fót Nefnd S.þ. um sjálfbæra þróun (CSD), sem kemur saman árlega og fjallar um framkvæmd Dagskrár 21. Í Ríó var að auki skrifað undir tvo grundvallarsamninga um umhverfismál á ráðstefnunni, Rammasamning um loftslagsbreytingar og Samning um líffræðilega fjölbreytni.

Evrópska efnahagssvæðið og umhverfismál
Samningurinn um evrópskt efnahagssvæði leggur þjóðréttarlegar skyldur á herðar Íslendingum í sambandi við umhverfismál, m.a. á sviði mengunarvarna og eiturefna (en ekki á sviði náttúruverndarmála). Umhverfisstofnun sér að mestu um framkvæmd ákvæða samningsins hér á landi, hvað umhverfismál varðar. Yfirlit yfir gerðir ESB á sviði umhverfismála sem teknar hafa verið inn í EES-saminginn er að finna á EES-vefsetri utanríkisráðuneytisins

Norrænt samstarf í umhverfismálum
Helsti vettvangur norræns samstarf er Norðurlandaráð og Norræna Ráðherranefndin. Norðurlandaráð var stofnað 1952 sem samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Norðurlandaráð tekur frumkvæði, veitir ráðgjöf og hefur með höndum eftirlit með norrænu samstarfi. Norræna Ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 sem samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Ráðherranefndin leggur fram tillögur á þingum Norðurlandaráðs, vinnur úr samþykktum ráðsins, gerir Norðurlandaráði grein fyrir niðurstöðum samstarfsins og stjórnar starfinu á hinum ólíku sviðum.

Samstarf norrænu umhverfisráðherranna byggir á sérstakri framkvæmdaáætlun í umhverfismálum. Ný framkvæmdaáætlun öðlaðist gildi í upphafi árs 2013 og mun hún gilda til ársins 2018. Framkvæmd áætlunarinnar er í höndum fastra vinnuhópa sem heyra undir Ráðherranefndina og ýmissa nefnda sem falin eru sérstök verkefni.

Þá er í gildi norræn stefna um sjálfbæra þróun, Gott líf á Sjálfbærum Norðurlöndum

Norðurskautsráðið
Árið 1991 hófst samstarf þeirra átta ríkja sem liggja að Norðurskautssvæðinu á sviði umhverfismála, sk. Rovaniemi-ferli. Á grundvelli þess var Norðurskautsráðið síðan stofnað árið 1996, en megináherslur samstarfsins þar eru á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Innan Norðurskautsráðsins eru fimm vinnuhópar, en þar af eru tveir með skrifstofu á Íslandi, nánar tiltekið á Akureyri: CAFF og PAME. Ísland fer um þessar mundir með formennsku í vöktunarhópi Norðurskautsráðsins, AMAP.

Verndun hafsins
Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á verndun hafsins í alþjóðlegu starfi á sviði umhverfismála, enda er það mikið hagsmunamál fyrir Ísland að koma í veg fyrir mengun hafsins og skapa skilyrði fyrir sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda þess. Fulltrúar Íslands lögðu sérstaka áherslu á þessi mál á Ríó-ráðstefnunni. Mikið hefur áunnist í baráttunni gegn mengun hafsins á síðastliðnum árum. Nefna má samþykkt alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um vernd hafsins gegn mengun frá landi (Washington-áætlunarinnar), sem samþykkt var árið 1996, en Ísland átti mikinn þátt í undirbúningi hennar. Nýlega samþykkti ríkisstjórnin áætlun gegn mengun hafs frá Íslandi, sem er byggð á Washington-áætluninni. Annar mikilvægur áfangi í baráttunni gegn mengun hafsins var undirritun Stokkhólms-samningsins árið 2001 um bann eða takmörkun á losun tólf hættulegra efna, sem safnast fyrir í lífríki hafsins. Aðrir samningar sem skipta miklu máli í baráttu gegn mengun hafsins eru m.a. Samningurinn um vernd NA-Atlantshafsins (OSPAR-samningurinn) og samningar á vegum Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) um bann við mengun frá skipum og borpöllum.

Annað samstarf
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekur þátt í ýmsu öðru erlendu samstarfi. M.a. má nefna starf Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar, sem miðar ekki síst að því að skoða og efla hagræn stjórntæki á sviði umhverfismála. OECD hefur gert tvær ítarlegar úttektir á umhverfismálum á Íslandi.