Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundað með aðstoðarutanríkisráðherra Japan

Frá fundi ráðherranna í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er og starfandi utanríkisráðherra, átti í dag fund með Takao Makino, aðstoðarutanríkisráðherra Japan. Ræddu ráðherrarnir náin tengsl ríkjanna og með hvaða hætti mætti efla þau enn frekar. 

Í því sambandi voru rædd viðskipti ríkjanna og ósk Íslands um að gera samninga við Japan um viðskiptamálefni. Á dagskrá fundarins voru einnig loftslagsmál, samstarf í jarðhitamálum auk þess sem ráðherrarnir ræddu sjávarútvegsmál.

Makino lýsti sérstökum áhuga á auknu samstarfi landanna í jarðhitamálum, en jarðhiti er einn þeirra kosta í orkumálum sem Japan horfir í auknum mæli til. Voru ráðherrarnir sammála um að þau samskipti sem átt hefðu sér stað undanfarna mánuði á þessu sviði lofuðu góðu um vaxandi samstarf ríkjanna á þessu sviði. 

Einnig hitti Makino starfandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Jón  Egil Egilsson, en þeir ræddu m.a. tvíhliða samskipti ríkjanna einkum á sviði viðskiptamála, þar á meðal möguleika á samningum á sviði fríverslunar, tvísköttunar og loftferða. Auk þess var fjallað um samstarf ríkjanna á norðurslóðum og á alþjóðavettvangi almennt. Stuttlega var rætt um undirbúning heimsóknar Gunnars Braga Sveinssonar til Japans sem áætluð er síðar á árinu. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum