Hoppa yfir valmynd

31 Húsnæðis- og skipulagsmál

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð innviðaráðherra og fjármála- og efna­hags­ráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er jafnvægi á húsnæðismarkaði þar sem framboð mætir þörf og uppbygging tekur mið af umhverfisvænum og hagkvæmum lausnum og byggingarefnum. Hugað er að velsæld samfélags og gæðum í hinu byggða umhverfi og landnýting og skipulag byggða landsins hvetji til sjálfbærni í daglegu lífi og tryggi aðgengi að grunnþjónustu og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

Fjármögnun

Heildarframlög til málefnasviðsins á tímabili áætlunarinnar nema 119,3 ma.kr. Framlög aukast um 2 ma.kr. á milli áranna 2024–2025 sem skýrast fyrst og fremst af aukningu í framlögum til húsnæðisbóta en í tengslum við aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum á almennum markaði aukast framlög til húsnæðisbóta um 2,5 ma.kr. eða samtals 12,5 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Framlög til sértæks húsnæðisstuðnings vegna náttúruhamfara í Grindavík að fjárhæð 450 m.kr. falla niður.

Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunar er tímabundin aukning á stofnframlögum sem hækka úr 7,3 ma.kr. á árinu 2025 í 7,5 ma.kr. á árinu 2026 og 9,5 ma.kr. á árinu 2027. Að því loknu falla tímabundnar hækkanir niður og gert er ráð fyrir að stofnframlögin nemi 3,6 ma.kr. árin 2028 og 2029 með fyrirvara um endurskoðun verði þörfin þá metin hærri. Þá er einnig gert ráð fyrir að vaxtabótakerfið verði endurskoðað ásamt því að skipaður verði starfshópur sem leggur mat á fyrirkomulag húsnæðisstuðnings hér á landi í samanburði við Norðurlöndin og geri tillögur að framtíðarfyrirkomulagi.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

 

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Jafnvægi á húsnæðismarkaði

31.1 Húsnæðismál

Verkefni

Verkefni málaflokksins er að stuðla að auknu aðgengi almennings að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir þau sem þurfa á því að halda, hvort sem er til eignar eða leigu, auk þess að meta framtíðarþörf og áætla framboð húsnæðis og stuðla þannig að auknum stöðug­leika á húsnæðismarkaði. Undir málaflokkinn heyra Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), húsnæðisbætur, stofnframlög til almennra íbúða, félagslegar lánveitingar, s.s. hlutdeildarlán til kaupa á fyrstu íbúð, svo og vaxtabætur, skattfrjáls ráðstöfun séreignar­sparnaðar og annar stuðningur til kaupa fyrstu íbúðar.

Öryggi í húsnæðismálum er ein af sex velsældaráherslum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að séu í forgrunni við gerð fjármálaáætlunar en viðunandi húsnæði er ein af grunnþörfum einstaklingsins og er kostnaður við húsnæði oftast stærsti útgjaldaliður heimila.

Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu1 fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun var lögð fram á Alþingi í nóvember 2023. Stefnan er samhæfð öðrum áætlunum innviðaráðuneytisins á sviði skipulagsmála, samgöngumála, sveitarfélaga og byggðamála.

Sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings langtímakjarasamningum á vinnumarkaði verður stuðlað að auknu framboði íbúðarhúsnæðis og fjölgun hagkvæmra íbúða í almenna íbúðakerfinu, skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og skipulagsmála og aukinni aðkomu lífeyrissjóðanna að fjárfestingu í húsnæði. Húsnæðisstuðningur verður aukinn með hækkun húsnæðisbóta til leigjenda. Þá verða gerðar breytingar á húsaleigulögum sem tryggja skýrari ramma og fyrirsjáanleika um ákvörðun og breytingar leigufjárhæðar. Hluti af aðgerðum stjórnvalda til stuðnings langtímakjarasamningum felast í því að sveitarfélög munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf.

Helstu áskoranir

Nánast fordæmalaus hækkun húsnæðisverðs undanfarin ár, hækkun stýrivaxta og aukin áhrif húsnæðisliðar á verðbólgu hafa skapað áhættu og óstöðugleika í húsnæðismálum, einkum þeirra tekju- og eignaminni og þeirra sem búa á svæðum þar sem ríkir markaðsbrestur.2 Áskorunin liggur í því að húsnæðismarkaðurinn taki við sér þannig að framboð nýrra íbúða sé aukið og verði í takt við þörf. Skortur er á nægjanlegu framboði byggingarhæfra lóða í skipulagi sveitarfélaga en mikilvægt er að áfram verði lögð áhersla á langtímaáætlanagerð gegnum húsnæðisáætlanir sveitarfélaga sem HMS heldur utan um þar sem árlega er greind íbúðaþörf og framboð nýrra íbúða. Því er mikið til þess unnið að stjórnsýsla húsnæðis- og skipulagsmála verði einfölduð og samræmd til að stuðla að hraðari undirbúningi og uppbyggingu íbúða.

Samhliða hækkun fasteignaverðs og óhagstæðum lánakjörum hefur framboð nýrra íbúða dregist mikið saman að undanförnu. Húsnæðisvandi er einnig víða á landsbyggðinni þar sem framboð nýrra íbúða mætir ekki þörf íbúa og atvinnulífs.3

Þá þarf að auka húsnæðisöryggi tekju- og eignalægri einstaklinga og fjölskyldna, m.a. með því að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu. Auka þarf framboð sveigjanlegs húsnæðis sem krefst minni skuldbindingar og minna eigin fjármagns en íbúðarkaup.

Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum 2023 var að byggja þurfi um 40.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta fólksfjölgun. Það er mat HMS að óuppfyllt íbúðaþörf muni aukast um 2.000 íbúðir árið 2024, 4.000 íbúðir árið 2025 og um 6.500 íbúðir 2026 ef ekki tekst að koma af staða aukinni uppbyggingu íbúða. Lög um húsnæðiskaup í Grindavík4 munu auka enn frekar eftirspurn eftir húsnæði í samræmi við fasteignakaup íbúa.

Tækifæri til umbóta

Tækifæri til umbóta eru sett fram í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu.

Öflug uppbygging. Á tímabilinu verður haldið áfram markvissri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með opinberum framboðsstuðningi gegnum stofnframlög og hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað tekjulægri heimila. 

Tryggð verða stofnframlög ríkisins til að auka framboð á hagkvæmum íbúðum í almenna íbúðakerfinu. Sem fyrr segir þá snúa aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings langtímakjarasamningum á vinnumarkaði um að  styðja við byggingu allt að 1.000 íbúða á ári á samningstímabilinu í formi stofnframlaga og hlutdeildarlána til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins. Einkum er horft til eftirfarandi húsnæðisstuðnings:

  1. Stofnframlög. Stjórnvöld hafa stutt við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög til þess að auka framboð á langtímaleiguíbúðum fyrir tekjulægri heimili og mæta fyrirsjáanlegri íbúða­þörf. Með stofnframlögum skapast grundvöllur fyrir öruggt húsnæði og leiguverð sem sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda og sé að jafnaði ekki hærri en 25% af tekjum. Áætlað er að stofnframlög verði samanlagt rúmlega 31,6 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar.
  2. Lánveitingar Húsnæðissjóðs. Í tengslum við stefnumótun í húsnæðismálum verður haldið áfram að greina þörf fyrir lánveitingar. Árið 2023 voru veitt 232 hlutdeildarlán sem er mesti fjöldi lánveitinga frá því að reglur um hlutdeildarlán tóku gildi. Fyrirkomulag hlutdeildar­lána verður endurskoðað svo þau nái betur markmiðum sínum.
  3. Til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda verður húsnæðisbótakerfið styrkt. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingamörk í húsnæðisbótakerfinu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar og munu framlög til húsnæðisbóta aukast um 2,5 ma.kr. á ársgrundvelli vegna þessa.

Húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum. Mikilvægt er að landsmenn búi við hús­næðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum hús­næðiskostnaði. Lagt hefur verið til grundvallar að húsnæðisöryggi feli að meginstefnu í sér tryggt, heilnæmt og varanlegt húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á viðráðanlegu verði þannig að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu.

Með rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga til næstu átta ára er sett fram sameiginleg sýn um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins, bæta húsnæðis­öryggi leigjenda og stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Markmið ramma­samnings er að auka framboð húsnæðis og einnig að hækka hlutfall almenna íbúðakerfisins svo að næstu átta árin verði 30% nýrra íbúða hagkvæmt húsnæði5 og 5% til viðbótar félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga. Á tímabilinu 2024–2027 er gert ráð fyrir uppbyggingu a.m.k. 1.000 nýrra íbúða með stuðningi ríkisins. Til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verður húsnæðisbótakerfið styrkt og umgjörð um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga bætt. Almenna íbúðakerfið er þar lykil­þáttur og því mikilvægt að áhersla verði lögð á áframhaldandi uppbyggingu og aukna hlutdeild þess á leigumarkaði á komandi árum. Unnið hefur verið að endurskoðun regluverks á leigu­markaði með það í huga að jafna stöðu samningsaðila og gera leiguhúsnæði að raunverulegum og öruggum valkosti um búsetu. Meðal annars hefur verið unnið frumvarp sem hefur það að markmiði að tryggja að lykilupplýsingar um húsnæðisöryggi og húsnæðisstuðning þurfa að liggja fyrir sem næst rauntíma þannig að hægt sé að bregðast við tímanlega þegar þess er þörf. Áfram verður stutt við tekjulága einstaklinga í gegnum húsnæðisbætur. Frítekjumörk hús­næðisbóta hækkuðu um 8,2% um áramót 2024 frá fyrri áramótum. Sé litið til þróunar leigu­verðs samkvæmt vísitölu leiguverðs hefur leiguverð farið hækkandi undanfarna mánuði. Tólf mánaða hækkun leiguverðs í desember 2023 nemur 8,2%.

Skilvirk stjórnsýsla og bætt starfsumhverfi mannvirkjagerðar. Endurbætur á regluverki í skipulags- og byggingarmálum eru meðal áherslna ríkisstjórnarinnar ásamt aukinni skilvirkni í stjórnsýsluferlum. Unnið er að því að einfalda ferla í skipulagsgerð og byggingarmálum þannig að til verði einn heildstæður samþættur og skilvirkur ferill með stafræna þróun að leiðarljósi. Markmið með endurskoðun byggingarreglugerðar sem stendur yfir er að spara dýr­mætan tíma í undirbúningi byggingar með stafrænni þróun, auka rekjanleika, skilvirkni og gæði gagna ásamt því að hverfa frá forskriftarákvæðum í byggingarreglugerð og innleiða þess í stað markmiðsákvæði með áherslu á gæði og aukna réttarvernd vegna byggingargalla. Enn fremur er gert ráð fyrir að uppfæra viðmið evrópskra þolhönnunarstaðla byggingariðnaðarins fyrir íslenskar aðstæður í svokölluðum þjóðarviðaukum en vísað er til þeirra í kröfum byggingarreglugerðar.

Markmið um kolefnishlutleysi. Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um kolefnis­hlutleysi og er það ein af þeim sex velsældaráherslum sem stjórnvöld hafa í forgrunni við gerð fjármálaáætlunar. Það er áskorun að draga úr loftslagsáhrifum byggingariðnaðarins en á Íslandi er talið að um 58% af kolefnislosun byggingariðnaðar séu vegna byggingarefna, framkvæmda og flutnings, um 30% vegna orkunotkunar í rekstri og um 12% vegna viðhalds. Endurskoðun byggingarreglugerðar stendur yfir og beinist vinnan að tillögum OECD til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, þ.m.t. að auka sjálfbærni, stafræna stjórnsýslu og gæði. Innviða­ráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að breytingu á byggingarreglugerð sem felur í sér innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja en með lífsferilsgreiningu mannvirkja er hægt að leggja mat á og takmarka umhverfisáhrif þeirra frá upphafi til enda. Þá verði unnið að innleiðingu grænna hvata vegna íbúða sem byggðar eru með stuðningi hins opinbera, s.s. með stofnframlögum eða hlutdeildarlánum með það fyrir augum að auka hagkvæmni á líftíma og draga úr umhverfisáhrifum. Þá verði unnið að útgáfu losunarviðmiða fyrir íslenskar byggingar.

Gæðamarkmið. Tryggja þarf að uppbygging stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni íbúðauppbyggingar í jafnvægi við umhverfið. Það felur í sér að íbúðir búi yfir grunngæðum mannvirkja, sem eru til að mynda öryggi, dagsbirta, hreint loft, góð hljóðvist, aðgengi, gott skipulag/skilvirkni og að húsnæði uppfylli rýmisþörf daglegra athafna.

Rannsóknir og þróun eru mikilvægur þáttur til að tryggja nýsköpun innan mannvirkja­geirans og aðlögun að íslenskum aðstæðum. Til að mynda er ein af okkar stærstu samfélagslegu áskorunum í dag gallar og rakaskemmdir í byggingum. Miklir fjárhagslegir og heilsufarslegir hagsmunir eru fólgnir í að styrkja rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar. Askur – mann­virkja­sjóður var stofnaður til þess að styrkja rannsóknir á þessu sviði og hafa innviðaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitt fjármuni í sjóðinn frá 2021. Alls voru veittar um 100 m.kr. úr sjóðnum á ári 2021–2023.

Virkur vinnumarkaður. Forsenda fyrir búsetu og virkum vinnumarkaði um land allt er fjölbreytt framboð íbúða. Áhersla verður lögð á íbúðauppbyggingu á landsbyggðinni (Tryggð byggð) í samræmi við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Með því er stutt við getu einstaklinga til að fara á milli staða í leit að atvinnutækifærum og vinnusóknarsvæðin efld.

Samræmi grunnskráa. Unnið er að því að bæta grunnskrár á sviði húsnæðis- og skipulags­mála, samræmingu stafrænnar þjónustu og tengingu við Ísland.is, m.a. til að auka yfirsýn og styrkja stýritæki stjórnvalda varðandi eignarráð yfir landi og öðrum fasteignum.

Brunamál. Ráðist verður í stefnumótun og uppbyggingu á sviði brunamála í því skyni að efla samræmingu og samhæfingu slökkviliða svo unnt sé að auka afkastagetu brunavarna um land allt. Starfsemi Brunamálaskólans verður efld í takt við niðurstöður starfshóps um málefni skólans og nýja reglugerð um Brunamálaskólann.

Kynja- og jafnréttissjónarmið. Eitt af meginmarkmiðum málefnasviðsins er að tryggja öruggt húsnæði fyrir öll. Þau sem verða fyrir áhrifum af markmiðum innan málaflokksins eru einkum efnaminna fólk. Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands frá 2019 var lítill munur á hlutfalli kvenna og karla sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað á tímabilinu 2004−2018. Af ólíkum heimilisgerðum var algengast að heimili einstæðra foreldra með börn skorti efnisleg lífsgæði (25,2%) en næst á eftir komu heimili einhleypra og barnlausra einstaklinga (11%). 

Heilt á litið má segja að bæði viðtakendur húsnæðisbóta og hlutdeildarlána séu að meiri hluta til barnlaus heimili. Hlutfall kvenna og karla í þeim hópi er nokkuð jafnt í báðum húsnæðisstuðningskerfum en þegar litið er til einstæðra foreldra eru konur í miklum meiri hluta. Einstæðar mæður eru enn fremur líklegri til að vera á leigumarkaði en í eigin húsnæði. Ljóst er af ofangreindri umfjöllun að húsnæðisbætur og hlutdeildarlán nýtast ekki síst þessum hópum. Ráðist verður í sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldra fólk innan almenna íbúðakerfisins. Þá verður húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda bætt. Loks verður horft til áframhaldandi uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu og framhalds hlutdeildarlána.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Jafnvægi á húsnæðismarkaði.

 

Uppbygging í samræmi við metna íbúðaþörf á landsvísu.6

20.000 íbúðir

18.000 íbúðir

15.000 íbúðir

1, 10, 11

Fjölgun íbúða í samræmi við áætlaða uppbyggingu samkvæmt húsnæðis­áætlunum, á landsvísu og greint niður á landshluta.

4.135 íbúðir

4.390 íbúðir

3.945 íbúðir

Markmið um skilvirkari stjórnsýslu og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið.

 

Kolefnislosun vegna mannvirkja.

360.000 tonn CO2-íg./ári

310.000 tonn CO2-íg./ári (10% sam­dráttur)

235.000 tonn CO2-íg./ári (35% sam­dráttur)

9, 11

Orkunýting mannvirkja.

Liggur ekki fyrir.7

 

 

 

Hlutfall byggingarleyfa með skráðar áfangaúttektir og stöðuskoðanir í mannvirkja­skrá.

41%

80%

95%

Markmið um húsnæðis­öryggi og jafnrétti lands­manna í húsnæðismálum.

1,5

Hlutfall íbúða sem keyptar eru með hlutdeildarláni af íbúðarstofninum.

0,4%

0,9%

1,7%

 

Hlutfall almennra íbúða af íbúðarstofninum.

1,6%

2,2%

3,2%

 

 

 

 

 

31.2 Skipulagsmál

Verkefni

Undir málaflokkinn heyra Skipulagsstofnun og Skipulagssjóður. Skipulagsstofnun hefur umsjón með stjórnsýslu skipulagsmála og mati á umhverfisáhrifum.

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu8 fyrir árin 2024–2038 og fimm ára aðgerðaáætlun var lögð fram á Alþingi í nóvember 2023. Stefnan er samhæfð öðrum áætlunum innviðaráðuneytisins á sviði húsnæðismála, samgöngumála, sveitarfélaga og byggðamála.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir í skipulagsmálum snúa m.a. að loftslagsbreytingum en ákvarðanir og stefnur um landnotkun sem settar eru fram í skipulagi hafa áhrif á loftslagsáhrif samfélaga, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Brýnt er að ná jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þörf og samstilla stefnu og aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til að tryggja nægt framboð. Land er takmörkuð auðlind og landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar matvæla og fóðurs er verð­mætt. Mikil samkeppni ríkir um land í dreifbýli vegna aukinnar eftirspurnar eftir landi til skóg­ræktar, undir frístundabyggð, ferðaþjónustu, íbúðauppbyggingu og nýtingu vindorku.

Innviðir eru forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi. Hins vegar eru töluverðar áskoranir fólgnar í að skapa farveg fyrir skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar þjóðhagslegra mikilvægra innviða sem þjóna hagsmunum landsins alls.

Með vaxandi ferðaþjónustu er aukin ásókn á miðhálendið með vaxandi álagi. Aukið álag getur m.a. falið í sér þörf fyrir uppbyggingu innviða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu en samhliða slíkri uppbyggingu þarf að tryggja að hefðbundin not rýrni ekki, vernd óbyggðra víðerna, mikilvægra landslagsheilda og náttúru miðhálendisins.

Vönduð samþætting samgöngukerfa og byggðar er undirstaða gæða hins byggða umhverfis. Samhliða markvissum orkuskiptum er jafnframt nauðsynlegt að auka hlutdeild vistvænna ferðamáta til að ná markmiði stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Aukin ásókn er í nýtingu haf- og strandsvæða, m.a. fyrir matvælaframleiðslu og orku­vinnslu. Skilgreina þarf siglingaleiðir á strandsvæðum og skerpa sýn á rýmisþörf flutningskerfa og aðra staðbundna nýtingu sem hefur takmarkandi áhrif á veiðar og siglingar. Á hafsvæðum utan strandsvæða er þörf á skýrari stefnumörkun fyrir ákvarðanir um staðbundna nýtingu og náttúruvernd.

Skipulag vindorkunýtingar er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hér á landi en vaxandi áhugi er á nýtingu hennar. Í stjórnarsáttmála er sett fram áhersla um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Huga þarf að viðmiðum um staðsetningu vindorkuvera, fjölda þeirra og stærð og enn fremur að skýrari reglum og viðmiðum um áhrif á umhverfi og náttúru.

Kynja- og jafnréttissjónarmið. Kynja- og jafnréttissjónarmið eiga við um skipulag eins og aðra þætti í samfélaginu. Skipulagsmál sveitarfélaga tengjast byggðamálum, almannaöryggi, samgöngumálum, landbúnaði, ferðaþjónustu, orkumálum og umhverfismálum beint og óbeint. Frá aldamótum til ársins 2017 voru kynjahlutföll landsmanna nokkuð jöfn. Síðan þá hefur körlum fjölgað mikið og eru nú búsettir 10.000 fleiri karlar en konur á landinu öllu. Í minni sveitarfélögum búa færri konur en karlar og eru meginástæður þess oft og tíðum færri atvinnu­tækifæri og mismunun í aðgengi að menntun. Með markvissri stefnumótun sveitarfélaga í skipulagi má stuðla að fjölbreyttara framboði starfa fyrir öll kyn. Enn er meiri hluti þeirra er vinna að skipulagsmálum og mannvirkjagerð karlar, t.a.m. eru karlar tæplega 70% allra starf­andi skipulagsfulltrúa.9

Efling fjölbreyttra ferðamáta stuðlar að auknu jafnrétti en konur og börn ferðast að öllu jöfnu styttri vegalengdir og gæta þarf þess við forgangsröðun samgönguverkefna. Einnig þarf að horfa til þess þegar svæði eru skipulögð að þau henti öllum aldurshópum og kynjum, hvort þau séu barnvæn, hvort þar sé hægt að stunda tómstundir og hvers konar atvinnustarfsemi rúmast þar. Til að breikka sýn okkar á skipulagsmál er nauðsynlegt að fá fjölbreyttari hóp að borðinu, t.d. með því að auka þátt kvenna í ákvarðanatöku er varðar skipulagsmál. Huga verður að bættu aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins til að komast leiðar sinnar, jafnt er varðar byggingu mannvirkja, samgöngumála og fleiri þátta.

Tækifæri til umbóta

Mörg tækifæri eru til umbóta og er hér gerð grein fyrir þeim undir hverju af markmiðum landsskipulagsstefnu.

Aukið framboð húsnæðis. Frumvarp um breytingu á skipulagslögum er í þinglegri meðferð þar sem lagt er til að sveitarstjórnir geti endurskoðað deiliskipulag ef framkvæmdir hafa ekki hafist innan fimm ára frá birtingu samþykkts deiliskipulags. Enn fremur hafa verið samþykktar breytingar á skipulagslögum um að sveitarstjórnum sé heimilt að skilgreina hluta uppbygg­ingarinnar fyrir hagkvæmar íbúðir.

Vernd umhverfis og náttúru. Mikilvægt er að samstilla upplýsingagjöf og viðbrögð vegna loftslagsbreytinga sem þegar eru farnar að ógna lífríki á landinu öllu og hafsvæðum þess. Því er mikilvægt að skipulagsgerð styðji við markmið um kolefnishlutleysi og verða gerðar leiðbeiningar þess efnis sem miða að því að bæta upplýsingagjöf um áhrif skipulagsákvarðana til losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda þannig að markvisst sé unnið að því að uppfylla metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og mætt sé sívaxandi þörf á bindingu kol­efnis. Er það í samræmi við velsældaráherslu um kolefnishlutlausa framtíð og lögbundið mark­mið stjórnvalda um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.

Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta er einnig liður í því að samstilla áætlanir ólíkra stjórnvalda þannig að nauðsynleg orkuskipti geti gengið hratt fyrir sig. Kortlagning víðerna, flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu eru mikilvægar aðgerðir í því samhengi að hægt sé að meta áhrif skipulagsákvarðana á víðerni og landslag.

Velsæld samfélags. Til að aðstoða sveitarfélög við að aðlagast loftslagsbreytingum eins markvisst og hægt er verða mótaðir verkferlar og leiðbeiningar fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Markmiðið snýr að því að skipulag stuðli að velsæld samfélags og gæðum í hinu byggða umhverfi. Tryggja þarf framboð á fjölbreyttum íbúðum sem stuðlar að sjálfbærni og félagslegri samheldni með tilliti til efnahags. Auka þarf skilvirkni í bygginga- og skipulagsferlum og samhæfa og einfalda undirbúning framkvæmda og samþætta skipulags- og byggingarhluta uppbyggingar.

Samkeppnishæft atvinnulíf. Til þess að mæta aukinni þörf á orkuöflun með fleiri grænum kostum verða unnar leiðbeiningar um skipulagsgerð og vindorkunýtingu þar sem fjallað verði um staðarval og umhverfismat ásamt öðrum þáttum sem snúa að leyfisveitingum. Mikilvægt er að stjórnsýsla ákvarðanatöku um nýtingu hafsvæða verði skýr og skilvirk þar sem aukin ásókn er í nýtingu hafsvæða umhverfis Íslands, m.a. til orkuöflunar. Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða er liður í að efla atvinnulíf um land allt. Standa þarf vörð um gott ræktunarland til að tryggja fæðuöryggi og verður að kortleggja það á landsvísu. Þjónustu­stig svæða á hálendinu þarf að endurskilgreina til að mæta aukinni eftirspurn og passa að upp­bygging ferðaþjónustumannvirkja verði innan þolmarka hálendisins.  

Aðgengi upplýsinga. Skipulagsstofnun vinnur að því að tryggja að sveitarfélög, skipu­lags­ráðgjafar og hönnuðir hafi auðvelt aðgengi að bestu upplýsingum hverju sinni. Verkefni skipu­lagsmála hafa víðtæka skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og má þar telja m.a. markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 15 um líf á landi. Þá miða verkefni málaflokksins einnig að velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um öryggi í húsnæðismálum.

Skipulagssjóður. Mikil aukning á umsvifum eru fram undan hjá Skipulagssjóði en á árunum 2024–2025 er margföldunar að vænta á fjölda verkefna vegna aðal- og svæðisskipulags-verkefna hjá sveitarfélögum. Gerðar eru kröfur til virkrar og vandaðrar skipulagsgerðar sveitar­félaga og samkvæmt 18. gr. skipulagslaga ber Skipulagsstofnun f.h. Skipulagssjóðs að taka þátt í kostnaði sveitarfélaga við gerð aðal- og svæðisskipulags. Almennt miðar það við 50% kostnaðar sveitarfélaga af viðkomandi skipulagsverkefni en getur numið hærri hlutdeild í tilteknum tilvikum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Vernd umhverfis og náttúru.

7, 11, 13

Heildarlosun gróður­húsalofttegunda.

14.060 kt CO2e

14.015 kt CO2e

13.422 kt CO2e

6.6, 14

Hlutfall hafsvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa.

2% haf-svæða

5% haf-svæða

30% haf-svæða

6.6, 15

Hlutfall landsvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa.

Liggur ekki fyrir

Liggur ekki fyrir

30% lands-svæða

Velsæld samfélags.

3, 7, 11, 13

Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegsamgöngum.

860 kt CO2e

900 kt CO2e

759 kt CO2e

1, 2, 5, 10, 11

Hlutfall heimila með íþyngj­andi húsnæðiskostnað.

12,8%

12,8%

12,0%

1, 3, 5, 7, 10

Hlutfall vistvæns ferðamáta.

24%

25%

27%

Samkeppnishæft atvinnulíf.

7, 8, 15

Kolefnisbinding.

509 kt CO2e

550 kt CO2e

13.422 kt CO2e

8, 15

Hlutfall góðs ræktarlands.

Liggur ekki fyrir

Ný kort-lagning

= Grunnár

kortlagn­ingar

7, 8, 13

Hlutfall endurnýjanlegrar orku.

90%

92%

94%

 

1 https://www.althingi.is/altext/154/s/0579.html
2 Mat á íbúðaþörf. HMS og Intellecon (2023).
3 Þróun húsnæðismarkaðar á landsbyggðinni: Áskoranir og lausnir. Hagdeild HMS (2021).<
4 https://www.althingi.is/altext/154/s/1131.html
5 Íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir, íbúðir sem uppfylla skilyrði fyrir hlutdeildarlán og lán til leiguíbúða samkvæmt lögum um húsnæðismál.
6 Metin þörf til fimm ára skv. rammasamningi.
7 Niðurstöður liggi fyrir 2024 og hægt að orkuflokka mannvirki (nýbyggingar) 2025.
8 https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0621.pdf
9 Skipulagsstofnun (e.d.). Listi yfir skipulagsfulltrúa sveitarfélaga.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum