Hoppa yfir valmynd

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Forsætisráðuneytið
Matvælaráðuneytið
Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjögurra ráðherra. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber ábyrgð á vísindum, nýsköpun og hugverkaiðnaði, að frátöldum endurgreiðslum vegna kvikmynda­gerðar og hljóðritunar tónlistar, málefnum skapandi greina og faggildingar sem menningar- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á. Forsætisráðherra ber ábyrgð á starfsemi Vísinda- og nýsköpunarráðs og matvælaráðherra ber ábyrgð á málefnum Matvælasjóðs.

Málefnasviðið skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Hugvitið er ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar og fjórða stoð íslensks efnahagslífs. Lykillinn að bættum lífsgæðum og besta leiðin til að daga úr hagsveiflum er að efnahagslífið byggist fyrst og fremst á óþrjótandi auðlindum hugvits og þekkingar. Rannsóknir, þróun og nýsköpun eru hluti af menningu og efnahagslífi þjóðarinnar og Íslendingar kunna að nýta smæð sína sem styrkleika með virkri þátttöku í alþjóðlegu umhverfi vísinda og nýsköpunar. Samkeppnishæft vistkerfi rannsókna og nýsköpunar styður við öflugar stofnanir og fyrirtæki þar sem áhersla er lögð á gæði, alþjóðlegt samstarf og árangur, sem og skilvirkni og gagnsæi í opinberu stuðningskerfi. Þannig styður það beint við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og grósku í nýsköpun.

Fjármögnun

Fjárhagsrammi málefnasviðsins hækkar milli áranna 2024 og 2025, úr 32,9 ma.kr í 38,2 ma.kr. Framlög í Samstarfsáætlanir ESB aukast frá gildandi fjármálaáætlun um 956,7 m.kr. árið 2025 vegna meiri hagvaxtar á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Árið 2026 aukast útgjöld um 2.900 m.kr. frá gildandi fjármálaáætlun vegna aukins stuðnings við rannsókna- og þróunarkostnað nýsköpunarfyrirtækja í formi skattaendurgreiðslna. Í gildandi áætlun var gert ráð fyrir að tímabundnar breytingar sem gerðar voru í heimsfaraldri COVID-19 féllu niður. Fallið er frá þeim áformum og samfara því verður unnið að bættri framkvæmd og endurskoðun regluverks.

Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi hækki tímabundið á árinu 2025 um 2.500 m.kr. til að mæta fyrirliggjandi vilyrðum.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Velsæld byggist á áframhaldandi sókn í rannsóknum og nýsköpun

7.1 Samkeppnissjóðir og alþjóðlegt samstarf

Verkefni

Málaflokkurinn nær yfir starfsemi Vísinda- og nýsköpunarráðs, innlenda samkeppnissjóði á sviðum vísinda og nýsköpunar og samstarfsáætlanir ESB 2021–2027. Lög sem gilda um málaflokkinn eru m.a. lög um Vísinda- og nýsköpunarráð, nr. 137/2022, lög um Tækniþróunarsjóð, nr. 26/2021, lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, og lög um Matvælasjóð, nr. 31/2020. Undir málaflokkinn falla Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Innviðasjóður, Markáætlun á sviði vísinda og tækni og Matvælasjóður. Um hlutverk einstakra sjóða má lesa á bls. 222 í fjármálaáætlun 2023–2027. Meðal samstarfsáætlana Evrópusambandsins 2021–2027 eru rannsókna- og nýsköpunaráætlunin Horizon Europe, mennta-, æskulýðs- og íþróttamálaáætlunin Erasmus+ og Digital Europe áætlun um stafræna innviði og færni. Þá tekur Ísland þátt í nýrri InvestEU-áætlun sem er ætlað að styðja við fjárfestingar í innviðum, rannsóknum og nýsköpun.

Helstu áskoranir

Áskorun nýrrar fjármálaáætlunar felst í að viðhalda og virkja enn frekar þann slagkraft sem myndast hefur á sviði vísinda og nýsköpunar undanfarin ár, m.a. með auknum framlögum vegna heimsfaraldurs. Tryggja þarf að fjárframlög til málefnasviðsins nýtist með skilvirkum og hagkvæmum hætti á þeim sviðum þar sem helst er þörf á opinberri aðkomu hverju sinni. Mikilvægt er að opinbert stuðningskerfi vísinda og nýsköpunar taki mið af hnattrænum og samfélagslegum áskorunum og efla þarf alþjóðlegt samstarf og þátttöku í evrópskum samstarfsáætlunum enn frekar.

Vinna þarf að því að viðhalda fjölda styrkja og árangurshlutfalli í stóru samskeppnissjóðunum og auka nýliðun á sviðinu en sjóðirnir eru ein helsta stoð grunnrannsókna og nýsköpunar.

Jarðhræringar, loftslagsmál, heilbrigðisþjónusta og stafræn umbreyting eru meðal stærstu áskorana sem stjórnvöld standa frammi fyrir og þeim verður best mætt með öflugum rann­sóknum, þróun og nýsköpun. Samspil háskóla- og rannsóknasamfélagsins og atvinnulífsins, leikur lykil­hlutverk í því sambandi.

Mikilvægi vísinda og nýsköpunar er jafnframt ótvírætt í tengslum við þá náttúruvá sem komið hefur fram á síðustu misserum í formi jarðhræringa og eldsumbrota. Einungis með því að skilja hættuna á grundvelli rannsókna er hægt að bregðast við henni á réttan hátt. Nýting þeirrar þekkingar sem skapast við rannsóknir og miðlun hennar er mikilvægur þáttur í að viðhalda seiglu og þekkingu samfélaga.

Örar tæknibreytingar og stafræn umbreyting fela í sér hvort tveggja í senn, tækifæri til framfara en jafnframt áskorun fyrir atvinnulíf og samfélag. Mikilvægt er bæði fyrir samkeppnishæfni og velferð þjóðarinnar að virkja þau tækifæri sem fylgja stafrænni umbreytingu á alþjóðlegum vettvangi en tryggja á sama tíma að samfélagið og innviðir þess séu nógu sterkir og öruggir til að takast á við þær breytingar. Hér verður sérstaklega litið til hraðrar þróunar gervigreindar og stefnumótunar á því sviði.

Ýmsar áskoranir eru til staðar hvað varðar kynjahlutfall í vísindum og þekkingargreinum. Þar má nefna að þó að árangurshlutfall kvenna sem verkefnisstjóra í samkeppnissjóðum rannsókna og nýsköpunar sé jafn hátt og karla og ívið hærra undanfarin ár, þá fá mun færri konur en karlar styrki. Því er mikilvægt að auka þátttöku kvenna í samkeppnis- og fjárfestingarsjóðum hins opinbera á sviði rannsókna og nýsköpunar og bregðast við með aukinni miðlun tækifæra til fjölbreyttari hópa og hvatningu til umsækjenda. Sem dæmi má nefna úthlutun öndvegisstyrkja Rannsóknasjóðs en þar hafa aðeins 11 konur fengið styrk frá upphafi og 55 karlar. Í úthlutunum síðustu þriggja ára hefur þó hlutfall styrkja skipst jafnt á milli kynja.

Tækifæri til umbóta

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður tekist á við samfélagslegar áskoranir með hag almennings að leiðarljósi sem grundvallast á þeirri forsendu að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags. Vísinda- og nýsköpunarráð mun á tímabilinu móta og leggja fram tillögu um framtíðarsýn til tíu ára og munu helstu umbótaverkefni á sviðinu taka mið af þeirri sýn.

Samkeppnishæft þekkingarsamfélag þarf markvissa fjárfestingu, jafnt í grunnrannsóknum sem hagnýtum rannsóknum og mikilvægt er að tryggja gott rannsóknarumhverfi fyrir framúrskarandi vísindafólk. Öflugir samkeppnissjóðir í rannsóknum og nýsköpun eru ein af forsendum samkeppnishæfni íslensks vísinda- og nýsköpunarumhverfis og mikilvægur grunnur að sókn í erlenda sjóði og samstarfsáætlanir. Sjóðirnir eru lykilforsenda þess að ungt vísindafólk fái þjálfun á sínu fræðasviði, frumkvöðlar hefji vinnu við þróun nýrra lausna og sérfræðingum fjölgi í þekkingariðnaði. Árangur af hækkuðum framlögum til samkeppnissjóða á sviði rannsókna og nýsköpunar, sem viðspyrnu við áhrifum COVID-19 heimsfaraldurs, er að koma í ljós, hvort sem litið er til vísindastarfs eða nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs. Mikilvægt er að tryggja áfram öflugan stuðning við samkeppnissjóði á þessu sviði og auka þátttöku í alþjóðlegum samstarfsáætlunum í þágu velsældar, samkeppnishæfni og uppbyggingar í hugvitsiðnaði. Fjölmargar rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, hafa sýnt fram á að framlög til grunnrannsókna og nýsköpunar skila sér margfalt til baka til samfélagsins í formi nýrra starfa, fyrirtækja, þekkingar, lausna og bættra lífsgæða til lengri tíma. Af þeirri ástæðu verða settar á fót nýjar markáætlanir á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar, annars vegar um náttúruvá og hins vegar á um tungu og tækni en bæði þessi viðfangsefni eru mikilvæg til að viðhalda sérstöðu og seiglu íslensks samfélags. Íslensku samkeppnissjóðirnir og þátttaka í samstarfsáætlunum ESB styður við allar helstu velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. virkni í námi og starfi, kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og bætt andlegt heilbrigði borgaranna.

Margir samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar eru starfræktir hér á landi. Sumir þessara sjóða eru sértækir, smáir, með lítinn markhóp og takmarkaðan sýnileika. Talsverður ávinningur getur falist í því að samræma markmið sjóðanna, auka aðgengi að þeim og tryggja að fjármagnið nýtist samfélaginu á sem bestan hátt.

Á tímabilinu er áætluð endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með það að leiðarljósi að einfalda umgjörð starfseminnar og skýra ábyrgð hinna ýmsu aðila í stefnumótun og framkvæmd þeirrar starfsemi sem fellur undir ábyrgðarsvið laganna. Samhliða fer fram endurskoðun á sjóðakerfi rannsókna og nýsköpunar í þágu einföldunar, aukinnar skilvirkni og betri þjónustu. Unnið verður að bættri samkeppnisumgjörð, fækkun sjóða og einfaldara og aðgengilegra umsóknarferli fyrir umsækjendur í gegnum eina umsóknargátt. Markmiðið er að auka slagkraft sjóðanna, minnka yfirbyggingu og bæta þjónustu við umsækjendur.

Mikil tækifæri felast í þeirri vinnu og verður m.a. lögð áhersla á aðgerðir sem auka getu sjóðanna til að mæta áskorunum, bæta aðgengi og stuðla að jafnara kynjahlutfalli þegar kemur að fjölda umsókna og úthlutunum úr samkeppnissjóðum. Þá verður unnið að innleiðingu laga um vandaða starfshætti í vísindum og stefnumótun um opin og ábyrg vísindi.

Ein af forsendum þess að íslenskir vísindamenn og frumkvöðlar dragist ekki aftur úr á alþjóðavísu er gott aðgengi að hágæðarannsóknarinnviðum, s.s. tækjum, aðstöðu og gagnagrunnum. Unnið verður að nýjum Vegvísi um rannsóknarinnviði með það að markmiði að stuðla að markvissri uppbyggingu innviða til framtíðar og bættu aðgengi ásamt því að þátttaka í alþjóðasamstarfi um rannsóknainnviði verður tryggð.

Markmið um kolefnishlutlausa framtíð er ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar í samræmi við alþjóðlegar áherslur í loftslagsmálum. Lögð verður áhersla á vísindalegar aðferðir, hugvit og nýsköpun sem verkfæri í baráttunni við að ná þessum markmiðum. Hér er m.a. um að ræða vísindalegar greiningar á stöðu loftslagsmála í heiminum, aðferðir hringrásarhagkerfis til að tryggja sjálfbæra nýtingu hráefna og þróun grænna tæknilausna til að minnka losun koltvísýrings í andrúmsloftið.

Unnið verður að því að efla samstarf opinberra aðila og einkaaðila í rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðismálum og móta stuðningsumhverfi og regluverk sem hvetur til framfara og aukins heilbrigðis.

Unnið verður að því að móta regluverk og umgjörð um stafrænar tæknibreytingar í samræmi við alþjóðlega staðla í þeim tilgangi að stafræn umskipti skili sér í aukinni hagsæld á landsvísu og feli ekki í sér aukna aðgreiningu í þjóðfélaginu.

Áhættuþættir

Mikil tengsl eru á milli málaflokks 7.1 og málaflokks 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi en án öflugrar fjárfestingar í háskólum og rannsóknarstofnunum er hætta á dvínandi gæðum mannauðs, takmarkaðri uppbyggingu innviða og versnandi vistkerfi rannsókna og nýsköpunar. Talsverð áhætta er fólgin í lækkandi árangurshlutfalli sjóða þegar færri umsækjendur fá styrk getur það virkað letjandi á umsækjendur og komið í veg fyrir að sjóðirnir nái að fanga bestu hugmyndirnar. Því er mikilvægt að sjóðirnir hafi bolmagn til að fjármagna þær umsóknir sem fá framúrskarandi einkunn í gæðamati svo hægt sé sem best kraftinn í íslensku rannsókna- og nýsköpunarumhverfi.

Markmið og mælikvarðar

Markmiðin sem birtast í málaflokki 7.1 eru samtvinnuð fjárfestingu í háskólum og rannsóknarstarfsemi (sjá málefnasvið 21).

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Vísindastarf á heimsmælikvarða.

8.2

1. Fjöldi R & Þ starfa í fyrirtækjum og stofnunum.

4.600

4.700

> 5.000

8.2

2. Hlutfall sambirtinga í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.

79%

80%

> 80%

Hagnýting hugvits og nýskapandi lausnir á brýnum samfélagslegum áskorunum.

 

8.2

3. Opinn aðgangur að rannsóknaniðurstöðum.

67%

75%

85%

8.2

4. Fjöldi einkaleyfa veitt á Íslandi.

8

12

20

8.2

5. Styrkfé í lausnir við samfélagslegum

áskorunum, m.kr.

847

1.500

>2.300

Virkt alþjóðlegt samstarf á sviði menntunar, vísinda og nýsköpunar.

8.2

6. Styrkir úr Samstarfsáætlunum ESB á hvern íbúa (EUR).

131

130

140

8.2

7. Árangurshlutafall í Horizon Europe-áætlun ESB.

25%

20%

25%

1. Hagstofan. Gögn 2022. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__visinditaekni__rannsoknthroun/FYR05107 
2. *Scimago Journal & Country Rank: www.scimagojr.com/countrysearch.php?country=IS gögn frá 2022.
3. Scopus. https://www.scopus.com. Gögn frá árinu 2023. vegið meðaltal síðustu þriggja ára.
4. Hugverkastofa. Gögn 2023.Einkaleyfi veitt innlendum og erlendum aðilum.
5. RANNÍS. Gögn 2023. Styrkir Markáætlunar og Tækniþróunarsjóðs merktir HM 2,3,7,11,12,13,
6. Rannís. Gögn 2022.
7. Gögn fengin úr Horizon Dashboard, Country Profile Iceland: ec.europa.eu/info/funding-tenders/opportunities/portal/screen/opportunities/horizon-dashboard. Gögn sótt febrúar 2024.

Frá fyrri fjármálaáætlun hafa verið gerðar eftirfarandi breytingar á töflu yfir markmið og mælikvarða fyrir málaflokk 7.1. Mælikvarði 2 um fjölda sambirtinga í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum notaðist áður við fjölda sambirtinga en hefur nú verið breytt í hlutfall sambirtinga af heildarbirtingum í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Mikilvægt er að hlutfall sambirtinga haldist stöðugt eða hækki á meðan heildarfjöldi birtinga er breytilegur á milli ára. Stöðu og viðmiðum fyrir mælikvarða 6 hefur verið breytt til að endurspegla annars vegar að um er að ræða allar samstarfsáætlanir ESB og að miðað er við eitt ár en áður hafði verið miðað við rannsóknaáætlun ESB yfir sjö ára tímabil. Orðalagi mælikvarða 7 hefur verið breytt úr Árangurshlutfall í ESB áætlunum í Árangurshlutfall í Horizon Europe-áætlun ESB til að skerpa á undirliggjandi gögnum.

7.2 Nýsköpun, hugvitsiðnaður og samkeppnishæfni

Verkefni

Málaflokkurinn nær yfir stuðningsumhverfi og aðgerðir í þágu nýsköpunar, hugvitsiðnaðar og skapandi greina. Undir málaflokkinn heyrir m.a. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Hugverkastofa, Kría  ̶  sprota- og nýsköpunarsjóður, styrkir til nýsköpunarfyrirtækja í formi skattendurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar á tónlist. Lög sem gilda um málaflokkinn eru m.a. lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, lög um Kríu  ̶ sprota- og nýsköpunarsjóð, nr. 65/2020, lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, lög um einkaleyfi, nr. 17/1991, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, og lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016.

Áhersla stjórnvalda á stuðning við fjölbreyttar stoðir efnahagskerfisins birtist m.a. í aukinni opinberri fjárfestingu í skapandi greinum. Til skapandi greina teljast m.a. bókmenntir, fjölmiðlun, hönnun og arkitektúr, kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð, safnastarf og miðlun menningararfs, myndlist og starfsemi gallería, sviðslistir, tónlist, tölvuleikjagerð og hugbúnaðarþróun sem þeim tengist.

Helstu áskoranir

Áskoranir í málaflokki 7.2 eru að mestu leyti þær sömu og lýst er í málaflokki 7.1. Í báðum málaflokkum felast áskoranir um að efla vísindi, nýsköpun og þekkingargreinar til að styðja við almenna velsæld hér á landi og samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Aðgerðir tengdar málefnasviði sjö miða þannig að því að byggja upp samfélag vísinda, þekkingar, nýsköpunar og hugverkaiðnaðar með það að markmiði að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna útgjalda til rannsókna og þróunar er einn mikilvægasti liðurinn í opinberum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Þessi stuðningur skilar miklu til samfélagsins í formi öflugra rannsókna og þróunarstarfs en samkvæmt skýrslu sem OECD vann fyrir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, þá leiðir stuðningurinn til fjölgunar sérfræðistarfa og aukins útflutnings frá fyrirtækjum í tækni- og hugverkaiðnaði. Frá því að lögin um endurgreiðslurnar tóku gildi árið 2010 og til ársins 2022 hafa útflutningstekjur tækni- og hugverkaiðnaðar tæplega fjórfaldast. Fyrirtæki í geiranum spá því að útflutningstekjurnar geti þrefaldast á milli áranna 2022 og 2027 og undirstrika þessar tölur mikilvægi þess að styðja vel við nýsköpun á Íslandi. Í fjármálaáætlun 2024–2028 er gert ráð fyrir að tímabundin hækkun endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði nýsköpunarfyrirtækja, vegna rekstraráranna 2020 til 2024, falli úr gildi árið 2025 og komi til lækkunar á útgjaldaramma málefnasviðsins árið 2026. Nú er fallið frá þeim áformum og munu útgjöld vegna stuðningsins aukast frá gildandi fjármálaáætlun frá og með árinu 2026. Í skýrslu OECD var bent á atriði sem mega betur fara í regluverki og framkvæmd þessa stuðnings og fylgja þarf þeim ábendingum eftir, í þágu aukinnar skilvirkni, aðhalds og betri þjónustu.

Meðal frumkvöðla og sprotafyrirtækja í nýsköpun hefur komið fram að skortur sé á fjármagni á því tímabili frá því að samkeppnissjóðir hætta að styðja við tiltekin verkefni og þar til fjárfestar sýna þeim áhuga. Þetta á ekki síst við á þeim sviðum nýsköpunar sem kalla á langt þróunartímabil og „þolinmótt fjármagn“. Önnur áskorun á sviði nýsköpunar felst í því að verkefni, sem eru komin lengra á veg, vantar stuðning til frekari rannsókna, þróunar og vaxtar á alþjóðavettvangi.

Hlutfall kvenna á meðal frumkvöðla er lágt á Íslandi sem og öðrum Norðurlöndum og sýna niðurstöður greiningar Northstack að á árinu 2023 fengu kvenkyns teymi einungis 3,5% fjármagns og blönduð teymi 9,8% fjármagns frá fjárfestum. Teymi sem voru einungis samansett af körlum fengu hins vegar um 86,7% af fjármagninu. Þegar litið er til umsókna um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar árið 2022 voru karlar um 68% tengiliða umsókna við Rannís og flest nýsköpunarfyrirtæki, sem njóta endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, eru í tæknigeiranum þar sem karlar eru að meiri hluta starfandi.

Brýnt er að efla heildræna gagnasöfnun og rannsóknir á sviðum skapandi greina, kortleggja virðisauka þeirra og framlag til samfélagsins. Staða greinanna er afar ólík og frekari stefnumörkun nauðsynleg til þess að tryggja megi betri samkeppnishæfni þeirra til framtíðar.

Vöxtur hefur verið í kvikmyndaiðnaði á Íslandi á undanförnum árum með mælanlegum jákvæðum efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Hefur sú þróun haldist í hendur við samkeppnishæft endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar, á alþjóðavísu. Mikilvægt er að viðhalda samkeppnishæfni kerfisins með áherslu á fjármögnun, fyrirsjáanleika og skilvirkni. Sama á við um endurgreiðslukerfi vegna hljóðritana á Íslandi þar sem einnig hefur verið vöxtur á undanförnum árum.

Tækifæri til umbóta

Eins og í málaflokki 7.1 eru tækifæri til að beita verkfærum vísinda, nýsköpunar og þekkingargreina til að mæta helstu samfélagslegu áskorunum framtíðarinnar, s.s. gagnvart náttúruvá, í loftslagsmálum, heilbrigðismálum og öðrum stafrænum breytingum. Nauðsynlegt er að hugvitið verði virkjað til tækifæra til að leysa úr stórum samfélagslegum viðfangsefnum

og nýsköpun höfð að leiðarljósi gagnvart þessum stærstu áskorunum samfélagsins. Ekki er nóg að stunda rannsóknir og þróun á sviði nýsköpunar heldur þarf að fylgja því starfi eftir með öflugri innleiðingu nýrra lausna svo íslenskt samfélag megi njóta alls þess ávinnings sem hugvitið getur boðið upp. Breytt stjórnskipan með ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar gefur tækifæri til aukinnar samhæfingar í þessum málaflokkum.

Eitt af forgangsverkefnum ráðuneytisins felst í endurskoðun á aðkomu ríkisvaldsins að fjármögnunarumhverfi nýsköpunar. Unnið er að endurskoðun stuðningsumhverfis nýsköpunar með skilvirkni og góða þjónustu að leiðarljósi. Í því felst m.a. að mæta mismunandi þörfum eftir vaxtarskeiði frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, styðja við þróunarstarf í rótgrónum fyrirtækjum og efla nýsköpunarstarf á landsbyggðinni. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um að kraftar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs verði sameinaðir í Nýsköpunarsjóðnum Kríu. Gert er ráð fyrir að framlög í sjóðinn nemi 3 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar, sem komi í gegnum 6. gr. heimild fjárlaga, til að fjármagna nýsköpun, með fjárfestingum í sjóðum og beinni fjármögnun fyrirtækja.

Samhliða aukningu á fjárframlögum vegna endurgreiðslna til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarkostnaðar þarf að fara yfir framkvæmd þeirra og breyta regluverki eftir því sem við á með það að markmiði að auka skilvirkni, bæta þjónustu og lækka kostnað.

Unnið verður að því að auka nýsköpun og styrkja innviði í stafrænni tækni og fjarskiptum, m.a. í samstarfi við Digital Europe áætlun ESB. Stefnt er að eflingu nýsköpunar á landsvísu með sérstökum framlögum til verkefna á landsbyggðinni og áhersla lögð á stuðning við sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á sviði hátækni, í nánu samstarfi við háskólasamfélagið. Þá verður sjónum beint að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðistækni og auknu samstarfi milli sprotafyrirtækja og stofnana í heilbrigðisþjónustu.

Af öðrum stefnumótandi stuðningi stjórnvalda má nefna stuðning við grænar tæknilausnir og hugverkaiðnað í þágu loftslagsmála, þ. á m. stuðning við sókn í alþjóðleg samstarfsverkefni. Áhersla verður á að styðja ímynd og gæði íslensks iðnhandverks í samstarfi stjórnvalda og samtaka á vinnumarkaði og móta stefnu um sjálfbæran þekkingariðnað.

Áhersla er á samkeppnishæft atvinnulíf innanlands sem utan. Unnið hefur verið að einföldun regluverks og markvissum aðgerðum sem gera erlendum sérfræðingum og fjölskyldum þeirra kleift að búa og starfa hér á landi um lengri eða skemmri tíma.

Tækifæri eru á málefnasviðinu til þess að líta til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Stuðningskerfi nýsköpunar á Íslandi er víðfeðmt en misjafnt hvernig kynin nýta sér það. Tækifæri eru í því fólgin að auka sókn kvenna í nýsköpun í þau verkfæri sem stuðningskerfið býður og höfða betur til annarra minnihlutahópa í nýsköpun, s.s. frumkvöðla á landsbyggðinni og af erlendum uppruna. Unnið verður markvisst að því að auka hlutfall fjármagns til kvenkyns stofnendateyma sem og til blandaðra teyma. Hluti af markmiðunum með Nýsköpunarsjóðnum Kríu er að leggja sérstaka áherslu á að fjárfesta í góðum sprotaverkefnum sem er stýrt af konum og á þann hátt væri að einhverju leyti hægt að leiðrétta kynjahallann í sprotaumhverfinu. Einnig verður lögð áhersla á að miðla tækifærum til allra hópa og þar með auka fjölbreytni umsækjenda. Hluti af því verður að hvetja konur til þátttöku í sprotaumhverfinu. Lögð verður sérstök áhersla á að ýta undir fjölbreytileika í fjármögnunarumhverfi nýsköpunar en fram hefur komið að einsleitt umhverfi bitnar frekar á konum en körlum. 

Unnið er að umbótum á starfs- og rekstrarumhverfi atvinnulífs skapandi greina. Í því felst m.a. aukin samhæfing stuðnings- og sjóðakerfa með bætt aðgengi og skilvirkni að leiðarljósi. Stefnumótun mismunandi listgreina miðar einnig að aukinni gagnaöflun, greiningum og kortlagningu á samfélagslegu mikilvægi og áhrifum menningar og skapandi greina.

Áherslur í málaflokknum styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um grósku í nýsköpun þar sem m.a. er stefnt að kolefnishlutlausri framtíð, virkara fjárfestingaumhverfi og jafnrétti í fjárfestingum.

Áhættuþættir

Markmiðin sem birtast í málaflokki 7.2 eru líkt og í 7.1 samtvinnuð fjárfestingu í háskólum og rannsóknarstarfsemi (sjá málefnasvið 21). Án öflugrar fjárfestingar í háskólum og rannsóknarstofnunum er hætta á dvínandi gæðum mannauðs, takmarkaðri uppbyggingu innviða og versnandi vistkerfi rannsókna og nýsköpunar. Aðrir áhættuþættir, sem tengjast málefnasviði 7.2, snúa m.a. að almennu fjármögnunarumhverfi nýsköpunar sem er síbreytilegt og háð almennum aðstæðum á markaði. Það er því mikilvægt að opinber aðkoma að umhverfinu sé gagnsæ en að sama skapi sveigjanleg þannig að fjármagni sé beint þangað sem þörfin er mest hverju sinni og möguleikar séu til þess að bregðast hratt við breyttum aðstæðum með nýjum afurðum eða þjónustu.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Bætt samkeppnisstaða

í alþjóðlegu samhengi.

9.b.1

8. Hlutfall tækni- og hugverkaiðnaðar af útflutningstekjum.

13%

14%

>16%

9.b.1

9. Hlutfall R&Þ af VLF.

2,7%

2,9%

>3%

Aukin hagnýting tæknilausna í þágu samfélagslegra áskorana.

9.4.1

10. Hlutfall eignasafns NSA/NSK í samfélagslegum verkefnum.

54%

60%

>70%

9.4.1

11. Losun GHL á ábyrgð Íslands (ESR) / frá iðnaði (ESR), kt CO2-ig.

 

2831/156

2727/147

2400/69

Ný og fjölbreytt störf skapist í þekkingargreinum.

9.b.1, 9.5.2

12. Fjöldi launþega í tækni- og hugverkaiðnaði.

17.500

18.000

19.500

9.b.1, 9.5.

 

13. Fjöldi erlendra starfsmanna í vísindalegri og tæknilegri starfsemi.

 

930

 

1000

 

1400

 

5.5

14. Hlutfall fjárfestinga til kvenkyns/blandaðra stofnendateyma.

3,5/9,8%

10/25%

>15/>40%

           

8. Sérvinnsla frá Hagstofunni. Gögn 2023.
9. Hagstofan. Gögn 2022. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__visinditaekni__rannsoknthroun/FYR05101.px
10 Horfið frá fyrri mælikvarða vegna þess hversu gagnasöfnun var torveld. Tölur í endurnefndum mælikvarða eru fengnar frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og sýna hlutfall fyrirtækja sem vinna að samfélagsverkefnum í eignasafni sjóðsins.fyrir 2023.
11. Umhverfisstofnun. ust.is/library/Skrar/loft/NIR/0_PaMsProjections_Report_2023_WITH%20BOOKMARKS.pdf
12. Hagstofan. Gögn 2023. Breyttur gagnabrunnur frá síðustu fjármálaáætlun. Núverandi tölur marka mælikvarðann mun betur. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__3_tekjur__0_stadgreidsla/TEK02002.px
13. Hagstofan. Gögn 2023. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__vinnumarkadur__vinnuaflskraargogn/VIN10030.px
14. Northstack greining á íslensku sprotaumhverfi.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum