Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi sem felur í sér hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og vegna sorgarorlofs

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar sameiginlegra aðgerða ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem kynntar voru í mars sl. til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára.

„Framangreindum aðgerðum ríkisstjórnar Íslands og Sambands Íslenskra sveitarfélaga er meðal annars ætlað að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila sem koma að gerð kjarasamninga um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta,“ sagði ráðherra meðal annars í framsöguræðu sinni sl. fimmtudag.

„Þá er aðgerðunum jafnframt ætlað að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga.“

Hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði

Ein af þeim aðgerðum sem um ræðir er hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í þremur áföngum eða úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000. kr. á mánuði.

Samkvæmt ofangreindu frumvarpi er gert ráð fyrir að hámarkgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hækki í fyrsta áfanga úr 600.000 kr. á mánuði í 700.000 kr. og að sú breyting taki gildi frá og með 1. apríl 2024.

Gert er ráð fyrir að fyrirhugaðar breytingar á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2025 og 2026 verði síðan gerðar með reglugerð.

„Í því skyni að viðhalda öflugu fæðingarorlofskerfi þykir mikilvægt að mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra, sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs, haldi í við launaþróun í landinu þannig að foreldrar sjái hag í að fullnýta réttinn og takmarki ekki nýtinguna vegna of mikillar röskunar á tekjum sínum meðan á fæðingarorlofi stendur,“ sagði Guðmundur Ingi á Alþingi.

Hækkun á hámarksgreiðslum vegna sorgarleyfis

Mikilvægt þykir að fjárhæðir á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof og laga um sorgarleyfi séu þær sömu á hverjum tíma og er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að við lög um sorgarleyfi verði bætt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að mánaðarleg hámarksgreiðsla til foreldris í sorgarleyfi skuli aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024. Breytingar vegna áranna 2025-2026 verði síðan gerðar á grundvelli reglugerðar.

Með þessu er komið í veg fyrir að foreldrar sem verða fyrir barnsmissi á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði fyrir tekjufalli við það að fá greiðslur í sorgarleyfi eftir barnsmissinn í staðinn fyrir að fá áframhaldandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

„Þá stuðlar hækkun á hámarksgreiðslum til foreldra í sorgarleyfi að meginmarkmiðum laga um sorgarleyfi sem er meðal annars að veita foreldrum í sorgarleyfi svigrúm til sorgarúrvinnslu ásamt því að auka líkur á því að foreldrar í slíkri stöðu geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og geti tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju,“ kom fram í framsöguræðu ráðherra.

Reglugerð birt um hækkun á greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa

Auk ofangreinds frumvarps hefur ráðherra birt reglugerð um hækkun á greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa og er hún einnig hluti af aðgerðum til að greiða fyrir kjarasamningum.

Hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa verður hækkuð í þremur skrefum, úr 633.000 kr. í 850.000 kr. þann 1. apríl 2024 og í 970.000 kr. þann 1. janúar 2025.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum