Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænar samstarfsáætlanir – opið fyrir álitsinnsendingar til 26. apríl

Norræna ráðherranefndin hefur samið nýjar samstarfsáætlanir fyrir næsta tímabil framtíðarsýnarinnar, 2025–2030. Samstarfsáætlanirnar koma í stað núverandi fjögurra ára framkvæmdaáætlunar sem fellur úr gildi við lok árs 2024. Samstarfsáætlanirnar lýsa pólitískum áherslum og markmiðum einstakra ráðherranefnda fyrir næsta sex ára tímabil og þeim er ætlað að stýra starfi þeirra við að uppfylla „Framtíðarsýn okkar fyrir 2030“.

Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030. Samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á að þjóna því markmiði.

Ráðherranefndin hefur sett samstarfsáætlanirnar í opið samráð frá 26. mars til 26. apríl. Við gerð samstarfsáætlananna var lögð áhersla á að frjáls félagasamtök, atvinnulíf og aðrir viðeigandi aðilar kæmu að ferlinu. Áhugasöm geta kynnt sér áætlanirnar og gefið álit á vef Norræns samstarfs.

Um „Framtíðarsýn okkar 2030“

Framtíðarsýn Norðurlanda er að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Allt samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á að þjóna því markmiði. Norræna ráðherranefndin vinnur fram að árinu 2030 samkvæmt þremur stefnumarkandi áherslum til að uppfylla þessa framtíðarsýn:

Græn Norðurlönd – saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.

Samkeppnishæf Norðurlönd – saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd – saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum