Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landvarsla aukin á Reykjanesskaga

Frá eldgosi í Fagradalsfjalli 2021. - myndHugi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftsslagsráðherra, hefur ákveðið að veita auknu fjármagni í landvörslu á gosstöðvunum á Reykjanesskaga. Jarðhræringar og eldgos undanfarinna þriggja ár hafa orðið til þess að umferð gesta um Reykjanesskaga hefur stóraukist.

Umhverfisstofnun hefur þurft að bregðast við þessari auknu umferð með því að ráða reglulega landverði til skamms tíma sem hafa auk hefðbundinna verkefna landvarða, s.s. fræðslu til gesta og eftirliti vegna viðkvæmrar náttúru, verið viðbragðsaðilum og lögreglu innan handar með ýmsa upplýsingagjöf. Það samstarf hefur reynst vel og hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið nú, í samvinnu við Umhverfisstofnun, ákveðið að ráðnir verði tveir landverðir til að sinna þeim landvörsluverkefnum sem upp koma á svæðinu og er  til viðbótar við landvörð í dag sinnir öllu Suðvesturhorninu.

Í ljósi óvissuþátta sem tengjast umbrotunum á Reykjanesskaga verða landverðirnir ráðnir til tveggja ára og verður þörf á áframhaldandi landvörslu endurskoðuð að þeim tíma liðnum.  

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Umbrotunum á Reykjanesskaga undanfarin ár hefur fylgt aukin umferð ferðamanna um svæði sem á köflum er viðkvæmt og ekki hættulaust. Þar sem engar vísbendingar eru enn um að draga muni úr jarðhræringunum á næstunni hef ég samþykkt að veita auknu fjármagni í landvörslu á gosstöðvunum svo hægt sé að bregðast við aukinni umferð um svæðið til lengri tíma.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum