Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Embætti forstjóra Veðurstofu Íslands auglýst laust til umsóknar

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra auglýsir embætti forstjóra Veðurstofu Íslands laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til 11. desember næstkomandi.

Veðurstofa Íslands er stofnun sem starfar undir yfirstjórn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum um Veðurstofu Íslands, nr. 70/2008. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar í embætti forstjóra Veðurstofu Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri ber ábyrgð gagnvart ráðherra í samræmi við lög og skipurit stofnunarinnar og mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti Veðurstofunnar, auk þess að bera stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri og faglegri starfsemi stofnunarinnar.

Leitað er að leiðtoga sem hefur framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.  Viðkomandi þarf að vinna vel undir álagi og vera agaður og skilvirkur í vinnubrögðum. Mikilvægt er að viðkomandi hafi góða hæfni í að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku. Við mat á umsækjendum verður jafnframt miðað við kjörmynd stjórnenda út frá stjórnendastefnu ríkisins.

Veðurstofan gegnir lykilhlutverki með því að stuðla að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar jafnframt því að styðja sjálfbæra nýtingu hennar og samfélagslega hagkvæmni. Það gerir stofnunin með rauntímavöktun, öflun, varðveislu og úrvinnslu gagna og rannsókna, sem og miðlun upplýsinga á helstu eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, jörð, snjó, jöklum og hafi. 

Á Veðurstofunni starfa um 145 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræða­svið. Auk þess starfa um 70 manns við athugana- og eftirlitsstörf víðsvegar um landið.

Helstu verkefni Veðurstofu Íslands eru að annast vöktun vegna náttúruvár, að sjá um rekstur veðurfræðilegra grunnkerfa og annast veðurþjónustu. Auk þess að sinna vatnamælingum og að annast mælingar á snjóalögum. Einnig sinnir stofnunin mælingum á hvers kyns jarðhræringum auk þess að safna upplýsingum um eldgos og öskufall en jafnframt að vinna hættumat vegna náttúruhamfara ásamt öðrum rannsóknum á starfssviði stofnunarinnar.  Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á heimasíðu hennar www.vedur.is

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um stöðuna.

Upplýsingar um embættið veitir Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, [email protected].

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum