Fréttir af umhverfisþingi

Ávarp ráðherra

18.1.2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherraÉg vona að þessi samantekt, líkt og öll önnur vinna við Umhverfisþing 2009, endurspegli sjálfbæra þróun í reynd. Sjálfbær þróun er ekki kyrrstaða eða ástand, heldur felst hún í sífelldri endurskoðun, virkni og þróun. Þegar kemur að því að móta stefnu ríkisins í sjálfbærni dugar ekki að setja nokkra sérfræðinga í fundarherbergi og setja þeim það verkefni að semja stefnuna. Stefnu ríkisins í sjálfbærri þróun þarf að finna með lýðræðislegri aðferð sem endurspeglar sjálfbærni.
 
Sú aðferð er í raun einföld. Hún felst í því að skapa aðstæður þar sem allir hópar þjóðfélagsins geta haft rödd, og sem flestir leggja hönd á plóg. Á Umhverfisþingi 2009 var einn liður í að skapa þær aðstæður mikill fjöldi erinda, þar sem hægt var að kynna sér þá ótal möguleika sem fyrir hendi eru. Þessi erindi vöktu mig og aðra fundargesti til umhugsunar. Enn mikilvægara var svokallað „heimskaffi,“ þar sem fundargestir sjálfir skiptust á skoðunum á raunverulegum samráðsvettvangi. Þessir samráðsfundir eru leið sem tryggir virkni og þátttöku allra og eru þar með lýðræðislegir í raun og veru. Ég er ánægð að sjá hversu vel gekk að ná niðurstöðum á heimskaffinu, en samantekt þeirra má lesa hér á síðunni.
 
Fyrir Umhverfisþingi 2009 lágu drög að stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, Velferð til framtíðar. Almenningi var boðið að gera athugasemdir við drögin, sem og þátttakendum í þinginu sjálfu, og nú er langt komin vinna við að taka tillit til þeirra athugasemda innan umhverfisráðuneytisins. Ég bíð spennt eftir að geta kynnt þá stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun sem kemur út úr þessu ferli – stefnu sem ekki aðeins fjallar um sjálfbærni heldur hefur orðið til með því móti að tryggja virkni og aðkomu sem flestra, með sjálfbærri þróun.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.