Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnunni Að móta byggð

Skipulagsstofnun
Skipulagsstofnun

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag um leið og ég fagna því framtaki Skipulagsstofnunar að stuðla að aukinni umræðu um gæði hins byggða umhverfis m.a. með þessari ráðstefnu sem haldin er hér í dag og þeim fimm málstofum sem haldnar hafa verið sem hluti af undirbúningi hennar. Fræðsluátak Skipulagsstofnunar síðustu missirin er að mínu mati til sérstakrar fyrirmyndar.

Mörkun stefnu í skipulagsmálum er einhver mikilvægasta stefnumörkun sem fram fer í samfélagi okkar og jafnframt einhver sú vandmeðfarnasta. Það hefur reynslan sýnt okkur. Þið sem starfið í þessum geira vitið örðum betur hversu mikilvægt er að vanda til verka varðandi slíka stefnumörkun og hvernig best er að nálgast vinnuna við hana. Með vaxandi byggð og auknu umfangi atvinnustarfsemi, en ekki síst aukinni meðvitund um áhrif skipulagsákvarðana á umhverfi og náttúru, verður stefnumörkun um mótun byggðar æ þýðingameiri.

Lykilhugtak í skipulagsgerðinni er "landnotkun", þar sem við gerð skipulags eru teknar ákvarðanir um framtíðarnotkun lands. Hér vil ég minna á að hlífa landi við framkvæmdum hlýtur líka að teljast "landnotkun" í ljósi þessa. Þar sem skipulag er í eðli sínu langtímastefnumörkun má líta á skipulag sem gagnlegt tæki til umhverfisverndar. Okkur Íslendingum hefur hins vegar gengið nokkuð treglega að skilja hversu mikilvægt það er að áhrif skipulags á þróun umhverfisis og náttúru séu skoðuð samhliða mótun framkvæmdasvæða, þannig að skipulagsgerðin nýtist sem tæki til umhverfisverndar og til að treysta sjálfbæra þróun í sessi.

Okkur hefur líka reynst nokkuð flókið að stýra ákvarðanatökuferlinu og samtali þeirra ólíku aðila sem að skipulagsákvörunum koma. Við höfum orðið óþyrmilega vör við það hvernig við skipulagsákvarðanir þarf að horfa til andstæðra sjónarmiða og hversu mikilvægt er að þau séu skoðuð gaumgæfilega með formlegum hætti og fundinn farvegur sátta.

Sjáf er ég nokkuð ánægð með markmiðsgrein skipulags- og byggingarlaga og finnst hún fela í sér leiðsögn fyrir alla þá er koma að skipulagsmálum, jafnt af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Greinin leggur m.a. eftirfarandi skyldur á herðar þeirra er fara með skipulagsmál:

að þróun byggðar og landnotkunar verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi, og

að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Þarna er beinlínis gert ráð fyrir að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé grundvöllur stefnumótunar og ákvarðana er varða skipulag. Löggjafinn hefur að vísu fengið ákúrur fyrir að nota hugtakið "sjálfbær þróun" í lagatexta án þess að skilgreina það með fullnægjandi hætti, en ég tel nú að flestir sem vinna með skipulag viti hvað leiðsögnin felur í sér. Þó má eflaust taka undir mikilvægi þess að leiðsögnin sé vel rökstudd, ekki síst þegar kemur til kasta úrskurðaraðila og dómstóla að kveða upp úr um ágreiningsmál tengd skipulagi.

Mín sýn varðandi það efni sem ráðstefna þessi tekur til sérstakrar skoðunar "Mótun byggðar" tekur mið af minni sterkustu pólitísku ástríðu, sem er náttúru- og umhverfisvernd. Mér þykir það bera vott um framsýni og skilning á hugtakinu "sjálfbær þróun" að náttúru- og umhverfisvernd fái aukið vægi í skipulagi og við staðsetningu og hönnun mannvirkja. Nauðsynlegt er að viðurkenna mikilvægi óraskaðra svæða, ósnortinna víðerna og landslags. Gæta þarf að menningararfi þjóðarinnar sem að hluta til er fólginn í ýmis konar búsetuminjum, ekki bara í strjálbýli heldur ekki síður innan þéttbýlismarka. Það er sorglegt að vita til þess hversu margar slíkar minjar hafa þegar glatast vegna vanhugsaðra skipulagsákvarðana og skorts á stefnumörkun, og enn fleiri liggja undir skemmdum. Það er að mínu mati afar brýnt að ljúka skráningu allra menningarminja í landinu, kortleggja þær og tryggja vernd þeirra í viðeigandi umhverfi þannig að komandi kynslóðir fái sem gleggsta mynd af búsetu og lífi í landinu fyrr á tímum.

Skipulag á og þarf að vera virkt stjórntæki en ekki kortabók á hillum skipulagsyfirvalda. Sveitarfélögin sem hafa skipulagsvaldið þurfa í auknum mæli að móta stefnu um samskipti við almenning, sem þarf að lifa lífinu og búa við það skipulag sem ávkeðið verður. Skipulag og stefnumótun í skipulagsmálum hafa allt að segja um ásýnd og gæði byggðar og stuðlar þannig að vellíðan íbúanna. Á Norðurlöndunum hefur að undanförnu farið fram vinna, sem ég veit að hefur verið fylgst með af fagfólki héðan, varðandi samspil skipulags annars vegar og hins vegar ólíkra þátta eins og heilbrigðis og öryggis fólks, og síðast en ekki síst náttúruverndar. Sú vinna á vonandi eftir að skila sér í auknum skilningi stjórnmálamanna, sem móta stefnuna og skipulagsyfirvalda, sem á endanum eru ábyrgir fyrir ákvörðunum um skipulag. Þetta eru mikilvægir þættir og ég vænti þess að áherslur okkar og frændþjóða okkar fari saman hvað þetta varðar.

Lög sem sett hafa verið á undanförnum árum um mat á umhverfisáhrifum og umhverfismat áætlana hafa að mínu mati stuðlað að breyttri nálgun þeirra sem vinna að gerð skipulags jafnt skipulagsyfirvalda og framkvæmdaraðila. Það er í mínum huga áhyggjuefni hversu mikil andstaða hefur reynst vera við einstök ákvæði þesarar löggjafar. Sú andstaða er einmitt skýrt dæmi um hversu vandmeðfarinn málaflokkurinn er, en sýnir okkur glögglega hversu mikilvægt það er að við vinnum okkur í gegnum erfiðleikana og náum sátt um mikilvæg mál eins og stefnumótun í skipulagsmálum á landsvísu.

Við það vandasama verkefni er nauðsynlegt að horfa til framtíðar með langtímamarkmið varðandi þróun byggðar í huga en jafnframt þarf að huga að markmiðum til skemmri tíma og þeim leiðum sem fara skal til að ná markmiðum skipulagsins. Það er sanngjörn krafa íbúa og annarra hagsmunaaðila að hægt sé að treysta meginforsendum skipulags og að ekki sé hrært í samþykktu skipulagi eða farið á svig við stefnumarkandi þætti skipulags. Ekki er hægt að líta svo á að skipulag sem sýnir á ótvíræðan hátt hvers fólk getur vænst í sínu næsta nágrenni í einhverri framtíð sé skipulag sem sé umfram þörf dagsins í dag. Slíkar upplýsingar eru hluti af þörfum dagsins í dag.

Góðir ráðstefnugestir ég óska þess að dagurinn í dag verði ykkur faglega gagnlegur og að árangur ráðstefnunnar nýtist samfélaginu sem efniviður í kraftmikla stefnumörkun og betri skipulagshugmyndir en nokkru sinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum